Starfsmenn í hlutastörfum

Fimmtudaginn 19. febrúar 2004, kl. 15:09:42 (4452)

2004-02-19 15:09:42# 130. lþ. 68.8 fundur 411. mál: #A starfsmenn í hlutastörfum# (EES-reglur) frv., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 130. lþ.

[15:09]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Eins og hér hefur komið fram ræðum við frv. til laga um starfsmenn í hlutastörfum. Nokkur grein hefur verið gerð fyrir efni frv. og tildrögum þess. Það er lagt fram til innleiðingar á tilskipun EES og Evrópusambandsins frá því í desember 1997. Það byggir á rammasamningi um hlutastörf sem Evrópusamband verkalýðsfélaga, ETUC, European Trade Union Confederation, og atvinnurekendasamtökin, Samtök evrópskra iðn- og atvinnurekenda, skammstafað UNICE, og Evrópusamtök fyrirtækja með opinberri eignaraðild, CEEP, hafa gert sín í milli.

Sameiginlega EES-nefndin samþykkti að fella þessa tilskipun undir samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og er vísað í þau gögn sem eru því til staðfestingar í athugasemdum við frumvarpið. Þar er einnig rakið innihald tilskipunarinnar og segir m.a., með leyfi forseta:

,,Í inngangsorðum rammasamningsins kemur fram að hann sé framlag til skipulags atvinnumála í Evrópu. Þar eru settar fram almennar meginreglur og lágmarkskröfur er varða hlutastörf. Í samningnum komi fram vilji aðila vinnumarkaðarins til að setja almennan ramma í því skyni að uppræta mismunun gagnvart launþegum í hlutastörfum og til að auka möguleika á hlutastörfum á forsendum sem eru viðunandi bæði fyrir vinnuveitendur og launþega. Með samningnum sé einnig viðurkennt að aðstæður í aðildarríkjunum séu misjafnar. Tilgangur rammasamningsins er einnig að stuðla að sveigjanlegri skipulagningu vinnutíma. Meginsjónarmiðið er að hlutavinnufólk sæti ekki lakari meðhöndlun en þeir sem eru í fullu starfi nema mismunun verði réttlætt á grundvelli hlutlægra ástæðna.``

Síðan segir í greinargerðinni að það sé heimilt skv. 2. gr. þessarar tilskipunar að fela aðilum vinnumarkaðar að semja um efni rammasamningsins í stað þess að kveða á um það með lögum eða stjórnsýslufyrirmælum hvernig samningnum verði framfylgt.

Félmrn. mun hafa farið þess á leit við Samtök vinnumarkaðarins í mars árið 2000 að þess yrði freistað að ná samningum um þessi efni. Hvað varðar Alþýðusambandið og Samtök atvinnurekenda þá tókst þetta með undirritun kjarasamnings 13. nóvember árið 2002. Öðru máli gegnir hins vegar um opinbera geirann. Þar náðust ekki slíkir samningar. Þess vegna er þetta frumvarp til komið. Ég kem nánar að því síðar.

Hér er ekki nein stórkostleg bylting á ferðinni í réttindamálum launafólks. Þarna er þó verið að stíga skref sem skipta máli og geta skipt máli. Eins og ég gat um áðan, með tilvísun í athugasemdir við frumvarpið, er verið að reyna að stuðla að sveigjanleika á vinnumarkaði en þó þannig að hagsmuna beggja aðila, atvinnurekandans og launamannsins, sé gætt. Til að við gerum vinnuumhverfið sveigjanlegra þarf að búa svo um hnúta að réttindi fólks séu virt og einnig þannig að ekki sé gengið á hlut atvinnurekandans. Þetta eru jafnvægiskúnstir enda er frv., og þessi tilvonandi lagasmíð sem vonandi fer þó ekki í gegn nema að áður undangengnum breytingum á frv., mjög varlega orðuð. Þetta eru tilmæli fremur en að þarna sé fast kveðið að.

Hér segir í 1. gr. frv. um markmiðin. Ég ætla að lesa það, með leyfi forseta:

,,Markmið laga þessara er að koma í veg fyrir að starfsmenn í hlutastörfum sæti mismunun og stuðla að auknum gæðum slíkra starfa, einnig að greiða fyrir því að starfsmenn eigi völ á hlutastörfum og sveigjanlegri tilhögun vinnutíma þannig að tekið sé tillit til þarfa bæði atvinnurekanda og starfsmanna.`` --- Þarna er kjarninn í því sem ég nefndi.

[15:15]

Hvernig á að gera þetta? Jú, í 4. gr. segir eftirfarandi, með leyfi forseta:

,,Starfsmenn í hlutastörfum skulu ekki njóta hlutfallslega lakari kjara eða sæta lakari meðferð en sambærilegir starfsmenn í fullu starfi af þeirri ástæðu einni að þeir eru ekki í fullu starfi, nema slíkt sé réttlætanlegt á grundvelli hlutlægra ástæðna.``

Síðan kemur áfram, með leyfi forseta:

,,Atvinnurekendur skulu svo sem kostur er leitast við að:

a. taka tillit til óska starfsmanns um að flytjast úr fullu starfi í hlutastarf eða úr hlutastarfi í fullt starf,

b. taka tillit til óska starfsmannsins um að auka eða minnka starfshlutfall sitt, skapist svigrúm til þess,

c. auðvelda aðgang að hlutastörfum á öllum sviðum fyrirtækisins eða stofnunarinnar, þar á meðal að sérhæfðum störfum og stjórnunarstörfum,

d. veita tímanlega upplýsingar um störf sem losna á vinnustaðnum, þar með talin hlutastörf, til að auðvelda flutning úr hlutastarfi í fullt starf og öfugt,

e. greiða fyrir aðgangi hlutavinnufólks að starfsmenntun og starfsþjálfun, m.a. í því skyni að það geti aukið hæfni sína og til að stuðla að starfsframa og hreyfanleika í starfi, og

f. veita trúnaðarmönnum starfsmanna upplýsingar um hlutastörf á vinnustað.

Það telst ekki eitt og sér gild ástæða uppsagnar að starfsmaður neiti að fara úr fullu starfi í hlutastarf eða öfugt. Uppsögn telst þó ekki andstæð lögum þessum ef hún er í samræmi við lög, kjarasamninga eða venju og stafar af öðrum ástæðum, svo sem rekstrarþörfum viðkomandi fyrirtækis eða stofnunar.``

Þetta er 4. gr. þar sem kveðið er á um réttindi og skyldur og þessi lög ganga út á. Síðan er ákvæði um rétt til skaðabóta ef atvinnurekandi brýtur gegn ákvæðum laganna og síðan eru aðrar greinar einnig, skýringar á hugtökum og gildissviði.

En fyrst þetta: Við erum þarna að tala um að hverju skuli stefnt og að leitast skuli svo sem kostur er. Síðan eru almenn réttindamál.

Að mínu viti er e-liðurinn sem ég nefndi mikilvægastur að ,,greiða fyrir aðgangi hlutavinnufólks að starfsmenntun og starfsþjálfun, m.a. í því skyni að það geti aukið hæfni sína og til að stuðla að starfsframa og hreyfanleika í starfi``. Ég held að þetta sé mjög gott, að ekki skuli ekki gengið á hlut hlutavinnufólks. Staðreyndin er sú að þetta er að verða mjög mikilvægur þáttur í starfsumhverfi okkar á vinnustöðunum. Á Íslandi eru vinnustaðirnir almennt og stjórnendur þeirra og verkalýðshreyfingin sérstaklega, sem hefur knúið á um þær breytingar, orðin mjög meðvituð um mikilvægi símenntunar og endurmenntunar og að draga fólk inn í slíka vinnu. Til marks um vaxandi áhuga á því sviði mætti taka mörg dæmi. En það á sem sagt að reyna að auðvelda hlutavinnufólkinu að fá aðgang að þessu líka.

Það eru margir sem vilja vinna hlutastörf og það hentar mörgum atvinnurekendum líka. Og ef þar fer saman vilji starfsmannanna og atvinnurekandans er það hið besta mál. Í öðrum tilvikum fer þessi vilji ekki saman og fólk er lengi í tímavinnu eða hlutavinnu og lengur en það æskti. Þá gengur tilskipunin einmitt út á það að reyna að jafna kjör þessa fólks þannig að réttur þess sé ekki fyrir borð borinn. Það er hugsunin í frv.

En viti menn, hvað gerist síðan? Síðan er skotið inn í lögin ákvæði í 2. gr. þar sem allt starfsfólk hjá ríki og sveitarfélögum er undanþegið, undanskilið. Því er þröngvað út úr þessum réttindapakka. Og ég spyr: Hvernig stendur á þessu, hver er skýringin á því?

Ég get svarað því, ég get komið með þá skýringu. Þetta er því miður krafa frá sveitarfélögunum en ekki síður og kannski öllu fremur frá fjmrn., frá hæstv. fjmrh. Og ég ætla að segja það hér og nú að þó að þetta frv. sé á vegum félmrn. og hæstv. félmrh. fyndist mér eðlilegt að hæstv. fjmrh. yrði einnig viðstaddur við 3. umr. um málið --- og ég vil koma því sjónarmiði hér á framfæri --- til að svara fyrir sinn þátt í þessu máli. Þar er ég ekki að bera á milli nein orð á milli ráðuneytanna heldur er mér kunnugt um þetta persónulega vegna þess að það vill svo til að ég kom að þessum samningum í sumar. (HjÁ: Þess vegna náðust ekki samningar.)

Þess vegna náðust ekki samningar, segir hv. þm. Hjálmar Árnason. Það getur vel verið. Það getur vel verið ástæðan fyrir því að samningar náðust ekki að starfsmenn ríkis og sveitarfélaga og samtök þeirra voru ekki tilbúin að láta svínbeygja sig og skrifa upp á það eins og félmrn. hefur gert. Og því miður er hv. þm. Hjálmar Árnason, í forsvari fyrir nefndina, tilbúinn að láta svínbeygja sig á þennan hátt. Það er enginn vandi að ná samningum við slíka menn, ekki nokkur einasti vandi að semja við Framsfl. Hann lyppast bara niður. Hann sér enga ástæðu til að standa á rétti launafólks, ekki nokkra minnstu ástæðu til þess. Þess vegna er þetta frv. borið fram.

Fjármálaráðuneytið gefur út skipun. Það á að hafa þessi réttindi af launafólki sem starfar hjá ríki og sveitarfélögum og það er gert. Það var borið hér fram. Hér kom í pontu, galvaskur, hv. þm. Hjálmar Árnason og talaði fyrir því að réttindi yrðu brotin á þessu fólki.

Hvað er meira brotið á þessu fólki? Lögfræðingar Alþýðusambandsins og BSRB telja að þetta stríði gegn tilskipun EES, að þetta standist ekki tilskipun EES. Það verður fróðlegt að heyra álit hv. þm. Atla Gíslasonar á eftir, sem er löglærður maður og einn reyndasti lögfræðingur í landinu hvað varðar réttindamál launafólks, hefur rekið fjöldamörg mál fyrir Eflingu og Dagsbrún áður og verkalýðshreyfinguna. Það verður fróðlegt að heyra álit hans á þessu máli, en álit lögfræðinga Alþýðusambands Íslands og BSRB er samhljóma að því leyti að þeir telja að þetta standist ekki tilskipun Evrópusambandsins.

Sá sem hér stendur er nú ekki mestur aðdáandi Evrópusambandsins og tilskipana sem þaðan koma. Ég er það ekki. Og hvers vegna? Ein ástæðan fyrir því að ég var andvígur EES-samningnum þegar hann kom til sögunnar á sínum tíma var vegna þess að ég vissi hvað hann fól í sér, hvað hann gat haft í för með sér. Ég vissi líka að ef maður undirgengst skuldbindingar þá stendur maður við þær. Og mér hefur stundum fundist hlálegt þegar Íslendingar standa frammi fyrir tilskipunum eða samningum sem þeir hafa gert á alþjóðavettvangi og samrýmast ekki skammtímasjónarmiðum eða þess vegna hagsmunum til lengri tíma að þá er bara allt í plati. Samanber hina frægu umræðu hér um smíði varðskips á Íslandi sem var réttlætt á þeirri forsendu að þetta væri herskip. Þetta væri hernaðarleyndarmál og þess vegna væri ekki þorandi að láta smíða varðskip í útlöndum. Það var náttúrlega bara hlægilegur hráskinnaleikur.

Staðreyndin er sú að þegar við undirgöngumst samninga hefur það náttúrlega afleiðingar í för með sér. Menn undirgangast það að standa við samningana. Það er svo allt annar handleggur að við hefðum getað fengið undanþágur frá mörgum af þessum tilskipunum sem koma frá Evrópu, eins og t.d. í rafmagninu og á ýmsum sviðum, í póstdreifingu svo annað dæmi sé tekið. Það hefur ekki verið reynt. Við erum með þessa tilskipun frá Evrópusambandinu, við erum búin að samþykkja hana, það er búið að samþykkja hana í EES-nefndinni. En nú á með landslögum, með frv. sem hér liggur fyrir, að brjóta þessa tilskipun. Og ég get upplýst hæstv. ríkisstjórn um það að látið verður reyna á þetta.

Hvers vegna í ósköpunum leggja menn svona mikið á sig til að hafa réttindi af þessu fólki, tímavinnufólki hjá hinu opinbera, hjá sveitarfélögum og ríkinu? Hver er skýringin á því? Hvaða skýringu hefur félmrn. fengið frá fjmrn. um þetta efni? Hver er skýringin á því að hæstv. fjmrh. Geir H. Haarde er staðráðinn í að hafa þessi réttindi af fólkinu? Hver er skýringin á því að ríkisstjórnin vill meina tímavinnufólki hjá hinu opinbera aðgang að námskeiðum, símenntunarprógrömmum? Hvað hangir þarna á spýtunni? Þarf ekki að fá það fram? Eru einhverjir hagsmunir í húfi?

Með nál. sem hv. þm. Margrét Frímannsdóttir gerði ágætlega grein fyrir áðan eru athugasemdir og umsagnir bæði frá Alþýðusambandi Íslands og BSRB. Í umsögn Alþýðusambandsins er vísað í samninga sem tókust um þetta efni á almennum vinnumarkaði og í ágætt samstarf sem Alþýðusambandið hefur haft við ráðuneytið um þessi efni því að menn eru sammála að undanskilinni þessari undanþágu gagnvart opinberum starfsmönnum, en það er nú ekkert bara, það er stórmál að sjálfsögðu.

Í umsögn Alþýðusambands Íslands segir, með leyfi forseta:

,,Á hinum almenna vinnumarkaði tókst Alþýðusambandi Íslands og Samtökum atvinnulífsins að ljúka kjarasamningi um réttarstöðu starfsmanna í hlutastörfum. Það tókst því miður ekki á hinum opinbera vinnumarkaði og því lítur nú dagsins ljós frumvarp sem festir í sessi þann mun sem í mörgu er gerður milli hins almenna og opinbera vinnumarkaðar.``

Ég hélt sannast sagna að hugmyndir ríkisstjórnarinnar stæðu fremur í þá átt að jafna mun, en það er eins og fyrri daginn að það er reynt að jafna réttindin á einhvern hátt niður. Að þessu sinni er verið að reyna að hafa réttindi af starfsmönnum hjá hinu opinbera.

Þetta var úr umsögn Alþýðusambands Íslands sem er þó lengri. En umsögn BSRB frá 22. janúar er allítarleg og það er mikilvægt að gera ítarlega grein fyrir þeirri umsögn því að fram kemur mjög hörð gagnrýni á frv. og er skilgreint á hvaða forsendum hún er sett fram, en þar segir, með leyfi forseta:

,,BSRB átti síðastliðið ár ásamt ASÍ, BHM og KÍ í samningaviðræðum við ríkið, launanefnd sveitarfélaga og Reykjavíkurborg til að freista þess að innleiða tilskipun um hlutastörf með samningum. Það tókst ekki þrátt fyrir marga fundi. Var það aðallega gildissvið tilskipunarinnar sem ágreiningur stóð um, þ.e. hvaða hlutastörf samkvæmt tilskipuninni skyldu undanþegin samningnum.

Fulltrúar opinberra vinnuveitenda lögðu til í samningaviðræðunum að allir starfsmenn sem ráðnir væru í tímavinnu yrðu undanþegnir gildissviðinu. Ekki var fallist á það og eftir marga fundi var viðræðum slitið.

Frumvarp þetta var síðan á borði EES-samráðsnefndarinnar hjá félagsmálaráðuneytinu þar sem sömu sjónarmið voru uppi, þ.e. ríkið og sveitarfélögin vildu að tímavinnustarfsfólk yrði undanþegið gildissviði frumvarpsins. Á síðasta löggjafarþingi (2002--2003) var frumvarp til laga um hlutastörf lagt fyrir Alþingi þar sem tímavinnustarfsfólk var undanþegið gildissviði laganna. Mótmælti BSRB því harðlega á fundi hjá félagsmálanefnd Alþingis en samkvæmt nýju frumvarpi sem BSRB hefur nú til umsagnar hefur það ekki verið tekið til greina, sbr. 2. gr. frumvarpsins.`` --- En þar segir, svo ég víki frá umsögn BSRB, með leyfi forseta:

[15:30]

Vík ég þá aftur að umsögn BSRB, með leyfi forseta:

,,Með lagafrumvarpi þessu er verið að innleiða tilskipun ráðsins 97/81/EB, um rammasamninginn um hlutastörf. Þar eru settar fram almennar meginreglur og lágmarkskröfur er varða hlutastörf í því skyni að uppræta mismunun gagnvart launþegum í hlutastörfum og til að auka möguleika á hlutastörfum á forsendum sem eru viðunandi fyrir bæði atvinnurekendur og starfsmenn.

Tilskipunin um hlutastörf heimilar að aðilar geti af hlutlægum ástæðum undanskilið vissan hóp, þ.e. þá sem tilskipunin tilgreinir sem ,,part-time workers who work on casual basis``, sbr. 2. gr. 2. tölul. tilskipunarinnar.

Frumvarpið til laga um hlutastörf leggur hins vegar til, sbr. 3. mgr. 2. gr., að ákvæði laganna taki ekki til starfsmanna ríkis og sveitarfélaga, sem á grundvelli hlutlægra ástæðna fá greitt tímavinnukaup, enda byggist sú undanþága á kjarasamningi, ákvörðun stjórnvalds eða venju í slíkum tilvikum. Með öðrum orðum þá er lagt til að allir þeir sem fá greitt tímavinnukaup fyrir vinnu sína falli utan gildissviðs laganna. Ekki er einungis vísað í undanþágu samkvæmt kjarasamningum heldur einnig að stjórnvald geti ákveðið það eða að um sé að ræða venju. Sem sagt mjög rúm heimild stjórnvalds til að undanskilja stóran hóp launþega. BSRB mótmælir því harðlega að lögin eigi ekki að ná til þessa hóps. Skilningur BSRB er sá að tilskipunin heimili einungis að undanskilja þá hópa sem stofna til skammtímaráðningarsambands yfir ákveðið tímabil. Með því að frumvarpið fari í gegn óbreytt leiðir það til þess að stór hópur starfsmanna hins opinbera mun ekki njóta þeirra réttinda sem tilskipunin um hlutastörf felur í sér.

Þetta þýðir það að tímavinnustarfsmenn sem koma inn á stofnanir/fyrirtæki til að vinna í tímavinnu fá ekki að njóta sama starfsumhverfis og aðrir starfsmenn, svo sem eins og fræðslu og möguleika á framgangi í starfi, rétti til endurmenntunar og starfsmenntunar. Í flestum tilvikum er um að ræða starfsmenn sem skila reglulegri vinnu sem gæti jafngilt háu starfshlutfalli væri það metið sem starfshlutfall. (Sem dæmi starfsmenn hjá ÁTVR, Þjóðleikhúsinu o.fl., félagsþjónustunni o.fl.)

T.d. er það viðhorf ríkjandi hjá launanefnd sveitarfélaga að tímavinnustarfsmenn eigi ekki rétt á símenntunarálagi með þeim rökum að þeir taki ekki þátt í símenntunaráætlunum stofnana. Hins vegar er það svo að aðrir starfsmenn eru að njóta álagsins þrátt fyrir að engin símenntunaráætlun sé í gangi.

Annað dæmi sem BSRB vill nefna er að úti á landi eru starfandi sjúkraflutningamenn sem hingað til hafa ekki fengið viðurkenndan samningsrétt hjá ríkinu á grundvelli þess að það séu engir í aðalstarfi hjá ríkinu sem sjúkraflutningamenn. Þeir eru í starfi hjá heilsugæslustöðvum en eru þar titlaðir sem rafvirkjar, húsverðir o.s.frv. Um er að ræða löggilt starf, þ.e. sérnám til að stunda sjúkraflutninga. Þeir þurfa alltaf að vera til taks en fá einungis greiddar álagsstundir, þ.e. eins konar tímakaup í staðinn fyrir að fá bakvaktarálag eins og þeim ber að fá samkvæmt kjarasamningi Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna. Samkvæmt frumvarpinu eiga þessir starfsmenn ekki möguleika á því að fá það sama og það sem aðrir í sambærilegu starfi eru að fá, þ.e. bakvaktargreiðslur, veikindarétt, lífeyrisframlag o.s.frv. Hér er um að ræða sérstakar aðstæður sem eru viðvarandi og hafa verið við lýði í áraraðir. Ekki eins og opinberir vinnuveitendur vilja kalla það ,,lausráðnir í hlutastarfi``.

Evrópulöndin hafa ekki verið með svona víðtæka undanþágu og sem dæmi hafa Holland, Portúgal, Spánn og Noregur ekki undanskilið neina starfsmenn frá meginreglu tilskipunarinnar. Í Bretlandi eru auk þess ,,casual workers og temporary agency workers`` verndaðir af tilskipuninni. Í Danmörku hafa samningar verið gerðir á opinbera vinnumarkaðinum sem undanskilja lausráðna í hlutastörf eða eins og kemur fram í 2. gr. samnings ,,Finansministeriet`` [fjármálaráðuneytisins] við nokkur samtök á opinbera vinnumarkaðinum frá 2. september 1999: ,,Deltidsansatte, der arbejder som løst ansatte, undtages fra rammeaftalens bestemmelser.`` BSRB hefur ekki rekist á undanþágur í ,,Bekendtgørelse af deltidslov``,`` --- og svo er vísað í hvar þau er að finna.

,,BSRB leggur eindregið til að félagsmálanefnd Alþingis taki frumvarpið til laga um starfsmenn í hlutastörfum til endurskoðunar með athugasemdir BSRB í huga.``

Þetta var umsögn BSRB frá 22. janúar 2004. Hvers vegna les ég hana alla? Vegna þess að hér er ... (Gripið fram í.) Ég er formaður BSRB, það er mikið rétt, en ég hefði gert það þótt hún kæmi frá öðrum samtökum og ég las úr álitsgerð ASÍ og það vill svo til að Alþýðusamband Íslands, lögfræðingar Alþýðusambandsins og lögfræðingar BSRB eru á einu máli um að undanþágurnar sem gerðar eru í þessu lagafrv. standist ekki tilskipun EES. Og ég er búinn að skýra frá því að allar líkur eru á að á þetta verði látið reyna fyrir þar til gerðu dómsvaldi. (ÖS: Hver ætlar að gera það?) Hver ætlar að gera það? spyr hv. þm. Össur Skarphéðinsson. Ég hef trú á því að hlutaðeigandi samtök muni gera það, að BRSB muni gangast fyrir slíku, BHM eða Kennarasambandið, einhverjir slíkir aðilar eða Alþýðusamband Íslands. En ég hef verið að auglýsa eftir því að fá fram einhver rök fyrir því að tímavinnufólk hjá ríki og sveitarfélögum sé svipt þessum réttindum. Hvers vegna í ósköpunum fær það ekki að njóta þessara réttinda? Það er ofvaxið mínum skilningi. Þetta er eitthvað sem hæstv. fjmrh. og fjmrn. hafa bitið í sig og launanefnd sveitarfélaganna nánast skýringalaust. En þeir eru svo ljónheppnir að Framsfl. er í ríkisstjórn. Hann kemur náttúrlega bara með þetta og færir inn í þingið, alveg eins og íhaldið hefur farið fram á, en engar skýringar, og nú auglýsi ég eftir þessum skýringum. Hverjar eru skýringar á því að starfsmenn ríkis og sveitarfélaga eru undanþegnir þessum réttindum? Hver er skýringin á því? Ég auglýsi eftir því. Og fái ég ekki viðhlítandi skýringu við 2. umr. málsins ítreka ég kröfu mína um að hæstv. fjmrh. verði viðstaddur þegar málið kemur til 3. umr. Mér finnst það lágmarkskrafa.

Verið er að innleiða samkomulag sem Íslendingar hafa undirgengist. Þetta er tilskipun sem samþykkt hefur verið af Íslands hálfu. Hér er verið að setja hana í framkvæmd en það er gert á þann hátt að allar líkur benda til þess að mati lögfræðinga launafólks að það standist ekki og engar málefnalegar skýringar fylgja með af hálfu ríkisstjórnarinnar. Ég mun hlusta eftir röksemdum sem kunna að koma frá hæstv. félmrh. og ef skýringin er sú að þetta sé bara af því bara, af því að hæstv. fjmrh. Geir H. Haarde hafi skipað ráðuneytinu, hafi mælt svo fyrir um að þetta yrði svona, þessi réttindi yrðu höfð af fólkinu, þá er ekki um annað að ræða en fá hæstv. fjmrh. við 3. umr. málsins.