Verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu

Þriðjudaginn 24. febrúar 2004, kl. 17:39:26 (4582)

2004-02-24 17:39:26# 130. lþ. 70.3 fundur 564. mál: #A verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu# (heildarlög) frv., umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 130. lþ.

[17:39]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel ekki að við höfum verið að segja í sundur friðinn með þessu. Ég átti mjög góðan og uppbyggilegan fund með stjórn landeigendafélagsins þar sem við fórum yfir þetta mál í mesta bróðerni (Gripið fram í: Annað stendur í ályktuninni.) og það var afar fínn fundur. Menn eru hins vegar núna að ræða saman um útfærslu. Á þeim tíma var ekki verið að ræða um neinar útfærslur en ég heyrði alveg hvað heimamenn sögðu. Þeir vildu láta skoða ákveðna hluti í umhverfismatinu færi það fram. Núna er Landsvirkjun að skoða þær hugmyndir sem heimamenn hafa þannig að ég tel ekki að við höfum verið að segja í sundur friðinn með nokkrum hætti í þessu máli. Það er verið að útbúa þetta bráðabirgðaákvæði þannig að heimamenn hafa síðasta orðið eins og oft hefur verið nefnt í þessu sambandi. Ekki er hægt að fara í framkvæmdir á staðnum nema þeir séu sáttir við slíka framkvæmd. Umhverfisstofnun þarf líka að veita leyfi. Lögin eru þannig að það er mjög torsótt að fara í breytingar og bara útilokað nema menn geri það í sátt. Hvað vilja menn meira en það?

Mér finnst að þessu máli sé mjög eðlilega fyrir komið í þessu bráðabirgðaákvæði en vilji menn skoða það eitthvað frekar gerir umhvn. það. Ég er sammála hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni að það er eðlilegt að þetta mál fái mjög góða skoðun af því að það er alls ekki sama hvað er gert á þessu svæði, alls ekki. Þetta er þannig svæði. Ég tel þó ekki eðlilegt fyrir fram, eins og margir þingmenn hafa sagt hér, að útiloka algerlega að til einhverrar stífluhækkunar komi. Ég tel eðlilegra að það verði skoðað í umhverfismati.