Varnir gegn mengun sjávar

Fimmtudaginn 19. febrúar 2004, kl. 16:31:57 (4469)

2004-02-19 16:31:57# 130. lþ. 68.10 fundur 259. mál: #A varnir gegn mengun sjávar# (förgun skipa og loftfara) frv., GAK
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 130. lþ.

[16:31]

Guðjón A. Kristjánsson:

Virðulegi forseti. Umræðan um málið hefur farið vítt og breitt og verið vikið að ýmsum málum eins og fiskvernd, fiskverndarsvæðum, köfun, förgun og öðru sem lýtur að því að sökkva skipum.

Virðulegur forseti. Ég tel að tillagan eigi fyllsta rétt á að vera skoðuð og það eigi að taka hana til vinnslu fyrr en seinna því að menn þurfa að taka ákvörðun um hvort það eigi að gera eitthvað í þessu eða ekki.

Ég hef ósköp litla trú á því, virðulegur forseti, að labba með erindið í umhvrn. og fá einhverja umsögn þar um hvar ætti að sökkva skipum o.s.frv. Ég held að sú þekking sé ekki til staðar þar, ég fullyrði það. Ég held líka að þó farið væri til fiskifræðinga Hafrannsóknastofnunar skorti slíka þekkingu þar.

Þeir einu sem búa yfir þeirri þekkingu að velja skipum stað á hafsbotni held ég að séu fiskimennirnir, skipstjórarnir, sem hafa stundað veiðar á Íslandsmiðum árum og áratugum saman. Þeir þekkja botninn, vita hvernig hann hefur breyst á undanförnum árum og áratugum, þekkja straumana og staðhætti og geta út frá þeim sjónarmiðum valið skipsflökum stað, að því gefnu, eins og hv. þm. Einar K. Guðfinnsson tók réttilega fram, að skipin séu skaðlaus náttúrunni og búið væri að hirða úr þeim öll mengunarefni. Reyndar hefði ég talið að nauðsynlegt væri, áður en skipum er sökkt, að taka úr þeim möstrin, því að skip liggja oft á annarri hliðinni á hafsbotni, þá skaga möstrin út úr sem hefur reynst þó nokkuð hættulegt fyrir fiskimenn þegar þeir eru að fara nálægt flökunum --- því að það er oft fiskur nálægt þeim --- að krækja veiðarfærum sínum í það sem út úr flökunum stendur. Út frá öryggissjónarmiðum væri því eðlilegt, vegna þess að það er einfaldlega þannig að þó að veiðarfæri festist í flaki, ef ekki er eitthvað sérstakt á flakinu sem beinlínis veldur því að ekki sé hægt að ná veiðarfærinu burtu, eins og t.d. möstur, gálgar eða eitthvað slíkt, er oft hægt að ná veiðarfærinu í burtu aftur, fyrir utan að flakið er miklu afmarkaðra. Það hefur sýnt sig að veiðarfæri sem hafa farið að hrúgast utan á flök teygja sig oft langt frá flökunum því þau hanga í einhverjum hlutum sem flökunum fylgja, auk þess er ekki mikið mál að brenna möstur úr skipum ef það á að sökkva þeim á annað borð.

Ég held að aðalmálið sé að velja skipunum stað og ákveða hvar eigi að sökkva þeim og að farið sé eftir ráðleggingum fiskimanna sem þekkja viðkomandi slóð, hvort þeir fallast á að þeim sé sökkt djúpt eða grunnt o.s.frv. Ég held að það geti t.d. verið mjög varasamt að sökkva skipum í bratta kanta þar sem menn stunda oft fiskveiðar. Það er ekki sjálfgefið hvernig skipin leggja sig við að sökkva til botns á slíkum svæðum. Á sléttum botni, sem er orðinn sléttur en var það kannski ekki fyrir 40--50 árum, í tiltölulega grunnu vatni er ekki mikið mál að sökkva skipum. Með nútímastaðsetningartækni er hægt að staðsetja skip um leið og þeim er sökkt með mjög mikilli nákvæmni. Ef séð er fyrir því að skipin séu mengunarlaus og þeim sökkt undir eftirliti og á ákveðnum stöðum held ég að vel megi hugsa sér það.

Ég held að það væri afar fróðlegt að gera slíka tilraun, fara inn á eitthvert svæði sem er orðið tiltölulega slétt og menn þekkja og sökkva þar eins og fjórum, fimm flökum með dálitlu millibili. Kortleggja vel hvar þeim er sökkt og skoða svo svæðið eftir að slík aðgerð hefur farið fram og sjá hvaða breytingar verða.

Ég hef iðulega ásakað Hafrannsóknastofnun hastarlega fyrir að stunda ekki markvissar rannsóknir á friðuðu svæðunum. Teknar voru ákvarðanir hipsum haps einhvern tíma í fortíðinni um að loka stórum svæðum, ég get nefnt Strandagrunn og Hornbanka sem hafa verið lokaðir áratugum saman. Mér vitanlega hafa ekki farið fram neinar samanburðarrannsóknir á svæðum þar sem ekki hafa verið stundaðar togveiðar áratugum saman og öðrum svæðum í nágrenninu, hvort botnlag hafi breyst, hvort fiskgengdin hafi breyst, hvort það sé önnur stærð á friðuðu svæðunum en utan þeirra eða hvort botndýralíf hafi breyst. Slík vitneskja fæst ekki nema menn fari markvisst og rannsaki svæðið áður en því er lokað og fylgist síðan með því eftir að því hefur verið lokað. Það væri mjög fróðlegt að gera slíka tilraun með skipsflökum sem ekki mundu valda neinni mengun. Það verður, eins og ég sagði áðan, að velja svæðið, velja hvar á að setja skipsflökin, djúpt eða grunnt, innfjarða eða langt frá landi o.s.frv.

Ég hygg að eitt atriði hafi í raun og veru verið til trafala við framkvæmd þessarar hugsunar. Hvað skyldi það nú vera? Ég hugsa að það séu veðin í bönkunum. Það hanga iðulega einhver veð á skipunum og fram að þessu hafa menn talið að jafnvel í skipum sem allir hafa verið sammála um að væru nánast orðin ónýt væri eitthvert veð þó að menn væru jafnframt sammála um að í slíku skipi væri ekkert sérstakt verndunargildi. Á undanförnum árum höfum við verið að vernda ýmis skip sem eiga sögu og verndað sérstök eintök af gerð skipa, eins og gömlu trébátana okkar. Ég hygg því að það þurfi að huga að því að ekki séu hangandi veð á skipunum í höfnunum þannig að það sé ekki til trafala.

Að öðru leyti tel ég að sú tillaga sem við erum að ræða eigi fyllsta rétt á að vera skoðuð en hana þarf að framkvæma skipulega og búa til það sem menn telja að geti orðið fiskverndarsvæði í samráði við þá sem best þekkja til fiskveiðisögu á slíkum svæðum og nýtingu svæðisins, en það eru einfaldlega íslenskir fiskimenn, skipstjórnarmenn. Þess vegna, ef umhvrn. meinar eitthvað með því að þeir vilji taka afstöðu til tillögu eins og þeirrar sem hér er til umræðu, mundu menn auðvitað leita eftir þessari þekkingu og hún er til. Það er ósköp einfalt að hafa samband við samtök skipstjórnarmanna hér á landi og fá ráðleggingar hjá þeim um einhver takmörkuð svæði í kringum landið sem tilraunin væri gerð á.

Hitt er svo annað mál, virðulegur forseti, og rétt að vekja athygli á því, að í sumum löndum þar sem kaupgjald er lágt eru menn að vinna í því ár og síð og alla tíð að skera niður stálskipaflök í skipasmíðastöðvum. Ég hef t.d. séð þetta í Lettlandi og Póllandi. Þetta færðist kannski meira til Lettlands þegar kaupgjald í Póllandi fór aðeins að hækka, þá munaði meira en helming á kaupgjaldinu í Lettlandi miðað við Pólland í skipasmíðastöðvunum. Þar voru menn í skipasmíðastöð allan ársins hring að skera niður gömul skip og koma þeim fyrir í brotajárnshaugum sem voru svo fluttir til Austur-Þýskalands og endurbræddir.

Ég er því ekki alveg viss um, virðulegi forseti, að skipin hafi beinlínis verið til sölu á þessu hrakvirði og hafi beinlínis verið boðin ákveðnum skipasmíðastöðvum erlendis eða innan lands á algjöru hrakvirði þannig að menn tækju þau bara og sæju fyrir þeim. Það kann að vera að eitthvað hafi staðið í veginum fyrir því að menn væru sammála um að setja skip í brotajárn, en það á fyrst og fremst við um stálskipin.

Ég hygg að skipin hafi ekki verið til sölu á því verði sem menn hafi treyst sér til að kaupa þau á, m.a. vegna þess að það hafa hangið á þeim einhver gömul veð og ekki verið svo auðvelt að kaupa þau fyrir sáralítið verð, hvort sem menn hafa viljað fara með þau til útlanda eða jafnvel gera þau upp og eiga þau sem einhvers konar sumarsiglingatæki eða ferðatæki til að sigla til annarra landa ef svo ber við. Það höfum við séð í öðrum löndum eins og í Danmörku. Þar er búið að gera upp fjölda gamalla báta sem menn eiga og er snyrtilega við haldið og eru notaðir til siglinga fyrir viðkomandi fjölskyldur en eru ekki atvinnutæki sem slík. Sá varðveislumáti hefur ef til vill orðið til þess að varðveita skipasögu viðkomandi þjóðar.

Þess vegna legg ég til, virðulegi forseti, og ætla að enda mál mitt á því, að málið fái fljóta og snögga umfjöllun og menn skoði það einfaldlega í hv. nefnd með því að kalla samtök skipstjórnarmanna á fund, hvort þeir treysti sér til að benda á ákveðin svæði með tiltölulega stuttum fyrirvara þannig að það mætti framkvæma eitthvað af þessu innan þess tímaramma sem lögin bindast við vegna almennra og alþjóðlegra ákvæða, þá kemur í ljós hvernig má stýra þessu.

Ég hef hins vegar ekki trú á því að skrifa bréf til umhvrn. og bíða eftir staðsetningu þeirra eða fá þekkingu þaðan til að velja svæði á hafsbotni við Ísland. Þeir hafa ekki séð neitt af honum.