Afnotagjöld Ríkisútvarpsins

Miðvikudaginn 03. mars 2004, kl. 15:49:51 (4866)

2004-03-03 15:49:51# 130. lþ. 76.5 fundur 581. mál: #A afnotagjöld Ríkisútvarpsins# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 130. lþ.

[15:49]

Menntamálaráðherra (Þorgerður K. Gunnarsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég ráðlegg hv. fyrirspyrjanda að lesa vel landsfundarályktanir Sjálfstfl. þar sem skýrt er tekið fram og kveðið á um mikilvægt hlutverk Ríkisútvarpsins sem við viljum viðhalda og efla sem mest.

Ég vil byrja á því að þakka þessa skemmtilegu umræðu í þingsölum. Það er ánægjulegt að vita til þess að allir þingmenn eru ánægðir með hlutverk Ríkisútvarpsins og vilja hag þess sem mestan og bestan. Það er það sem mér finnst skipta miklu máli þó að ekki hafi mikils samhljóms gætt, sérstaklega meðal stjórnarandstöðunnar.

Það er verið að hvetja mig til að taka eindregna afstöðu með eða á móti afnotagjöldum. Ég held að það væri óábyrgt af mér að segja hér og nú: Við ætlum að afnema afnotagjöldin. Við erum að fara mjög gaumgæfilega yfir þessi mál og valkosti í stöðunni. Ég tel ekki rétt af okkur að segja að við ætlum að afnema afnotagjöldin og vita síðan ekki hvernig við ætlum að snúa okkur að því að leysa fjárhagsvanda og fjármál Ríkisútvarpsins.

Það kostar um 3 milljarða af fjárlögum að ætla að setja Ríkisútvarpið beint á fjárlög. Hvar tökum við þá peninga? Með almennri skattheimtu? Ætlum við að hækka skatta? Er það sú lausn sem hv. fyrirspyrjandi vill beita sér fyrir eða ætlum við að fara nefskattsleiðina sem er að mörgu leyti ágæt og heppileg leið ef við ætlum m.a. að aldurstengja hana eins og aðrir komu inn á áðan. Það má hugsa sér að aldurstengja nefskattinn frá 18 ára til 70 ára sem skili þá svipuðu og afnotagjaldið gerir í dag og á nokkuð skilvirkan og greiðan hátt án þess að það komi til almennrar skattheimtu yfir alla.

Það er að mörgu að hyggja og ég kem til með að einbeita mér að því að leysa þessi fjármál, öll fjármál, líka lífeyrisskuldbindingar Ríkisútvarpsins sem var komið inn á áðan.