Mengun frá tímum herstöðvarinnar á Heiðarfjalli

Miðvikudaginn 18. febrúar 2004, kl. 14:03:03 (4341)

2004-02-18 14:03:03# 130. lþ. 66.1 fundur 539. mál: #A mengun frá tímum herstöðvarinnar á Heiðarfjalli# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., utanrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 130. lþ.

[14:03]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Frú forseti. Það er ekkert verið að drepa þessum málum á dreif. Þessu landi var skilað og það var tekið við því frá Bandaríkjamönnum árið 1970 í samræmi við þau lög og reglur sem giltu þá um mengun í landinu.

Það sama á við um Stokksnes. Þar er nýlega búin að fara fram hreinsun samkvæmt þeim reglum sem nú gilda í landinu. Það á alveg sama við um gamla ruslahauga af innlendum toga ef við eigum að nota það. Ruslið er ekkert betra þó að það sé af innlendum toga. Ég vænti þess að hv. þm. geri engan greinarmun þar á. Og þar er það svo að ef stofnað hefur verið til þess á eldri tíma miðað við þær reglur sem þá giltu, þá er það svo. Það gildir ekki um það nýr umhverfisréttur. Og alveg það sama á við í þessu máli og er ekkert öðruvísi í því sambandi.

Það er því miður víða í landinu rusl frá gömlum tíma og ekki allt til fyrirmyndar og væri full ástæða til þess að hreinsa víða til. En það gildir það sama um það rusl og þetta rusl. Og það er sama hvaðan skíturinn kemur, hvort hann er upprunninn frá okkur sjálfum eða frá Bandaríkjunum. Ég geri a.m.k. engan greinarmun þar á en mér heyrist að hv. þm. geri mikinn greinarmun þar á.