Útsendingar sjónvarps og hljóðvarps um gervitungl

Þriðjudaginn 02. mars 2004, kl. 17:43:04 (4788)

2004-03-02 17:43:04# 130. lþ. 74.11 fundur 473. mál: #A útsendingar sjónvarps og hljóðvarps um gervitungl# þál., JBjarn
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 130. lþ.

[17:43]

Jón Bjarnason:

Frú forseti. Þessi till. til þál. um útsendingar sjónvarps og hljóðvarps um gervitungl er enn ein tilraunin af hálfu Alþingis til að skora á framkvæmdarvaldið sem hefur þetta hlutverk með höndum að koma á þeim skilyrðum að sjónvarp og hljóðvarp náist með eðlilegum hætti um allt land.

Ég er meðflutningsmaður að þeirri tillögu sem hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson mælti fyrir og vona að hún fái meiri hljómgrunn og öflugri framvindu núna, bæði verði hún samþykkt af hálfu þingsins og verði bein skilaboð til framkvæmdarvaldsins um að sjá til þess að svo verði sem þáltill. kveður á um.

Ég segi þetta vegna þess að ég held að flest ár síðan ég kom á þing hafi verið flutt tillaga um hliðstætt efni án þess að það hafi nokkuð hert á framkvæmdum. Árið 1999--2000 var flutt hér svona tillaga. Þá var 1. flm. þáv. þm. Hjálmar Jónsson og meðflutningsmenn úr öllum stjórnmálaflokkum sem þá áttu sæti á Alþingi. Þá var till. til þál. þess efnis að Alþingi ályktaði að fela ríkisstjórninni að láta gera framkvæmdaáætlun um uppbyggingu dreifikerfis Ríkisútvarpsins þannig að öll heimili í landinu næðu sjónvarpsútsendingum fyrir árslok 2000.

[17:45]

Í umræðunni þá kom fram að nær 80 heimili í landinu hefðu ekki aðgang að sjónvarpsútsendingum og að áætlaður kostnaður við að koma því í lag eftir þeim leiðum sem þá voru kunnar gæti legið einhvers staðar á bilinu 200--300 millj. kr.

Virðulegi forseti. Nú eru það einmitt þessir þættir sem gera okkur að einni þjóð, þ.e. fjarskiptin og tengslin í gegnum Ríkisútvarpið, útvarp og sjónvarp. Það var gríðarlegt metnaðarmál á sínum tíma þegar ákveðið var að ráðast bæði í að leggja síma um landið og eins að koma á útvarpi eða möguleikum á að taka á móti sendingum útvarps um allt land. Þá var lögð gríðarleg áhersla á að það næði til allra íbúa landsins óháð búsetu og öðru sem hugsanlega gat mismunað fólki. Gríðarleg áhersla var lögð á þetta og litið var á þetta sem lið í að efla íslenskt þjóðfélag, styrkja innviði íslensks samfélags og jafnframt að mynda grunn hinnar öflugu framsóknar íslensks þjóðfélags á undanförnum áratugum á sviði menningar og atvinnulífs.

Ég tek því undir áherslur framsöguræðu hv. þm. Guðmundar Hallvarðssonar um að það er enn svo að einmitt tenging gegnum síma, útvarp og sjónvarp er einn aðalgrundvöllur þess að við erum eitt samfélag, einn þjóð.

Ég verð því að harma hvað illa hefur tekist til á undanförnum árum, í nærri áratug, við uppbyggingu fjarskiptakerfisins og við það að bæta útvarps- og sjónvarpsskilyrði. Þar hefur tíminn nánast staðið í stað. Við höfum staðið frammi fyrir þessu í fjarskiptum og í því að útrás GSM-símþjónustunnar um land allt hefur stöðvast. Hið sama virðist nú vera að gerast hvað útvarpsskilyrðin varðar. Það er ekki aðeins svo að ekkert virðist gerast hjá þeim sem ekki hafa notið þessara möguleika heldur hefur einnig sáralítið eða ekkert gerst í að bæta útvarpsskilyrði hinna dreifðu byggða, þ.e. í að auka möguleika á að ná rásum Ríkisútvarpsins. Heilu landshlutarnir ná ekki Rás 1 eða Rás 2 með eðlilegum hætti. Þeir mega búa við það að allt í einu er skipt á milli þannig að þeir sem eru að hlusta á Rás 1 fá bara allt í einu Rás 2 inn á Rás 1. Svo háttar til í mörgum landshlutum og er þetta náttúrlega algjörlega óviðunandi þjónusta. Á þessari þjónustu ber ríkið ábyrgð og ég vil líka að ríkið beri ábyrgð á henni, þ.e. að við berum samfélagslega ábyrgð á þessu. Sé hægt að auka, efla og styrkja þessa samfélagsþjónustu gegnum gervitungl þá finnst mér alveg sjálfsagt að skoða það, en tillaga þessi hljóðar upp á það.

Jafnframt vil ég ítreka að alla þessa sendi- eða móttökuþjónustu um allt land verður að skoða, efla og styrkja. Þess vegna tek ég undir það með hv. frsm. að þetta er hið brýnasta mál sem við hér eigum að láta koma til framkvæmda. Við megum ekki hengja þetta á fjárhag Ríkisútvarpsins þó svo að það sé gert í lögum því að við hér eða Alþingi hefur að tilhlutan framkvæmdarvaldsins skert fjárframlög til Ríkisútvarpsins og gert starfsvettvang þess og möguleika mjög þrönga. Því finnst mér að við eigum að taka þessi verkefni, þ.e. sjónvarps- og útvarpsskilyrði, út fyrir rekstrarsvið Ríkisútvarpsins og taka beint á því ef við treystum okkur ekki til þess að gera það í gegnum Ríkisútvarpið, en við höfum einmitt verið að skerða möguleika þess til þeirra verka.

Ég ítreka það, virðulegi forseti, að eitt af grunnatriðum samfélagsþjónustu á Íslandi er möguleikinn á því að allir landsmenn og sjófarendur á miðunum í kringum landið eigi möguleika á því að njóta eðlilegra útvarps- og sjónvarpssendinga. Ég vil þess vegna árétta það að ég tel að á meðan ríkið stendur fyrir þessu ... (Forseti hringir.) Ég ítreka það, virðulegi forseti, að ríkið, hið íslenska samfélag, þjóðin öll á að ábyrgjast að þessi þjónusta sé (Forseti hringir.) fyrir hendi um allt land.