2004-02-24 15:17:36# 130. lþ. 70.2 fundur 612. mál: #A staðfesting samninga um loðnustofninn á hafsvæðinu milli Grænlands, Íslands og Jan Mayen# þál., GAK
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 130. lþ.

[15:17]

Guðjón A. Kristjánsson:

Hæstv. forseti. Ég hef langa reynslu af samningum á ýmsum sviðum og get verið sammála síðustu ræðumönnum um að það hefur ekki mikinn tilgang að halda langa ræðu til að semja við sjálfan sig. Þegar maður ætlar að fara með það til annarra er ekki víst að af því verði nokkur árangur.

Það breytir hins vegar ekki þeirri skoðun minni, virðulegi forseti, að við verðum að vera mjög á bremsunni varðandi síldarsamningana sem komið hafa til tals í umræðunni. Við gáfum eftir, ef ég man rétt 7.500 tonn --- hæstv. ráðherra leiðréttir mig ef það er ekki rétt --- síðast þegar við náðum saman samningum. Er það ekki rétt munað? (Utanrrh.: 7.000.) Eða 7.000 tonn. Ég heyrði hæstv. ráðherra áðan tala um 3.000--5.000 tonn sem minni háttar breytingu. Ef við leggjum það við 7.000 tonn þá fara tölurnar að skipta nokkru máli. Ég held að menn þurfi aðeins að staldra við það. Þó að ég taki undir þau sjónarmið hæstv. utanrrh. að ekki megi fórna góðum samskiptum okkar og Norðmanna og koma þeim í of mikið uppnám þá held ég að við verðum að vera nokkuð stífir að þessu leyti.

Það er mikill munur á samningum okkar um loðnuna, síldina og botnfiskveiðiheimildir okkar í Barentshafi. Veiðiheimildirnar sem við sömdum um í Baretnshafinu voru til komnar vegna þess að við höfðum veiðireynslu á alþjóðlegu hafsvæði, þ.e. í Smugunni. Sama má segja um norsk-íslensku síldina. Það er hægt að stunda veiðar á norsk-íslensku síldinni í Síldarsmugunni, á alþjóðlegu hafsvæði. Þær veiðiheimildir eru því ekki gengnar okkur úr greipum, ef svo er hægt að segja, við það að samningarnir falli niður, hvorki í Barentshafinu né þá veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum. Við ættum eftir aðgang að þeim á alþjóðlegu hafsvæði. Í Smugunni annars vegar og hins vegar á alþjóðlegu hafsvæði í Síldarsmugunni og svo þann möguleika, með hlýnandi sjó hér við land, að norsk-íslenska síldin gengi inn í okkar lögsögu í meiri mæli en verið hefur.

Hvort tveggja gefur síldarsamningnum annars vegar og botnfiskheimildum okkar í Barentshafi allt aðra fleti en samningum okkar við Norðmenn um loðnuna. Hingað til hefur loðnan ekki mælst að neinu marki utan lögsögu. Þó minnir mig að á síðustu vertíð hafi einhver hluti loðnustofnsins náð að fara inn í færeyska lögsögu um skamman tíma á göngu sinni suður um. Að öðru leyti held ég að loðnan hafi ekki gengið út úr lögsögum Grænlands, Jan Mayen og Íslands. Þessu er því ekki saman að jafna. Það er rétt, sem hér hefur verið dregið fram í umræðunni, að samningur okkar um loðnuna á sínum tíma byggðist á þeirri veiði sem Norðmenn náðu nánast á einu ári í Jan Mayen-lögsögunni og hafa sjaldan ef nokkurn tíma endurtekið síðan. Það er því ekki rétt af okkur að setja þessa samninga á einn bás. Samningsforsendurnar eru mjög misjafnar að því er okkur varðar að þessu leyti.

Það breytir hins vegar ekki þeirri niðurstöðu minni að það sé skynsamlegt að ná samningum í stöðunni, þótt ég hafi verið tiltölulega andvígur síldarsamningnum 1996, eins og hæstv. utanrrh. veit, og teldi að við hefðum gefið verulega mikið eftir við að ná honum. Eftir á er hægt að deila um samninga en þegar upp er staðið una menn við þá samninga sem gerðir hafa verið og reyna að vinna úr þeim eftir bestu getu. Það held ég að við höfum gert með síldarsamningana fram að þessu.

Ég verð hins vegar að segja að krafa Evrópusambandsins á sínum tíma, varðandi síldarsamningana og forsendur þess að þeir fengu þá úthlutun, hefur mér ævinlega fundist mjög ósanngjörn. Hún er nánast út úr öllu korti. Ég held að ég fari rétt með það að á þeim tíma er samningar stóðu yfir um síldina á sínum tíma þá töldum við Íslendingar, ég hygg að Norðmenn hafi verið sama sinnis, að krafa Evrópusambandsins væri vægast sagt byggð á vafasömum aflatölum, ef ekki ósönnum. Ég held að ég muni það rétt frá þeim umræðum sem áttu sér stað í aðdraganda þeirra samninga.

Áðan var vikið að brottkastsbrotum og brottkasti, m.a. á norsk-íslenskri síld. Ég undrast yfir þeim orðum hæstv. utanrrh. að um minni háttar brot sé að ræða þegar menn henda síld í hafið. Menn hafa verið dæmdir hér á landi fyrir ýmis brot. Ég man ekki hvort það voru 14 fiskar, þar af 5 ufsar í öðru brotinu, á Bárunni og hins vegar 52 fiskar á Bjarmanum (MÞH: 53.) eða 53. Það voru talin mjög alvarleg brot hvort tveggja. Menn voru dregnir fyrir dóm, sviptir veiðileyfi einn, tveir og þrír o.s.frv. Núna skilgreinir hæstv. utanrrh. það brot sem hér hefur borist inn í umræðuna sem minni háttar brot. Mér er spurn: Hvar liggja línurnar á milli þessara minni háttar brota og meiri háttar brota? Ég man eftir trillukarli í Hafnarfirði sem sviptur var veiðileyfi fyrir tólf kíló fyrir nokkuð mörgum árum síðan. Það hlýtur að hafa talist meiri háttar brot.

Ég held að við séum komin á hálan ís þegar við förum að reyna að túlka minni háttar brot og meiri háttar brot að þessu leyti og ákveða út frá því hvenær menn eru sviptir veiðileyfi og teknir til rannsóknar og dæmdir. Öll skulum við jöfn fyrir lögum. Hér gildir reglugerð nr. 483 frá 1. júlí 2003, um stjórn veiða íslenskra skipa úr norsk-íslenska síldarstofninum árið 2003. Þar segir að Fiskistofu sé heimilt að svipta skip veiðileyfi vegna brota á þessari reglugerð o.s.frv. Þetta er bara hin almenna klásúla sem er í öllum reglugerðum og vinnureglum. Ég vil því ítreka að ég á afar erfitt með, virðulegi forseti, að átta mig á því hvernig menn ætla að draga þessar línur við minni háttar og meiri háttar brot. Það þarf betri skilgreiningu á því.