Sveitarstjórnarlög

Þriðjudaginn 17. febrúar 2004, kl. 14:42:27 (4299)

2004-02-17 14:42:27# 130. lþ. 65.4 fundur 156. mál: #A sveitarstjórnarlög# (íbúaþing) frv., Flm. MF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 130. lþ.

[14:42]

Flm. (Margrét Frímannsdóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get fyllilega tekið undir það sem hv. þm. sagði um hvenær eðlilegt væri að þessi íbúaþing væru haldin, enda segir í greinargerðinni:

,,Eðlilegast verður að telja að íbúaþing séu haldin á fyrri hluta hvers kjörtímabils enda mest um vert fyrir nýkjörnar sveitarstjórnir að leita samráðs við íbúa áður en þeir hrinda stefnumálum sínum í framkvæmd. Hætt er við að íbúaþing stuttu fyrir kosningar missi marks af ýmsum ástæðum.``

Hugsun mín var sú að þetta kæmi þá fram í nánari útfærslu eða reglum sem ráðherra setur en það er hins vegar ekkert sem mælir gegn því að það yrði gert í nefnd, að þetta ákvæði yrði afmarkaðra ef svo færi að meiri hluti hér sæi sér fært að styðja frv. sem eykur lýðræði í landinu. Miðað við þann eina fulltrúa ríkisstjórnarflokkanna sem hér hefur tekið þátt í umræðunni er ég ekki alveg viss um það.