Úrræði fyrir áfengis- og vímuefnaneytendur

Þriðjudaginn 17. febrúar 2004, kl. 17:02:21 (4325)

2004-02-17 17:02:21# 130. lþ. 65.19 fundur 272. mál: #A úrræði fyrir áfengis- og vímuefnaneytendur# þál., Flm. ÖJ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 130. lþ.

[17:02]

Flm. (Ögmundur Jónasson):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um úrræði fyrir áfengis- og vímuefnaneytendur, sem hv. þm. Þuríður Backman flytur ásamt mér. Tillagan er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra að láta fara fram könnun á forvarna- og meðferðarúrræðum fyrir áfengis- og vímuefnaneytendur. Í framhaldi af slíkri könnun verði settar fram tillögur um úrbætur með það fyrir augum að stuðla að heildstæðum lausnum og markvissri nýtingu fjárstuðnings frá hinu opinbera.``

Í greinargerð með tillögunni er á það bent að starfsemi á sviði forvarna og meðferðarmála hafi aukist jafnt og þétt á undanförnum árum og er óhætt að segja að margt mjög gott hafi verið gert á þessum vettvangi. Engu að síður er það svo að það forvarna- og meðferðarkerfi sem við búum við er ekki heildstætt. Það kann að hafa ýmsa kosti í för með sér en einnig mikla veikleika.

Hverjir skyldu kostirnir vera? Kostirnir kynnu að vera þeir að í sveigjanlegu umhverfi er svigrúm fyrir nýja aðila að hasla sér völl með ný úrræði og slíkt kann að stuðla að framförum. En veikleikarnir eru einnig mjög miklir og vega talsvert þungt að mínu viti. Þannig er boðið upp á úrræði sem eru mjög misjöfn að gæðum.

Í athugun sem Grímur Atlason gerði fyrir Félagsþjónustu Reykjavíkur kemur fram að aðilar sem veita vímuefnameðferð á Íslandi eru eftirfarandi: Landspítali -- háskólasjúkrahús, SÁÁ, Samhjálp, Byrgið, Krýsuvíkursamtökin, Reykjavíkurborg (með áfangaheimili), fangelsi, trúfélög og ýmsir sjálfstætt starfandi aðilar.

Það hefur iðulega verið bent á að eftirlit með þessum aðilum virðist bæði tilviljunarkennt og skipulagslaust. Málefni þeirra heyra undir tvö ráðuneyti og jafnvel fleiri, eins og reyndin var til skamms tíma með Byrgið þegar það var á Miðnesheiði. Þá kom utanrrn. einnig við sögu, en það er að sjálfsögðu á öðrum forsendum en þeim sem ég er að vísa til í stjórnsýslunni.

Flókinn rekstrargrundvöllur þessara aðila er ekki til þess fallinn að gera starfsemi þeirra gagnsæja eða stuðla að heildstæðri vímuefnameðferð á Íslandi. Landspítali -- háskólasjúkrahús fær allt sitt rekstrarfé í gegnum opinbera sjóði en SÁÁ og fleiri þurfa að treysta á framlög einkaaðila og félaga.

Ég verð að segja að mér finnst það mjög vafasamt að aðili eins og SÁÁ sem rekur í reynd sjúkrahús, skuli þurfa að treysta á safnanir og fjárframlög frá einkaaðilum. Þegar stofnanir vinna sér sess sem sjúkrastofnanir eða spítalar þá finnst mér að þær eigi að fá inngöngu í kerfið, ef svo mætti að orði komast. Ég er ekkert alveg viss um að þessi hugsun sé með öllu ill eins og ég gat um áðan, með sveigjanleikann í kerfinu. Nýir aðilar geta komið til sögunnar en þegar þeir hafa sannað sig eftir áratuga reynslu, þá fái þeir aðgöngu að kerfinu.

Við leggjum áherslu á að reynt verði að stuðla sem markvissast að sameiginlegum markmiðum þegar sköpuð eru úrræði fyrir áfengis- og vímuefnaneytendur þannig að kerfið sé heildstætt að þessu leyti. Og við leggjum til atriði í þremur liðum sem við viljum að tekin verði til gagngerrar skoðunar, en þau eru eftirfarandi, við setjum þau fram í spurningarformi því við viljum fá um þetta umræðu og skoðun:

1. Er hægt að koma á markvissara eftirliti með meðferðarúrræðum vímuefnaneytenda á Íslandi?

2. Væri til bóta að gera kröfu um árangurstölur frá þeim aðilum sem sinna meðferð vímuefnaneytenda á Íslandi og þær þá teknar saman af hlutlausum aðilum, samanber rannsóknir Kristins Tómassonar árið 1995 og 1996?

3. Kemur til greina að setja á laggirnar greiningar- og ráðgjafarstöð/móttökustöð sem sinnti móttöku og greiningu allra þeirra sem leituðu sér aðstoðar vegna vímuefnavanda á Íslandi?

Greiningar- og ráðgjafarstöð vísar til ákveðinnar hugsunar, kannski fremur en til stofnunar. Við erum að vísa til þess að kerfið komi sér upp ákveðnum stöðlum sem auðveldi fjárveitingavaldinu að taka ákvarðanir um hvern eigi að styrkja og á hvaða forendum eigi að styrkja hann. Við sjáum þetta gerast aftur og ítrekað, að upp spretta stofnanir, velviljaðar, duglegar, eru að sinna nauðsynlegum verkum, vinna þjóðþrifaverk. En á hvaða forsendum á fjárveitingavaldið síðan að koma til móts við þær?

Hér þykir okkur vanta staðlana, hina faglegu staðla. Og hvort sem það yrði gert í stofnun, greiningarstöð, eða með öðrum hætti er nokkuð sem við auglýsum eftir umræðu um.

Talsvert hefur verið skrifað um þessi efni að undanförnu. Ég vísa t.d. í ágætar greinar Gríms Atlasonar í blöðum. Mér er kunnugt um að það eru ekki allir á einu máli á þessum vettvangi nema síður sé. Það sem við erum að auglýsa eftir er þetta: Við erum að auglýsa eftir góðri umræðu um þessi mál með það að markmiði að færa þessa starfsemi alla inn í markvissari farveg.

Við segjum undir lokin í greinargerð með þáltill. okkar, með leyfi forseta:

,,Mikið starf hefur verið unnið á þessu sviði heilbrigðisþjónustu síðustu áratugina og margt gott af því leitt. Á því er ekki nokkur vafi. Margt bendir þó til að hægt væri að ná enn betri árangri með markvissara skipulagi og virkara eftirliti. Að því miðar þessi tillaga.``