Aðskilnaðarmúrinn í Palestínu

Fimmtudaginn 19. febrúar 2004, kl. 11:13:58 (4399)

2004-02-19 11:13:58# 130. lþ. 68.11 fundur 260. mál: #A aðskilnaðarmúrinn í Palestínu# þál., Flm. SJS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 130. lþ.

[11:13]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um að mótmæla byggingu aðskilnaðarmúrsins í Palestínu. Þetta er 260. mál þessa þings á þskj. 293. Flutningsmaður að tillögunni er ásamt mér hv. þm. Ögmundur Jónasson. Tillögugreinin er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að koma á framfæri við ísraelsk stjórnvöld og á alþjóðavettvangi formlegum og hörðum mótmælum gegn byggingu aðskilnaðarmúrs á palestínsku landsvæði. Sett verði fram sú krafa af Íslands hálfu að framkvæmdir við múrinn verði tafarlaust stöðvaðar og hafist handa um að fjarlægja hann.

Alþingi áréttar afstöðu sína til deilumála Ísraela og Palestínumanna, sbr. ályktun Alþingis frá 18. maí 1989.

Alþingi ályktar að íslensk stjórnvöld styðji og vinni að því fyrir sitt leyti að alþjóðlegt friðargæslulið verði sent á svæðið til verndar óbreyttum borgurum.``

[11:15]

Eins og heyra má, herra forseti, er efni tillögunnar þríþætt í aðalatriðum. Í fyrsta lagi að mótmæla byggingu aðskilnaðarmúrsins og krefjast þess að hann verði fjarlægður. Í öðru lagi að árétta hina framsæknu stefnu sem Alþingi mótaði með ályktun sinni 18. maí 1989 og í þriðja lagi að íslensk stjórnvöld vinni að því að alþjóðlegt friðargæslulið verði sent á svæðið til verndar óbreyttum borgurum. Í raun fælist í fyrstu og síðustu málsgreininni ný stefnumótun af hálfu Alþingis, afdráttarlausar en áður hefur legið fyrir varðandi andstöðuna við byggingu múrsins og það að styðja viðleitni til að koma alþjóðlegu friðargæsluliði á svæðið.

Ég vil leyfa mér í byrjun þessarar umræðu að fagna því að hæstv. utanrrh. tjáði sig áðan með jákvæðum hætti um báða þessa efnisþætti. Hann lýsti sig algerlega andvígan byggingu múrsins og lýsti þeirri skoðun sinni að hann bryti í bága við alþjóðalög. Ég held að flestir telji svo nema ísraelsk stjórnvöld og kannski bandarísk. Ráðherra gaf jafnframt til kynna að íslensk stjórnvöld væru jákvæð í garð þess að reynt yrði að koma alþjóðlegu friðargæsluliði á svæðið.

Ég tel engu að síður fulla ástæðu til að Alþingi fylgi þeirri hefð sem mótast hefur, að hér sé mótuð afdráttarlaus og skýr stefna og þar með leiðsögn til handa stjórnvöldum til að fara eftir hverju sinni. Það væri í samræmi við hefðirnar sem mótuðust með ályktun Alþingis 18. maí 1989 og reyndar samþykkt Alþingis frá 30. apríl 2002, þó að sú samþykkt væri fyrst og fremst almenns eðlis og vísaði til ályktana Alþingis frá því um áratug áður.

Varðandi byggingu múrsins vil ég leggja áherslu á, herra forseti, að þar er um eitthvað það alversta að ræða sem gerst hefur í þessari erfiðu og þungbæru deilu í samskiptum Ísraela og Palestínumanna í rúma hálfa öld. Múrinn mun, fái hann að rísa og standa, gera nánast ógerlegt að leysa úr þeim flækjum sem um landamærin milli heimastjórnarsvæða Palestínumanna og Ísraelsríkis hafa skapast. Eru þau þó nógu erfið fyrir eins og kunnugt er. Ég vísa þar að sjálfsögðu fyrst og fremst til viðurkenndra landamæra eins og þau voru samkvæmt tillögu 1947 sem Ísraelsmenn byrjuðu reyndar þegar að brjóta með ofbeldi ófriðarins áður en Ísraelsríki varð formlega til.

Múrinn er að mestu leyti byggður á viðurkenndu palestínsku landi. Hann sker í sundur svæði, annars vegar byggðir Palestínumanna þar sem búsetan er og hins vegar t.d. akra og ólífulundi. Hann gerir alla efnahagslega starfsemi nánast ómögulega og torveldar stórlega að mögulegt verði fyrir Palestínumenn að stofna sjálfstætt efnahagslega fullburða ríki. Til viðbótar við þau geysilega erfiðu úrlausnarefni sem tekist hefur verið á um, t.d. rétt flóttamanna til að snúa heim, málefni Jerúsalem og átökin um landamærin, sem Ísraelsmenn hafa fært út í sína þágu í hverjum einustu átökum allt frá því fyrir 1950, mundi koma þetta hroðalega mál, þessi múr, aðskilnaðarmúr, þetta járntjald sem ristir gegnum svæðin og hefur allt þetta í för með sér sem ég hef áður nefnt.

Ég sat fund samtakanna Íslands -- Palestínu sl. sunnudag í Norræna húsinu og hlustaði þar á ungmenni, sjálfboðaliða á vegum samtakanna sem hafa verið að koma heim síðustu vikur frá Palestínu, sem lýstu reynslu sinni af því að hafa farið sem sjálfboðaliðar og í raun mannlegir skildir til að reyna að veita Palestínumönnum nokkra vörn gegn árásum Ísraelshers. Það var satt best að segja þyngra en tárum taki að hlusta á þær lýsingar, jafnánægjulegt og það var að þetta unga hugsjónafólk hefði lagt sjálft sig, líf sitt jafnvel, í hættu til að reyna að leggja þarna lið. Það stóð sérstaklega upp úr í lýsingum unga fólksins hvernig þessi múr og þetta ástand er að gera málin enn þá erfiðari en ella. Menn sem hafa mikla þekkingu á þessu svæði og hafa iðulega heimsótt það á undanförnum árum, t.d. Sveinn Rúnar Hauksson, formaður samtakanna Íslands -- Palestínu, eru sammála um það. Hann segir að hann hefði seint trúað því þegar hann heimsótti svæðin fyrir tveimur eða fjórum árum að ástandið þar ætti eftir að versna. Það hefur engu að síður gerst. Þar er bygging múrsins að sjálfsögðu eitt allra alvarlegasta atriðið.

Ég vil víkja að 2. mgr. tillgr., þ.e. að Alþingi árétti afstöðu sína til deilumála Ísraela og Palestínumanna. Ég minni enn á ný hversu framsækin samþykkt Alþingis frá 18. maí 1989 var. Í henni var tekin afdráttarlaus afstaða, í fyrsta lagi til þess að viðurkenna bæri sjálfsákvörðunarrétt palestínsku þjóðarinnar og um leið tilverurétt Ísraelsríkis. Hins vegar má segja að sú viðurkenning hafi legið fyrir af Íslands hálfu frá upphafi, samanber aðild Íslendinga að stofnun þess. Þarna var með nýjum og algerlega afdráttarlausum hætti tekið af skarið með að viðurkenna bæri sjálfsákvörðunarrétt palestínsku þjóðarinnar. Í öðru lagi mótaði Alþingi þá stefnu um það, sem er stórt mál í öllum þessum deilum, að viðurkenna bæri rétt palestínskra flóttamanna til að snúa aftur til fyrri heimkynna sinna í samræmi við margítrekaðar ályktanir Sameinuðu þjóðanna. Þar er eitt af þeim erfiðu atriðum sem tekist hefur verið á um í ýmsum friðarumleitunum á undanförnum árum. Palestínumenn hafa reyndar gefið mikið eftir í því sambandi í örvæntingarfullum tilraunum til að ná einhverju samkomulagi sem þeim gæti gagnast.

Það verður að horfast í augu við það að Palestínumenn hafa aftur og aftur mátt hörfa undan í nýjum og nýjum friðartilraunum vegna þess að Ísraelsmenn hafa gengið á lagið í hvert einasta skipti. Nýjustu drög að friðarsamkomulagi hafa verið Palestínumönnum miklu óhagstæðari en eldri hugmyndir um lausn deilunnar að þessu leyti, að ekki sé talað um ef farið væri að upphaflegum áformum um stofnun Ísraelsríkis frá 5. áratug síðustu aldar og þeim viðurkenndu landamærum sem þá voru lögð. Ætla ég þó ekki í umræður um þá ábyrgð sem alþjóðasamfélagið ber á ástandi mála í heild sinni, þ.e. vegna þeirrar einstæðu ákvörðunar að heimila þjóð að flytja inn á landsvæði, búsett af annarri, og stofna þar ríki. Það hlýtur að teljast einstætt í öllu tilliti og á vonandi aldrei eftir að endurtaka sig eða verða fordæmi fyrir öðru sambærilegu. Auðvitað er ljóst að með því voru búnar til aðstæður sem síðan hafa nánast reynst óviðráðanlegar.

Það þriðja sem hin merka samþykkt Alþingis frá 18. maí 1989 markaði tímamót með var að Alþingi taldi að Ísland ætti að hafa vinsamleg samskipti við frelsissamtök Palestínu, PLO. Í þessu fólst meira og minna viðurkenning á því að þau væru hinn lögmæti og réttmæti fulltrúi palestínsku þjóðarinnar. Hvað sem segja má um þau samtök og Yasser Arafat þá er hann auðvitað eini maðurinn og PLO einu samtökin sem geta talist fulltrúar þjóðarinnar.

Auk áðurnefndrar samþykktar má nefna, eins og hér hefur verið gert fyrr í umræðum í dag, ályktun Alþingis frá 30. apríl 2002 sem lýsti almennum áhyggjum af ástandinu, kröfu um að átökum og ofbeldisverkum linnti og að teknar yrðu upp í kjölfar vopnahlés friðarviðræður. Síðan var vísað til ályktunar Alþingis frá 18. maí 1989 og helstu ályktana öryggisráðs SÞ um málið.

Herra forseti. Ég hef rakið hefðirnar, þ.e. að Alþingi móti stefnu sem sé skýr leiðsögn fyrir stjórnvöld til að fara eftir um leið og þjóðþingið sjálft tekur af skarið um afstöðu sína. Það er að mínu mati mjög æskilegur framgangsmáti. Ég leyfi mér að gera mér vonir um, í anda þeirrar hefðar sem um þetta mál hefur ríkt, að utanrmn. Alþingis taki þessa tillögu til jákvæðrar skoðunar. Ekki er annað að heyra af ræðum sem þegar hafa verið fluttar í umræðum utan dagskrár en að fulltrúar allra flokka eigi nú sem fyrr að geta sameinast um áherslur í þessum efnum.

Síðasta atriðið sem tillagan kemur inn á, þ.e. spurninguna um að senda friðargæslulið, vil ég einnig ræða lítillega. Í dag er staðan sú að á svæðinu er friðargæslulið en það er ákaflega fámennt. Það er ákaflega veikburða og hefur enga stöðu. Þetta er friðargæslulið sjálfboðaliða, friðarsinna víða að úr heiminum sem reyna, þrátt fyrir andstöðu Ísraelsríkis, miklar þrengingar og mikla erfiðleika, að komast inn á svæðið og vera þar með ekkert annað að vopni en líkama sinn til að veita stríðshrjáðum íbúum heimastjórnarsvæðanna og flóttamannabúðanna í Palestínu vörn með veru sinni þar. Um leið er reynt að vekja athygli á ástandinu og tryggja að umheimurinn gleymi ekki þeim hörmungum sem ganga þarna yfir dags daglega. Þetta er geysilega virðingarvert og mikilvægt. Það er ekki hægt annað, eins og ég sagði áður, en að dást að því hugsjónafólki sem leggur líf sitt í hættu í þágu vandalauss fólks sem þarna á í hlut.

Auðvitað væri allt öðru til að dreifa ef alþjóðleg samstaða gæti tekist um að senda friðargæslulið á svæðið sem gætti hinna viðurkenndu landamæra og tryggði að ekki yrðu gerðar árásir á óbreyttra borgara eins og alsiða er í dag. Þarna gerist það nánast hvern sólarhring. Óbreyttir borgarar, þar á meðal börn og unglingar, falla í valinn. Að sjálfsögðu er ljóst að ýmsir pólitískir og praktískir erfiðleikar felast í að koma slíku í kring. En að lokum kemur það aftur að sama upphafspunktinum. Fengjust Bandaríkjamenn til að breyta um afstöðu og hverfa frá því að styðja hin ofbeldissinnuðu og árásargjörnu stjórnvöld í Ísrael, t.d. með því að beita afli sínu ásamt öðrum þjóðum, sem ég hygg að mundu styðja það nánast einróma, til að koma á vopnahléi og senda inn friðargæslulið, þá gæfi það a.m.k. tóm og aðstæður til að vinna að varanlegri lausn deilunnar. Það verður örugglega nógu erfitt þótt hinni örvæntingarfullu uppreisn Palestínumanna linnti og vopnahlé kæmist á.

Ég legg til, herra forseti, að að lokinni þessari umræðu verði tillögunni vísað til 2. umr. og hv. utanrmn.