Heimahjúkrun á höfuðborgarsvæðinu

Þriðjudaginn 02. mars 2004, kl. 14:04:15 (4738)

2004-03-02 14:04:15# 130. lþ. 74.94 fundur 374#B heimahjúkrun á höfuðborgarsvæðinu# (umræður utan dagskrár), GAK
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 130. lþ.

[14:04]

Guðjón A. Kristjánsson:

Hæstv. forseti. Hinar sérstæðu deilur um fyrirkomulag akstursmála þeirra starfsmanna sem sinnt hafa heimahjúkrun í Reykjavík og Kópavogi valda því nú að réttur sjúkra, þ.e. skjólstæðinga heimahjúkrunar, er fyrir borð borinn. Alvarlegt ástand hefur skapast vegna deilunnar og heilbrrh. getur ekki setið hjá og látið deiluna stigmagnast án þess að koma að málinu. Heimahjúkrun er nauðsyn og jafnframt ódýr þjónusta við sjúka.

Það er ómaklegt að saka þá hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða sem starfað hafa við heimahjúkrun um að þeir sinni ekki almennilega starfi sínu þó að deila sé uppi um starfskjör.

Akstursgreiðslur eru allt frá árinu 1990 hluti af samkomulagi milli fjmrh. og BSRB um greiðslur fyrir akstur starfsmanna heimahjúkrunar. Það eru hverfisstjórar sem skipuleggja ferðir starfsmanna en ekki þeir sjálfir. Fyrirséð er að útskriftir af spítölum verði ekki eins og áður meðan málið er í hnút þar sem heimahjúkrun getur ekki tekið við þeim sem þurfa þjónustu. Ástandið mun því aðeins versna að óbreyttu, bæði fyrir núverandi skjólstæðinga og aðra sem gætu útskrifast. Kostnaður mun aukast og fyrirséð virðist að ekkert sparast eins og ætlað var.

Allt stefnir í að lagalegur réttur sjúkra til bestu heilbrigðisþjónustu sem veita má á hverjum tíma verði sniðgenginn á meðan þeim er ekki veitt sú hjúkrun og aðstoð sem þeir þurfa til verndar almennu heilbrigði sínu. Heilbrrh. ber að sjá til þess að lögum um heilbrigðisþjónustu sé framfylgt eins og þau mæla fyrir um en þar er réttur sjúkra settur í forgang. Heilbrrh. telur að góð tilboð liggi þegar fyrir frá vinnuveitendum til lausnar á deilunni og er í raun undrandi á að ekki skuli hafa tekist samkomulag. Væri ekki rétt að hæstv. ráðherra ræddi við hjúkrunarfólkið og beitti sér fyrir lausn á þessari einkennilegu deilu?