Sveitarstjórnarlög

Þriðjudaginn 17. febrúar 2004, kl. 14:24:33 (4294)

2004-02-17 14:24:33# 130. lþ. 65.4 fundur 156. mál: #A sveitarstjórnarlög# (íbúaþing) frv., Flm. MF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 130. lþ.

[14:24]

Flm. (Margrét Frímannsdóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er algjörlega ósammála þessari niðurstöðu hv. þm. Ég tel að það sé nauðsynlegt að setja þetta í lög og taldi mig færa rök fyrir því að það þurfi a.m.k. á meðan verið er að koma því í fast form að sveitarfélögin haldi íbúaþing sem eru með svolítið öðrum hætti en þeir fundir sem haldnir eru í aðdraganda kosninga. Það er í raun og veru ekki hægt að setja samasemmerki á milli íbúaþings sem er vel skipulagt, þar sem utanaðkomandi hlutlaus aðili kemur að stýringu og aðstoðar síðan við að vinna úr tillögunum og þar sem þetta er þverpólitískt, og þess þegar menn fara fram með sína stefnu fyrir kosningar. Við gerð langtímaáætlunar og skipulagsáætlunar t.d. hafa oft komið upp mál í aðdraganda kosninga sem eru síðan afgreidd með allt öðrum hætti á kjörtímabilinu, m.a. vegna athugasemda íbúa, þó að ekki sé alltaf farið eftir þeim.

Með þessu er fyrst og fremst verið að hugsa um að byggja upp gagnkvæmt traust og að íbúar hvers samfélags séu meiri þátttakendur í stjórnun. Og þó að tillögurnar séu ekki bindandi þá séu þær leiðbeinandi og frá þeim gengið með skýrslugerð og að sveitarstjórn á hverjum tíma geri grein fyrir því hvernig að þessu sé staðið.

Ég tel nauðsynlegt að setja þetta í lög og að það séu nákvæmlega útfærðar reglur þannig að borgarafundur eða eins og í Reykjavík, auglýstir fundir á einstökum svæðum, opnir fundir, séu ekki kallaðir íbúaþing.