Verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu

Þriðjudaginn 24. febrúar 2004, kl. 16:02:22 (4561)

2004-02-24 16:02:22# 130. lþ. 70.3 fundur 564. mál: #A verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu# (heildarlög) frv., umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 130. lþ.

[16:02]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hér er því haldið fram að andstaða sé við ,,framkvæmdina`` á heimasvæðinu. Það er gefið í skyn að gengið sé út frá einhverri útfærðri framkvæmd í bráðabirgðaákvæðinu en svo er alls ekki. Það stendur ekkert um þessa framkvæmd í bráðabirgðaákvæðinu að öðru leyti en því að það má hækka stífluna en ekkert sagt um hve mikið, engir metrar tilgreindir.

Ef hv. þm. er að tala um 12 m þá er ég sammála honum um að það er andstaða við 12 m. Það kom fram á fundi sem ég hef haldið með stjórn landeigendafélagsins að það er mikil andstaða við 12 m hækkun. En það þýðir ekki að tala eins og það sé eina framkvæmdin í umræðunni.

Landsvirkjun gerði á sínum tíma matsáætlun fyrir 10--12 m en mér er kunnugt um að menn eru að ræða um allt aðrar útfærslur í dag við heimamenn. Það er nýbúið að halda fund með heimamönnum núna, að mig minnir 17. febrúar, þar sem heimamenn lögðu áherslu á það, eins og þeir lögðu áherslu á við mig á fundinum sem ég átti með þeim, að skoðað yrði að fara í Kráká, taka sandinn miklu ofar. Þá þyrfti ekki að taka sandinn í inntakslóninu og þá væri hægt að hafa stífluna lægri, ekki hækka hana um 10--12 m.

Það þýðir ekki að fara með umræðuna í þann farveg að hún snúist einungis um einhverja 10--12 m, menn eru að tala um aðra hluti. Landsvirkjun og heimamenn eru að tala um aðra útfærslu. Ég hélt að hv. þm. væri kunnugt um það. Ég tel að talsverðar líkur séu á því að menn geti náð saman um einhverja útfærslu eftir að umhverfismat hefur farið fram.