Textun

Fimmtudaginn 04. mars 2004, kl. 13:24:46 (4910)

2004-03-04 13:24:46# 130. lþ. 77.3 fundur 386. mál: #A textun# frv., KHG
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 130. lþ.

[13:24]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Hér er hreyft máli sem á erindi við marga í íslensku þjóðfélagi. Í greinargerð með frv. kemur fram að um 25 þúsund landsmenn séu það heyrnarskertir að þeir geti ekki heyrt í sjónvarpi þannig að þeim sé nauðsynlegt að fá efni textað til að hafa full not af því. Það er nokkuð stór hluti þjóðarinnar, þ.e. um 8% eða svo af landsmönnum. Augljóst er að fyrir svo stóran hóp landsmanna verður að huga að úrbótum. Ég hygg að enginn geti mælt því mót. Reyndar hefur Alþingi að nokkru leyti markað stefnuna með samþykkt þáltill. fyrir rúmum 2--3 árum um textun á íslensku sjónvarpsefni. Á Alþingi hefur komið fram hvað menn vilja að gert verði í þessum efnum þótt ekki hafi orðið efndir í samræmi við þá ályktun Alþingis.

Herra forseti. Ég hygg að það skorti ekki á góðan hug stjórnarliða til málsins. Við skulum taka málin til umfjöllunar í þingnefnd þegar að lokinni þessari umræðu og reyna að fara í gegnum það og sjá hvort unnt er að ná fram samstöðu um lögfestingu með þeim hætti að menn sjái í því framfarir frá ríkjandi ástandi.

Ljóst er að kostnaður við þetta verður töluverður. Menn munu horfa töluvert til þess og þeir sem lögin beinast að og eiga að framfylgja þeim munu setja fyrir sig kostnað þannig að Alþingi þarf jafnhliða því að taka afstöðu til innihalds málsins að ákveða að setja fé til málsins. Að öðrum kosti verður lítið um efndir líkt og með áðurnefnda ályktun. Ég hygg að um þetta verði fyrst og fremst rætt í hv. menntmn. Er ekki rétt að málið fari þangað, herra forseti?

(Forseti (BÁ): Ég geri ráð fyrir því.)

Menn munu ræða þetta mál út frá fjárhagslegu sjónarmiði. Mér sýnist frv. ágætlega samið og þess verði ekki að vænta að fara þurfi ofan í samningu þess eða gera breytingar á að því leyti sem menn þurfa að koma sér saman um fjármögnunina.

Ég vil ekki gefa neinar yfirlýsingar fyrir hönd stjórnarliða um hvað verði að lokum ofan á í þessu efni. Ég get þó alla vega sagt að það er vilji til að taka á málinu og reyna að ná niðurstöðu þannig að við bætum aðstöðu þeirra sem málið beinist að.