Veiðigjald og sjómannaafsláttur

Miðvikudaginn 18. febrúar 2004, kl. 13:47:55 (4335)

2004-02-18 13:47:55# 130. lþ. 66.91 fundur 336#B veiðigjald og sjómannaafsláttur# (aths. um störf þingsins), LB
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 130. lþ.

[13:47]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Ég nefndi það áðan að sú niðurstaða sem hæstv. sjútvrh. hefur haldið á og keyrði í gegnum þingið væri ekki í neinu samræmi við þá umræðu og þá niðurstöðu sem fram kom í auðlindanefndinni. Það breytir hins vegar engu og hæstv. ráðherra heldur áfram að hjakka í þessu fari. Það er kannski partur af þessari pólitík á köflum að menn túlka hlutina aðeins í samræmi við það sem hentar. Hér hefur hæstv. sjútvrh. leyft sér þann munað að túlka hlutina í samræmi við það sem hann telur henta núna.

Ég ítreka það að hæstv. sjútvrh. sat ekki í auðlindanefnd þannig að hæstv. sjútvrh. er ekki til þess bær að koma hér upp og tjá sig um það sem þar fór fram. Þetta liggur fyrir, virðulegi forseti ... (Gripið fram í: Kann ráðherrann ekki að lesa?) ja, það er einmitt það sem ég vil leyfa mér að draga í efa, að hæstv. ráðherra kunni að lesa. Kjarni málsins er sá að hæstv. ráðherra leyfir sér að tjá hér og túlka hluti sem hann hefur ekki hugmynd um. Ég vil bara að þetta liggi ljóst fyrir í umræðunni, virðulegi forseti.