Vextir og þjónustugjöld bankastofnana

Þriðjudaginn 02. mars 2004, kl. 16:09:51 (4770)

2004-03-02 16:09:51# 130. lþ. 74.8 fundur 323. mál: #A vextir og þjónustugjöld bankastofnana# þál., JBjarn
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 130. lþ.

[16:09]

Jón Bjarnason:

Frú forseti. Þessi till. til þál. um vexti og þjónustugjöld bankastofnana er að mörgu leyti góðra gjalda verð. Mér finnst sjálfsagt að skoða ítarlega, bæði samsetningu og forsendur vaxta og þjónustugjalda hjá fjármálastofnunum. Þetta hefur komið til umræðu á síðustu mánuðum, þ.e. hvort bankarnir sæki sér óhóflegar tekjur og rekstrarfé með háum þjónustugjöldum.

Ég vil taka undir þau orð sem eru í greinargerð um stöðu bankanna gagnvart viðskiptaaðilunum. Þar er nánast um einstefnu að ræða hvað varðar framkomu bankanna gagnvart viðskiptaaðilum. Ég hef áður vakið athygli á þessu í ræðum á Alþingi, m.a. í utandagskrárumræðu um stöðu bankanna. Þeir taka sér rétt til þess að kaupa og selja fyrirtæki og skammta sér þar alla viðskiptaskilmála einhliða. Sömu stöðu hafa þeir gagnvart viðskiptavinunum.

Við þekkjum öll þau bréf sem koma frá bönkunum. Orðalagið í þeim bréfum sýnir þessa stöðu viðskiptavinanna, þar er allt í boðvaldi eða boðhætti. Bankinn tilkynnir, setur fresti og setur alla skilmála í viðskiptum sem annars eru tvíhliða. Annars vegar er bankinn og hins vegar viðskiptaaðilinn. Viðskiptaaðilinn er réttlaus í þessum viðskiptum og verður að taka þeim boðum sem bankinn eða fjármálastofnunin býður og við þekkjum greinilega úr orðalagi þeirra bréfa, tilkynninga frá bönkunum. Þessi bréf af hálfu bankastofnananna sýna einmitt í hnotskurn stöðu þeirra og kannski oft á tíðum virðingu þeirra fyrir viðskiptavininum.

Ég vil vekja athygli á nokkrum atriðum í þáltill. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

,,Ríkisstjórnin láti enn fremur rannsaka sérstaklega hvaða áhrif upptaka evrunnar hefði á vaxtamun stýrivaxta hér á landi.``

Þar er, eins og við þekkjum úr málflutningi fulltrúa Samf., unnið í einhverjum óskhætti. Verið er að tala um hvaða áhrif það hefði á vaxtagjöld og annan fjármálamarkað ef búið væri að taka upp evruna. Í barnaskap sínum virðast þingmenn Samf. ekki átta sig á að upptaka evrunnar er einn hluti af því að ganga í Evrópusambandið. Því er útilokað að ætla að reikna eða kanna áhrif evrunnar einnar sér á fjármálamarkaðinn. Að kanna áhrif þeirra aðgerða einna og sér er út í hött. Það yrði að gerast með inngöngu í Evrópusambandið með öllum þeim kostum og göllum sem við yrðum að axla við inngöngu í Evrópusambandið. Þessi fáránleiki eða þessi óraunveruleiki einkennir því miður málflutning þingmanna Samf. og skemmir að mínu mati oft fyrir góðum málum hjá þeim, að vilja láta kanna þetta og hitt út frá forsendum sem ekki eru fyrir hendi. Þetta kemur ítrekað fyrir í þessari þáltill., að kannað verði hver staðan væri ef búið væri að taka upp evruna á þessum og hinum sviðum. Þetta sýnir því miður þann fáránleika sem spillir oft málum þeirra.

Hér er jafnframt lagt til að kannað verði hvaða áhrif það hafi á vaxtamun íslenskra banka í alþjóðlegum samanburði að hlutfallslega ódýr lán húsbréfakerfisins standi fyrir utan lánakerfi bankanna. Ég tel að það hafi verið mjög farsælt að húsbréfakerfið eða íbúðalánakerfið sé rekið á sjálfstæðan hátt og með félagslegri ábyrgð. Ég er því alfarið á móti því að verið sé að gæla við að fella það inn í almennt lánakerfi banka.

[16:15]

Hins vegar hafa menn velt vöngum yfir því hvort vaxtastigið á húsbréfalánunum sé of hátt, bankar og fjármálastofnanir séu að taka lán erlendis á 2% vöxtum til þess að fjárfesta í húsbréfalánum á yfir 5% vöxtum þannig að þegar lán eru bæði með ríkisábyrgð og verðtryggingu sé spurning hvort vextirnir séu í rauninni of háir á slíkum lánum. Það má í sjálfu sér velta því fyrir sér án þess að ég ætli að fara neitt ítarlega í það.

Því er líka velt fyrir sér hvort rekja megi vaxtamun hér á landi til lítillar samkeppni á milli bankastofnana og þá vil ég bara vekja athygli á þeirri umræðu og þeim breytingum sem hafa orðið á fjármálamarkaði á undanförnum árum þegar ákveðið var að einkavæða og selja báða ríkisbanknana í einu og taka þá áhættu sem því fylgdi að einkavæða allan íslenskan fjármálamarkað á einu bretti. Ég tel að það hafi verið misráðið og við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs vöruðum við því sem síðan hefur reynst raunin að hér hefur vaxið upp, menn hafa orðað það, græðgisframferði á íslenskum fjármálamarkaði í kjölfar þeirrar miklu einkavæðingar sem þar varð. Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs lögðum það einmitt til að öðrum ríkisbankanum yrði haldið og hann yrði í eigu ríkisins a.m.k. fyrst um sinn meðan verið væri að þróa íslenskan fjármálamarkað.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að gera annað að miklu umtalsefni. Ýmis markmið í þáltill. eru ágæt þó svo að þarna slái út í fyrir hv. flutningsmönnum að taka eigi upp evru og kanna áhrif upptöku evru á íslenskan fjármálamarkað. Vaxtastig erlendis, hvort sem það er í Evrópulöndum eða í Japan eða Bandaríkjunum sem eru aðalviðskiptaaðilar okkar, hefur að sjálfsögðu áhrif á vexti á fjármálamarkaði hér á landi og með opnun á frjálsu fjárstreymi inn og út úr landinu og að Seðlabankinn hefur sem markmið verðbólgumarkmið en ekki gengismarkmið þá er þetta svo sem fylgifiskur sem búast mátti við.