Útboð á fjarskiptaþjónustu

Mánudaginn 16. febrúar 2004, kl. 15:32:33 (4245)

2004-02-16 15:32:33# 130. lþ. 64.1 fundur 325#B útboð á fjarskiptaþjónustu# (óundirbúin fsp.), ÁF
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 130. lþ.

[15:32]

Ásgeir Friðgeirsson:

Virðulegi forseti. Fjarskiptakostnaður ráðuneyta og ríkisstofnana í A-hluta fjárlaga nam 1.350 millj. kr. árið 2002 samkvæmt svari hæstv. fjmrh. við fyrirspurn. Ekki liggja fyrir upplýsingar um fjarskiptakostnað ríkisfyrirtækja og stofnana í B-, C-, D- og E-hluta. Varlega áætlaður fjarskiptakostnaður hins opinbera er því á ári nærri 1,5 milljarðar kr.

Samkeppni á fjarskiptamarkaði er nýtilkomin. Fjölmörg fyrirtæki og stofnanir hafa óskað tilboða í fjarskiptaþjónustu og sum þeirra stærstu hafa efnt til ítarlegra útboða. Dæmi eru um að fyrirtæki hafi lækkað kostnað af talsíma- og farsímaþjónustu um allt að 50%. Það er því ljóst að þegar heildarfjarskiptakostnaður hins opinbera er 1,5 milljarðar kr. getur ávinningur ríkissjóðs af útboðum numið 200 millj., 300 millj. og jafnvel mögulega meira en 400 millj. kr. á ári. Þetta eru fjárhæðir sem hæstv. fjmrh. hefur oft haft yfir en þó yfirleitt vegna þess að þeim hafi ekki verið til að dreifa þegar framlög til ýmissa mikilvægra velferðarmála hafa verið á dagskrá. Eðlilegt er því að ætla að hæstv. fjmrh. hafi fyrir margt löngu beitt sér fyrir útboðum stofnana og fyrirtækja sem undir hann heyra. En merkilegt nokk, svo er ekki. Símaþjónustufyrirtæki hins opinbera eru með milljarðatekjur í áskrift úr ríkissjóði.

Það sem kemur einnig á óvart er að samkvæmt svari hæstv. ráðherra hefur fjmrn. ekki haft döngun eða ekki séð ástæðu til að kanna hver er ávinningurinn af þeim útboðum sem þó hafa átt sér stað. Þá kemur einnig fram í svari hæstv. ráðherra að engin áform virðast uppi um frekari útboð á fjarskiptaþjónustu ráðuneyta og ríkisfyrirtækja.

Virðulegi forseti. Það hlýtur því að vera eðlilegt að spyrja hæstv. fjmrh.: Hvers vegna hefur fjmrn. ekki beitt sér fyrir útboðum á fjarskiptaþjónustu ráðuneyta, ríkisfyrirtækja og ríkisstofnana þegar ávinningur getur numið 100 millj. kr.?