Útvarpslög o.fl.

Fimmtudaginn 04. mars 2004, kl. 16:00:09 (4937)

2004-03-04 16:00:09# 130. lþ. 77.2 fundur 337. mál: #A útvarpslög o.fl.# (stofnun hlutafélags, útvarpsgjald o.fl.) frv., Flm. PHB (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 130. lþ.

[16:00]

Flm. (Pétur H. Blöndal):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á útvarpslögum, lögum um Ríkisútvarpið og lögum um tekjuskatt og eignarskatt.

Flutningsmenn ásamt mér eru hv. þm. Birgir Ármannsson og Sigurður Kári Kristjánsson.

Megininntak frv. er að útvarpsgjald verði aflagt. Gert er ráð fyrir því að lög um Ríkisútvarpið falli úr gildi 1. janúar 2005 og þar með væri skylduáskrift landsmanna að Ríkisútvarpinu fallnar úr gildi og landsmenn ekki lengur skyldir til að kaupa áskrift að ákveðnum fjölmiðli. Til þess að afla tekna á móti verði persónuafsláttur lækkaður um 1.000 kr. á mánuði, eða 12.000 kr. á ári, og það á að gefa sömu tekjur samkvæmt útreikningum og útvarpsgjaldið gefur í dag að frádregnum kostnaði við innheimtu. Þetta kemur betur við flesta nema þær fjölskyldur sem eru með þrjá eða fleiri skattgreiðendur.

Gert er ráð fyrir því að útvarpsráð fái fjárveitingar á fjárlögum sem nemur þessu gjaldi og svarar til tekna af útvarpsgjaldinu, sömu upphæð og það fær í dag, þ.e. ríkið tæki inn auknar tekjur 1.000 kr. af hverjum skattgreiðanda á mánuði og veitti þær til útvarpsráðs.

Í frv. er gert ráð fyrir að Ríkisúrvarpinu verði breytt í hlutafélag og það selt. Hagsmuna starfsmanna verði gætt að fullu og þeir njóti ákveðins forgangs við kaup á hlutafé í Ríkisútvarpinu hf. á lækkuðu verði. Ríkisútvarpið hf. njóti síðan forgangs til verkefna hjá útvarpsráði fyrstu þrjú árin.

Mesta breytingin, frú forseti, er fólgin í starfi útvarpsráðs sem á að starfa áfram. Útvarpsráð verði óbreytt tilnefnt af Alþingi en í stað þess að reka Ríkisútvarpið, útvarpið og sjónvarpið, sér það um að þessi verk séu unnin með útboðum. Það fær sömu peninga til ráðstöfunar en dreifir þeim út með útboðum. Allir geta boðið í þau verk, þar á meðal Ríkisútvarpið hf. Í stað þess að stjórna stofnun sem framkvæmir þau markmið sem ríkisvaldið hyggst ná fram með rekstri Ríkisútvarpsins fær útvarpsráð fjármuni til að bjóða út gerð, framkvæmd og útsendingu dagskrár sem hefur nákvæmlega sömu markmið. Til viðbótar skal útvarpsráð skilgreina eiginleika einstakra þátta dagskrárinnar og koma á gæðaeftirliti með þeim sem ekki er til staðar í dag.

Gert er ráð fyrir því í frv. að bætt verði við útvarpslögin sérstökum kafla sem beri heitið Útvarpsráð og komi í raun í staðinn fyrir lög um Ríkisútvarpið sem verða felld niður. Þar er tekið á þeim markmiðum sem Ríkisútvarpinu er ætlað að fylgja sem eru að:

leggja rækt við íslenska tungu, sögu þjóðarinnar og menningararfleifð,

gæta lýðræðislegra grundvallarreglna og málfrelsis,

flytja óhlutdrægar fréttir og skoðanaskipti,

flytja skemmtiefni, sérstaklega fyrir börn,

útvarpa lista- og menningarefni og veita almenna fræðslu,

tryggja öllum landsmönnum aðgang að efni sínu,

gegna öryggishlutverki á hættutímum.

Öll þessi verkefni á útvarpsráð að sjá til að verði framkvæmd með útboðum.

Frú forseti. Helstu röksemdir fyrir frv. eru þær að óþarft er að ríkið standi í útvarpsrekstri, gerð þátta, útsendingu o.s.frv. Til eru fjöldamargar útvarpsstöðvar sem hafa sinnt þessu verkefni í samkeppni auk þess sem Ríkisútvarpið hf. mun koma inn í þá samkeppni eins og hver annar aðili og flutningsmenn treysta því og starfsfólki þess fullkomlega til að standa sig í samkeppninni.

Þar sem útvarpsráð býður út verkefni samkvæmt ákvæðum frv. má búast við því að stærri hluti verkefna sem fjármögnuð eru af ríkinu, fari til innlendrar dagskrárgerðar. Ekki verði viðurkennt að þær fjárveitingar verði notaðar til þess að kaupa inn erlent efni, t.d. íþróttaefni eða barnaefni, heldur fari þær til innlendrar dagskrárgerðar þannig að reikna má með því að mikil aukning verði á innlendri dagskrárgerð.

Þegar breytt er um eignarform á fyrirtæki úr ríkisrekstri í einkarekstur þarf að gæta að hagsmunum starfsmanna. Það er gert í frv. Þeir halda öllum réttindum sínum. Þeir fá auk þess forkaupsrétt að hlutafé í nýja fyrirtækinu á lægra verði en aðrir og þeir njóta þess sem gerist þegar fyrirtæki er breytt í einkafyrirtæki að þá er frekar farið eftir hæfileikum fólks og þeir sem eru hæfileikaríkari njóta þess í starfi en ríkisreksturinn hefur alltaf í för með sér að erfitt er að koma til móts við hæfileikaríkt fólk.

Í útvarpslögum er ákvæði um að útvarpsstöðvum sé skylt að láta lesa endurgjaldslaust tilkynningar frá almannavörnum, löggæslu, slysavarnafélögum og hjálparsveitum og gera hlé á dagskrá ef brýna nauðsyn ber til og almannaheill krefst. Sú röksemdafærsla að Ríkisútvarpið sé öryggistæki þjóðarinnar er fallin um sjálfa sig þar sem berlega hefur komið í ljós á síðustu árum að hún á ekki við rök að styðjast. Nægir hér að nefna Suðurlandsskjálftana í júní 2000 og atvik þegar utanaðkomandi aðili náði að slökkva á Ríkisútvarpinu án þess að nokkur gerði athugasemdir við ferðir hans. Á ögurstundu hefur þetta öryggistæki brugðist.

Frú forseti. Ég vil gjarnan eyða nokkrum orðum á útvarpsgjaldið. Það er gjald sem er mjög ófélagslegt, þ.e. það er sama krónutala fyrir alla, hvort sem þeir hafa háar tekjur eða lágar, og kemur að sjálfsögðu miklu þyngra niður á þeim sem hafa lágar tekjur. Gjaldið er umtalsverður hluti af launum lágtekjufólks en hátekjufólk munar lítið um að greiða þennan skatt. En þetta er skattur vegna þess að menn geta ekki horft á sjónvarp eða hlustað á útvarp nema greiða þann skatt. Það verður reyndar að geta þess hér að við verðum að undanskilja starfsmenn Ríkisútvarpsins því að mér skilst að þeir borgi ekki útvarpsgjald þó engin heimild sé til þess í lögum að undanþiggja þá gjaldinu.

Útvarpsgjaldið er núna 2.408 kr. á mánuði fyrir hverja fjölskyldu eða 28.900 á ári. Það kemur sérstaklega illa við einstaklinga sem hafa lágar tekjur og búa einir. Það kemur betur við heimili þar sem fyrirvinnur eru tvær en best kemur það við heimili með mörgum fyrirvinnum, t.d. hjón með tvö fullorðin fullvinnandi börn og góðar tekjur. Með frv. er þessi aðstöðumunur minnkaður með því að persónufrádráttur einstaklinga er lækkaður um 1.000 kr. á mánuði, 12.000 kr. á ári, á móti niðurfellingu útvarpsgjalds. Þetta á að gefa ríkissjóði sömu tekjur og veitt yrði til útvarpsráðs en bætir stöðu einstaklings um 17 þús. kr. á ári, hjón græða 5 þús. kr. en fjölskyldur með margar fyrirvinnur þurfa að greiða meira. Þær fjölskyldur sem vegna tekjuleysis greiða enga skatta koma best frá þessari breytingu því að þær spara allt útvarpsgjaldið. Sama gildir um fyrirtæki. Þeir sem hvorki eiga sjónvarp né útvarp þurfa hins vegar að greiða meira nú og einnig þeir sem hafa svikist um að greiða útvarpsgjald. Það kemur fram á heimasíðu útvarpsins að um 9% greiði ekki þó þeir eigi að greiða.

Greiðslur fyrirtækja til Ríkisútvarpsins eru mjög merkilegar vegna þess að þau eru væntanlega að sýna eða útvarpa efni til fólks sem greiðir útvarpsgjald heima hjá sér. Það er því verið að tvíborga fyrir sama fólkið.

Innheimta útvarpsgjaldsins er svo kapítuli út af fyrir sig. Smásmugulegt eftirlit með viðskiptum einstaklinga sín á milli, þ.e. ef menn eru að selja notuð sjónvörp, og spurningar um hvar hver sefur eru ekki í takt við tímann. Þegar krakkarnir flytja að heiman í herbergi úti í bæ og taka með sér sjónvarpið, gamla sjónvarpið, eiga þeir allt í einu að fara að borga útvarpsgjald og haft er upp á þeim með skipulegum hætti. Á heimasíðu RÚV kemur eftirfarandi fram undir liðnum tækjaleit: ,,Tækjaleitin fer þannig fram að öllum þeim sem ekki eru á skrá með viðtæki, og eru ekki tengdir með fjölskyldunúmeri við annan greiðanda, eru send fyrirspurnarbréf. Berist ekki svar við fyrirspurn afnotadeildarinnar fer tækjaleitarfólk á staðinn og spyr um viðtæki á heimilinu. Í flestum tilvikum er tekið vel á móti tækjaleitarfólkinu en komi sú staða upp að rökstuddur grunur er um að tæki sé á heimilinu en heimilisfólk neitar því og vill þess utan ekki sýna fram á að heimilið sé tækjalaust, þ.e. felst ekki á að hleypa fólkinu inn á heimili sitt, verður tæki skráð á heimilið og gíróseðlar sendir fyrir afnotagjöldunum.``

Og þá skulu menn sko aldeilis sanna það að þeir hafi ekki tæki eða greiða ella. Það er náttúrlega varla hægt að þola slík afskipti af einkalífi fólks nú á dögum þegar menn huga svo mikið að persónuvernd o.s.frv.

Á þessari sömu heimasíðu kemur fram að talið er að 9% sleppi við að greiða afnotagjald, þ.e. þetta er bæði götótt kerfi og mjög dýrt í innheimtu. Kerfið brýtur þá reglu að fólk sé talið saklaust uns sekt þess er sönnuð. Það er sem sé gengið út frá því að maður sem býr einn hafi sjónvarp.

Ég hef rætt áður að í ríkisrekstri er mjög erfitt að gera vel við afburðastarfsmenn og væntanlega verður breyting þar á ef þetta frv. nær fram að ganga.

Frú forseti. Ekki verður hjá því komist að ræða um menningarmótun þá sem útvarpsráð og Ríkisútvarpið hafa alla tíð haft forustu um. Forsvarsmenn Ríkisútvarpsins og útvarpsráð hafa verið mjög upptekin af því að kenna þjóðinni ákveðna menningu. Sérhver þjóð myndar menningu sjálf, þ.e. menningin sprettur upp í þjóðlífinu sjálfu. Hér á landi hefur Ríkisútvarpið verið notað til þess að koma ákveðinni menningu inn hjá þjóðinni með góðu eða illu, sinfóníum og slíku. Á meðan ekki var samkeppni á þessum markaði var það alla vega sú menning sem dundi yfir þjóðina. Reyndar hefur það breyst eftir að fleiri aðilar komu sem grófu undan þeirri einokun á menningarítroðslu.

Sú lausn sem hér er stungið upp á leysir öll þau vandamál sem eru í útvarpsrekstrinum, þ.e. þessa smásmugulegu innheimtu á útvarpsgjaldinu sem gengur mjög nærri persónufrelsi. Hún lagar það að hægt sé að gera vel við starfsmennina. Hún lagar það líka að menningarmótunin minnkar, þ.e. það mikla afl sem Ríkisútvarpið hefur haft. Hún lagar líka samkeppnina sem er mjög skekkt þar sem notandi verður að greiða til Ríkisútvarpsins ef hann ætlar að horfa á einhverja aðra stöð. Segjum t.d. að unglingur flytji að heiman og hann vilji horfa á Skjá 1 sem kostar ekki neitt og hann kaupi sér sjónvarp til þess að horfa á Skjá 1. Þá verður hann að borga útvarpsgjald til samkeppnisaðila Skjás 1 þó að hann langi ekki til að horfa á þá stöð og hafi aldrei langað til þess. Þetta skekkir náttúrlega samkeppnina umtalsvert.

Síðan standa menn náttúrlega frammi fyrir því vandamali sem er netið. Hvað ætla menn að gera eftir örfá ár þegar gæði sjónvarps í gegnum netið verða jafnmikil og gæði sjónvarps í gegnum sjónvarpstæki? Ætla menn þá að fara að skattleggja allar tölvur? Ég held að ekki sé seinna vænna að fara út úr þessu kerfi og gert er ráð fyrir því í frv. að þessi vandamál verði öll leyst.

Í gær eða fyrradag ræddum við um útvarpsgjaldið og vandamál tengd því, að hækka þyrfti gjaldið, hallarekstur o.s.frv. Hér er einmitt bent á lausn á því, að hætta innheimtu útvarpsgjalds og lækka persónuafsláttinn um 1.000 kr. sem gefur sömu tekjur á mánuði.

[16:15]

Það sem er merkilegast í þessu frv. er hlutverk útvarpsráðs. Hlutverk hins nýja útvarpsráðs, sem er kosið nákvæmlega eins og hingað til, er að skilgreina dagskrárefni, t.d. barnaefni. Það setur upp tímaramma og gæðastaðla. Svo eru einstakir þættir boðnir út. Sumir eru boðnir út einu sinni, t.d. ákveðið leikrit. Aðrir þættir, t.d. framhaldsþættir, eru boðnir út til lengst þriggja ára.

Útvarpsráð skilgreinir enn fremur hvað felst í útsendingu og dreifingu efnis um allt land. Í það geta boðið aðilar sem sérhæfa sig á því sviði, þ.e. í útsendingu. Ný stafræn tækni mun gera þessa þætti bæði miklu ódýrari og auðveldari til útboðs en nú. Um þessa dreifileið verða dagskrárnar síðan sendar.

Síðan þarf útvarpsráð að skilgreina hvað felst í öryggishlutverki þess. Það felst væntanlega í því að einhver útvarpsstöð sendir út allan sólarhringinn um fyrrnefnt dreifinet, er í nánum tengslum við almannavarnakerfið, er reiðubúið til að rjúfa dagskrá sína hvenær sem er og kynna hlutverk sitt ítarlega fyrir almenningi. Þetta yrði boðið út, frú forseti.

Það er gert ráð fyrir því í frv. að útvarpsráð, auk þessa alls, skilgreini gæði dagskrárinnar sem ekki er gert núna. Þeir segja að ákveðinn þáttur eigi að vera af þessum og hinum gæðunum. Það má t.d. mæla gæðin með áhorfsmælingu. Þeim gæðum skuli náð, annars verði greitt minna fyrir verkefnið eða því hafnað til frambúðar. Þá er að sjálfsögðu búið að senda það út.

Undanfarnar vikur hefur mikið verið rætt um eignarhald á fjölmiðlum. Það er að gefnu tilefni þar sem einn aðili á bæði sjónvarpsstöð, útvarpsstöðvar og dagblöð og menn hafa áhyggjur af því að hann geti verið skoðanamyndandi. Það hefur einmitt verið nefnt í því sambandi að Ríkisútvarpið skapi ákveðið mótvægi sem ekki megi þá selja. Því er til að svara að Ríkisútvarpið er í eigu eins aðila, ríkisins, og hefur verið mjög áberandi á fjölmiðlamarkaði alla tíð frá stofnun 1930. Á tímabili var miklu meiri samþjöppun á fjölmiðlamarkaði en núna er, þegar Ríkisútvarpið var bæði með útvarp og sjónvarp og enginn annar, og auk þess voru gefin út flokksblöð sem studdu nákvæmlega sömu stjórnmálastefnur og voru ríkjandi á Alþingi sem kaus útvarpsráð.

Þá var nánast útilokað fyrir nýja stjórnmálastefnu að hasla sér völl. Það er auðveldara í dag með tilkomu netsins. Allir geta haldið úti skoðunum sínum á netinu. Ég held því fram að eignarhald á fjölmiðlum sé ekkert meira samþjappað í dag en það var fyrir svona 15 árum, þ.e. áður en það var gefið frjálst.

Hins vegar þurfa menn að vera stöðugt á varðbergi fyrir því að ekki myndist fjölmiðlaeinokun, þ.e. skoðanaeinokun. Nýjustu fréttir af því að þetta eina fyrirtæki hafi nú fengið fleiri meðeigendur ætti kannski að róa þá umræðu eitthvað því það er þá ekki einn aðili sem ræður þessum eina fjölmiðli sem ég gat um.

Það er mjög veigamikil breyting á einu ríkisfyrirtæki sem hér er lögð til. Höfð var hliðsjón af lögum um einkavæðingu bankanna við samningu þessa frv. þannig að hagsmuna starfsmanna er gætt á svipaðan hátt og í því máli.

Ég hef ekki enn rætt um það hvort dagskráin sem útvarpsráð býður út skuli vera læst eða ekki. Ef hún er ekki læst verður hún væntanlega dýrari, þá þarf að bjóða meira í hana heldur en ef hún er læst því þá fæst áskriftargjald til viðbótar. Það er álitamál hjá útvarpsráði hvort ætti að vera læst dagskrá eða ekki og það eru rök með og á móti hvoru tveggja. Í því sambandi má benda á að dagskrá Ríkisútvarpsins hefur alltaf verið læst því menn hafa alltaf borgað afnotagjald. Í þeim skilningi hefur hún alltaf verið læst. Menn hafa orðið að borga afnotagjald ef þeir eiga viðtæki.

Að lokinni þessari umræðu legg ég til að málinu verði vísað til hv. menntmn.