Stjórnarskipunarlög

Fimmtudaginn 04. mars 2004, kl. 12:13:30 (4900)

2004-03-04 12:13:30# 130. lþ. 77.1 fundur 279. mál: #A stjórnarskipunarlög# (bráðabirgðalög, þingseta ráðherra) frv., JÁ
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 130. lþ.

[12:13]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Ég var búinn að koma á framfæri því sem ég vildi segja almennt um þessa tillögu um breytingu á stjórnarskránni en hér hafa farið fram þó nokkuð miklar umræður um stjórnarskrána sjálfa og breytingar á henni og ég vil bæta bara fáeinum orðum við.

Aðferðir við endurskoðun á stjórnarskránni sem hafa verið notaðar fram að þessu eru að bæta inn ákvæðum án þess að stjórnarskráin hafi í raun og veru verið endurskoðuð í heilu lagi. Síðasta breyting á stjórnarskránni hlýtur að vera mönnum svolítið umhugsunarefni vegna þess að þar breyttu menn kjördæmum og kosningalögum og þar var sett inn ákvæði um að 2/3 atkvæða þyrfti á Alþingi. Það gildir um slíka breytingu, að hér þurfi 2/3 hluta til að breyta stjórnarskránni hvað varðar kjördæmaskipan. Stjórnarskránni má síðan breyta með einföldum meiri hluta en málið skal lagt fyrir þingið aftur eftir næstu kosningar og þarf staðfestingu óbreytt.

Til hvers er að vera með aukinn meiri hluta ef því ákvæði er hægt að breyta með einföldum meiri hluta? Það hlýtur að vera umhugsunarefni hvort það eigi að vera aukinn meiri hluti fyrir stjórnarskránni á Alþingi þannig að heildarendurskoðun á henni verði þá að vera bundin því að við hana sé svo sterkur stuðningur. Það er t.d. alveg ljóst, að mínu viti, að þetta ákvæði um aukinn meiri hluta til að breyta kjördæmaskipaninni mun þýða að það verður mjög erfitt að ná saman á hv. Alþingi um breytingu á kjördæmaskipan í framhaldi af þeirri breytingu sem hefur orðið núna. Það þarf sem sagt 2/3 hluta alþingismanna tvennar kosningar í röð til að ná fram breytingu á kjördæmaskipaninni. Þetta hefur komið mér til að halda að þó að ég hafi haldið því fram að það væri skynsamlegt að gera landið að einu kjördæmi getur orðið langt í þá niðurstöðu. Ég tel að það væri mjög þarflegt og nú hefur ríkisstjórnin á stefnuskrá sinni að það skuli gera breytingar á stjórnarskránni. Það liggur fyrir samkvæmt yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar að það eigi að breyta stjórnarskránni, setja þar inn ákvæði um eignarhald á auðlindum í hafinu.

Síðan hafa menn viðrað hugmyndir um alls konar hluti, um breytingar á stjórnarskránni. Hér erum við að tala um tillögur um tvær breytingar og sumir hafa talað um að endurskoða ákvæðin um forseta Íslands. Spurningin er: Er einhver pólitískur vilji til staðar til að fara í heildarendurskoðun á stjórnarskránni og taka þá inn öll þessi ákvæði sem menn hafa verið að fjalla um, bæði hér í þessum umræðum og svo í umræðum liðinna ára? Mér finnst vera kominn tími til að gera tilraun til að fara yfir þessi mál með þverpólitískum hætti og taka þá stjórnarskrána alla fyrir, hvernig hún eigi að vera og hvernig breytingar á henni eigi síðan að geta orðið í framtíðinni. Það er umhugsunarefni að menn skuli hafa komist að þeirri niðurstöðu að það þurfi aukinn meiri hluta til að breyta kosningalögum --- gaman væri að vita hvaða rök eru þar á bak við --- en ekki til að breyta öðrum ákvæðum í stjórnarskránni. Sá grunur læðist að manni að það að menn hafi talið þörf á þessu hvað varðar kosningalögin geti verið til að koma í veg fyrir að einhver meiri hluti, eða meirihlutasamstarf sem gæti haldið 2--3 kjörtímabil, geti farið að líta á það að breyta stjórnarskránni sem úrræði til að koma fram málum sínum. Getur verið að menn vilji hamla á móti einhvers konar skammtímahugsun í pólitík gagnvart stjórnarskrá með þessu ákvæði? En ætti þá ekki að hafa þá hugsun í heiðri gagnvart öðrum breytingum á stjórnarskránni líka, að þar þyrfti eitthvað aukinn meiri hluta? Nú er ég ekki á þeirri skoðun að menn þurfi endilega að halda sig við þá hugmynd að það þurfi 2/3 til að breyta stjórnarskrá en ég held að það væri hollt fyrir Alþingi ef það er að fjalla um breytingar á stjórnarskránni að það þurfi verulega góðan stuðning, þó að það séu ekki endilega 2/3 þingmanna, við þær breytingar sem menn eru að reyna að ná fram.

Ég vildi koma þessu að í umræðunni. Auðvitað verður ekki farið í heildarendurskoðun á stjórnarskránni með neinu hraði. Það tekur tíma. Það er hins vegar ekki útilokað að menn gætu klárað það mál á þessu kjörtímabili ef það væri vilji til þess á hv. Alþingi að gera slíka endurskoðun. Annað eins hefur gerst á þremur árum eins og að menn fari yfir málefni af þessu tagi. Það er vandasamt en það er að mínu viti full ástæða til að gera eina tilraun enn til að endurskoða stjórnarskrána.

Það skulu vera lokaorð mín að ég legg til að menn hugsi það mál í fullri alvöru og það verði ekki núna hlutverk okkar á hv. Alþingi að standa frammi fyrir einni brtt. frá ríkisstjórninni á stjórnarskránni heldur að alþingismenn reyni sig við það að ná samkomulagi um stjórnarskrána í heild en ekki eitthvert eitt slíkt atriði.