Vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

Fimmtudaginn 19. febrúar 2004, kl. 12:42:40 (4420)

2004-02-19 12:42:40# 130. lþ. 68.1 fundur 594. mál: #A vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og spendýrum# (ernir, hreindýr, stjórnsýsla o.fl.) frv., GAK
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 130. lþ.

[12:42]

Guðjón A. Kristjánsson:

Virðulegur forseti. Ég ætla aðeins að blanda mér í þessa umræðu, einkanlega varðandi veiðar á ref og mink. Ég tek undir þau sjónarmið sem hér hafa komið fram, að þar þurfi að gera bragarbót á varðandi fjárveitingar og annað ef þar á ekki að fara verulega á verri veg en farið hefur á undanförnum árum. Þessum dýrum gæti beinlínis fjölgað vegna þess að ekki er staðið nægilega vel að vöktun á grenjum og veiðum á refnum annars vegar og hins vegar á mink, sem ég tel að sé alger vargur í íslenskri náttúru. Hann hefði betur aldrei sloppið út í náttúruna. En það er annað mál.

Ég get þó lýst þeirri skoðun minni að ég tel að það eigi að vinna á minknum með öllum ráðum. Ég hef reyndar gert það í örstuttri ræðu þar sem ég lýsti því yfir að minkur væri réttdræpur hvar sem í hann næðist.

Varðandi það sem hér segir um erni, arnarhreiður og annað slíkt, nánd við arnarhreiður, þá átta ég mig ekki alveg á því hvernig sú regla, að menn megi ekki koma nær arnarhreiðrum en 500 m, á yfirleitt að geta virkað. En í b-lið 10. gr. segir, með leyfi forseta:

,,Fara skal með allar upplýsingar úr skránni`` --- þ.e. skrá um hreiðurstæði --- ,,sem trúnaðarmál.``

[12:45]

Það er nú svo að fólk ferðast um landið okkar sem betur fer, bæði byggðir og óbyggðir, og veit ekki fyrir fram, margt hvert, hvar hreiðurstæði eru. Jafnvel leiðsögumönnum sem fara um svæði og eru að byrja leiðsögu á svæðum, er ekki endilega alveg kunnugt um það, fyrir utan það að ég held að það sé bara ekki hægt að ætlast til þess að fólk gangi ekki nær arnarhreiðrum en 500 m, ég held að það sé ekki nokkur vegur að gera það. Er það þá svo að ferðamenn séu orðnir lögbrjótar ef þeir finnast á rölti í 250 m fjarlægð frá hreiðri? Erum við ekki að reyna að setja í lög eitthvað sem er gjörsamlega óframkvæmanlegt og alveg út úr kú, virðulegur umhvrh.?

Ég held að nær væri að nota bara 100 metrana sem við erum með þarna neðar í sömu grein þar sem verið er að tala um verndun hreiðurstæðanna á svæðum þar sem eru nytjar o.s.frv., og láta sömu reglu gilda. Það eru a.m.k. frekar líkur á því að fólk verði vart við arnarhreiður þegar það er komið í 100 m fjarlægð frá þeim. En ef örninn er ekki á sérstakri hreyfingu er ekki víst að fólk taki mikið eftir því. Örninn velur sér hreiðurstæði á hólum, klettum og hæðum og það eru oft staðir sem fólk ákveður að labba að án þess að það viti neitt að þar sé arnarhreiður, ekki síst ef það er svo mikið trúnaðarmál að enginn fær að vita það.

Þetta ber því að athuga, hæstv. ráðherra, fyrir utan það að maður er oft búinn að labba fram hjá arnarhreiðrum norður í Jökulfjörðum og ég hef ekki orðið var við það að örninn færi neitt á taugum þó að maður sæist í 100--200 m fjarlægð frá hreiðrinu, ef maður var ekki beinlínis að rölta að því, fyrir utan það að ekki er alltaf víst að fuglinn verpi á hverju ári í hreiðurstæðið, þó að það virðist vera líkur til þess að hann leiti iðulega aftur á sömu svæðin og jafnvel þá nýir fuglar ef foreldrarnir hafa orðið fyrir hnjaski og látið lífið af einhverjum orsökum, sem eðlilega kemur fyrir í náttúrunni að fuglar drepist. Ég held að menn þurfi að athuga þetta. Ég held að það sé ekkert samræmi í því að hafa þessa 500 m þarna, ég fæ engan botn í þá tillögu.

Síðan í 7. gr. þar sem talað er um að við þurfum ekki veiðileyfi til þess að veiða rottur, mýs og minka þá fagna ég því, en þarna hefði gjarnan mátt standa vargfugl líka, held ég. Ég veit ekki hvers vegna við ættum að hafa veiðileyfi til þess að skjóta máv, ef við viljum svo við hafa, sérstaklega ef hann er að skrattast einhvers staðar nálægt varplöndum eða öðru slíku. Ég vil því benda á að óhætt væri að hafa vargfuglinn þarna með, kannski þarf eitthvað nákvæmari skilgreiningu á því en ég geri grein fyrir þegar ég tala um vargfugl.

Að lokum, virðulegi forseti, þar sem verið er að tala um nýjar tegundir, ég ætla rétt að vona að smátt og smátt komi nýjar tegundir fugla í íslenska náttúru og tel að það muni gerast, bæði með aukinni skógrækt og hlýnandi veðurfari, að nýjar tegundir nemi hér land. Ég er reyndar á þeirri skoðun að leyfa ætti að sleppa tegundum eins og t.d. fasönum á Íslandi og leyfa náttúrunni að verða auðugri af fuglalífi en verið hefur á undanförnum árum. Ég kem ekki alveg auga á það, nema mér væri þá sérstaklega bent á það, að slíkir fuglar valdi skaða í íslenskri náttúru, alla vega ekki umfram þá sem eru að nema hér land hvort sem er.

Það er ekki ástæða til að orðlengja þetta mikið, en að öðru leyti held ég að frv. sé að mörgu leyti ágætt. Það verður auðvitað skoðað í nefnd en ég bendi á það sem ég hef verið að fara yfir.