Kadmínmengun í Arnarfirði

Miðvikudaginn 18. febrúar 2004, kl. 15:11:36 (4368)

2004-02-18 15:11:36# 130. lþ. 66.7 fundur 109. mál: #A kadmínmengun í Arnarfirði# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 130. lþ.

[15:11]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Það má segja að við séum komin af stað. Það er byrjað að rannsaka þó enn sé nokkuð í land með að niðurstöður fáist.

Ég deili þeim skoðunum sem fram komu hjá hv. þm. Magnúsi Þór Hafsteinssyni. Það er mikilvægt að Íslendingar geti sýnt neytendum fram á hvaða efni eru og eru ekki í fiski. Við lifum að miklu leyti á því að selja fisk. Það er mjög brýnt að geta t.d. sýnt fram á hver geislamengunin er í hafinu, hvaða þrávirku lífrænu efni eru hér á ferðinni og þungmálmar.

Ég get af þessu tilefni sagt þinginu þær gleðifréttir að í dag er ljóst að nógu mörg ríki hafa samþykkt samninginn um þrávirk lífræn efni, samninginn sem Ísland hefur barist fyrir að yrði að alþjóðasamningi í langan tíma. Ísland var fyrsta ríkið sem lagði á alþjóðavettvangi til að gerður yrði alþjóðlegur samningur gegn ákveðnum þrávirkum lífrænum efnum. Það var árið 1992 á Ríó-ráðstefnunni að Ísland lagði það til. Það var skrifað undir þennan samning í Stokkhólmi fyrir um tveimur árum en í dag náðist sá hópur ríkja inn á þennan samning að hann mun taka gildi. Hann mun taka gildi 17. maí.

Ég tel við hæfi í tilefni af þessari fyrirspurn að koma því á framfæri við þingið að þessi gleðilegi atburður átti sér stað í dag, að samningurinn verður að veruleika. Það er mjög mikilvægt mál fyrir okkur Íslendinga af því að við höfum haft vaxandi áhyggjur af þrávirkum, lífrænum efnum. PCB, DDT, díoxín og önnur slík efni sem hafa verið að safnast upp á norðlægum slóðum, m.a. í sjávarafurðum, hafa mjög slæm áhrif á mannfólk og dýraríki þar sem þessi efni safnast upp í fæðukeðjunni.

Ég deili því þeim skoðunum að við þurfum að geta sýnt fram á magn slíkra efna í fiskafurðum okkar.