Verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu

Mánudaginn 23. febrúar 2004, kl. 16:04:11 (4498)

2004-02-23 16:04:11# 130. lþ. 69.18 fundur 564. mál: #A verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu# (heildarlög) frv., umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 130. lþ.

[16:04]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Þó að hv. þm. Sigurjón Þórðarson telji hægt að fara með hugsanlega framkvæmd í umhverfismat í dag er það ekki svo. Miðað við hvernig þetta mál er vaxið er réttaróvissa um það atriði vegna þess að í núgildandi lögum stendur að ekki megi hafa áhrif á rennsli Laxár nema til verndunar og ræktunar. Meginkrafturinn á bak við þær hugmyndir sem eru uppi er ekki að vernda og rækta, heldur rekstrarerfiðleikar við virkjunina. Þessi framkvæmd er þess eðlis að hún fellur ekki að lögunum. Þess vegna þarf að taka á þessari réttaróvissu til að umhverfismatið gæti farið fram og menn gætu skoðað áhrifin.

Til hvers ættu Skipulagsstofnun eða Umhverfisstofnun í dag að taka þessa framkvæmd inn í umhverfismatið þar sem ekki er hægt að veita leyfi fyrir henni? Hún er ekki, eins og menn hafa skilið þetta mál, til verndunar eða ræktunar. Hún er vegna rekstrarerfiðleika í þessari virkjun þannig að það er annar megintilgangur þessara laga, að eyða réttaróvissunni svo að menn geti farið í umhverfismat og skoðað þá alla kosti og galla við hugsanlega framkvæmd. Ég er alveg viss um að Landsvirkjun mun leggja sig fram við að ræða við heimamenn um þá kosti sem þeir vilja láta skoða sem Landsvirkjun hingað til hefur ekki ljáð máls á af því að nú verða menn að ná saman. Menn verða allir að vera sammála um ásættanlegar aðgerðir eigi þær að verða að veruleika. Annars verður ekkert úr neinu og engar breytingar verða gerðar.