Nemendafjöldi í framhaldsskólum

Mánudaginn 08. mars 2004, kl. 15:49:02 (4973)

2004-03-08 15:49:02# 130. lþ. 78.91 fundur 385#B nemendafjöldi í framhaldsskólum# (aths. um störf þingsins), menntmrh.
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 130. lþ.

[15:49]

Menntamálaráðherra (Þorgerður K. Gunnarsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég vil undirstrika að það ágæta bréf sem sent var frá ráðuneytinu er einfaldlega hefðbundið bréf og í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti og ábyrga fjármálastjórnun. Síðan hafa háttvirtir þingmenn, m.a. hv. þm. Hjálmar Árnason, rakið mjög vel hvernig þetta fyrirkomulag er milli ráðuneytisins annars vegar og hins vegar skólameistara, rektora eða þeirra sem halda á málum fyrir hönd skólanna.

Ef við skoðum tölurnar á síðasta ári þá hefur framhaldsnemum fjölgað gríðarlega. Hvernig hefur þessari þróun verið mætt fram til þessa? Sagan segir ýmislegt. Þessari þróun hefur alltaf verið mætt hér á þinginu. Alltaf. Af hverju halda menn allt í einu núna að menn ætli ekki að takast á við þau viðfangsefni sem menn standa frammi fyrir núna og leysa það? Auðvitað koma menn til með að leysa þetta en það er sjálfsagt og eðlilegt að þeir sem fara fram fyrir hönd stofnana, hvort sem það eru framhaldsskólar, háskólar eða aðrar ríkisstofnanir, geti ekki gengið að því gefnu að einhver kranapólitík sé í gangi þar sem þeir geti einfaldlega, í hvert skipti sem fjármagn vantar, fengið óútfylltan tékka. Þetta er sjálfsögð og eðlileg fjármálastjórnun, að menn setjist niður og ræði hvernig hægt er að koma til móts við þann vanda sem að steðjar hverju sinni.

Ég kem til með að vinna að því að bæði málefni Menntaskólans á Ísafirði komi til með að leysast, sem og annarra framhaldsskóla. En það verður gert í sátt og samlyndi við skólastjórnendur, ekki á hinu háa Alþingi eða í fjölmiðlum.