Einkaleyfi

Mánudaginn 08. mars 2004, kl. 15:55:51 (4974)

2004-03-08 15:55:51# 130. lþ. 78.7 fundur 303. mál: #A einkaleyfi# (EES-reglur, líftækni) frv., Frsm. KHG
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 130. lþ.

[15:55]

Frsm. iðnn. (Kristinn H. Gunnarsson):

Herra forseti. Iðnn. hefur haft til umfjöllunar stjfrv., 303. mál á þskj. 348, um breytingu á lögum um einkaleyfi, með síðari breytingum. Nefndin hefur komist að sameiginlegri niðurstöðu og skilað af sér áliti sem er svohljóðandi, með leyfi forseta:

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Jón Ögmund Þormóðsson frá iðnaðarráðuneyti, Ástu Valdimarsdóttur og Elínu R. Jónsdóttur frá Einkaleyfastofu og Valborgu Kjartansdóttur og Gunnar Örn Harðarson frá Félagi umboðsmanna vörumerkja og einkaleyfa.

Þá hafa borist umsagnir um málið frá Félagi umboðsmanna vörumerkja og einkaleyfa, Hafrannsóknastofnuninni, formanni tækninefndar og formanni vísindanefndar Vísinda- og tækniráðs, Rannsóknastofnun landbúnaðarins, Lyfjafræðingafélagi Íslands, Félagi prófessora við Háskóla Íslands, Háskóla Íslands, Einkaleyfastofunni og Samtökum iðnaðarins.

Málinu var upphaflega vísað til efnahags- og viðskiptanefndar sem vísaði því til iðnaðarnefndar með bréfi dagsettu 21. nóvember 2003 þar sem efni frumvarpsins er á málefnasviði hennar.

Frumvarpið felur aðallega í sér breytingar á lögum um einkaleyfi vegna innleiðingar tilskipunar 98/44/EB, um lögvernd uppfinninga í líftækni, ásamt breytingum sem byggðar eru á ákvæðum samningsins um hugverk í viðskiptum, TRIPS-samningsins, og samstarfssáttmálans um einkaleyfi, PCT-sáttmálans. Líftæknitilskipunin fjallar um einkaleyfishæfi, umfang verndar á þessu sviði, nauðungarleyfi og varðveislu líffræðilegs efnis og er markmið tilskipunarinnar að samræma ákvæði aðildarríkja Evrópusambandsins, og nú aðildarríkja EES-samningsins, um einkaleyfishæfi uppfinninga á sviði líftækni. Þá er einnig ætlunin með frumvarpinu að samræma norræna einkaleyfalöggjöf.

Nefndin telur rétt að taka fram að með orðinu tæknisvið í a-lið 1. gr. frumvarpsins er átt við öll svið sem uppfinningar eru gerðar á og nýta má í atvinnulífi og að ekki er ætlunin að þrengja skilyrði 1. gr. gildandi laga um að einkaleyfi sé veitt fyrir uppfinningu sem nýta má í atvinnulífi. Einungis á að tryggja að líftæknin falli undir gildissvið laganna með óyggjandi hætti. Þá kemur fram í greinargerð með frumvarpinu að með þessari viðbót sé enn fremur verið að samræma lögin TRIPS-samningnum og 52. gr. evrópska einkaleyfasáttmálans sem hafi verið breytt árið 2000, en hið rétta er að þá náðist samkomulag um breytingartillögur við sáttmálann sem hafa ekki tekið gildi þar sem nægilega mörg ríki hafa ekki fullgilt þær.

Þá hefur nefndin skoðað hugtakanotkun í frumvarpinu og telur nauðsynlegt að gera nokkrar breytingar. Fram kom á fundi nefndarinnar að þýðing tilskipunarinnar er ekki alltaf nákvæm sem skýrir ákveðinn mun á hugtakanotkun í frumvarpinu annars vegar og í þýðingunni hins vegar. Sem dæmi má nefna athugasemdir sem komu fram varðandi notkun orðanna klónun og einræktun, en einræktun er notað í frumvarpinu og er þar átt við ,,reproductive cloning`` í enskum texta tilskipunarinnar.

Þá telur nefndin rétt að vekja athygli á að í frumvarpinu er vísað í lög um yrkisrétt, nr. 58/2000, varðandi skilgreiningu á hugtakinu plöntuafbrigði en í þeim er þó ekki nákvæm skilgreining á hugtakinu heldur talað um yrki sem afbrigði eða stofn af plöntutegund. Orðið plöntuafbrigði er þó í samræmi við íslenska málnotkun og einnig í samræmi við tilskipunina og norræna löggjöf og telur nefndin því rétt að halda hugtakinu plöntuafbrigði þar sem yrki er auk þess verndað plöntuafbrigði samkvæmt lögunum um yrkisrétt og því er um ólík verndarsvið að ræða.

Nefndin leggur til eftirfarandi breytingar á frumvarpinu:

1. Fyrri breytingin sem lögð er til á 1. gr. varðar einungis málfar og ég vísa í því sambandi til brtt. á þskj. 1044.

2. Seinni breytingin á 1. gr. og breytingin á 3. mgr. a-liðar 3. gr. fela í sér að nota orðið ,,erfðaupplýsingar`` í stað orðanna ,,upplýsingar um erfðaefni`` og ,,erfðafræðilegar upplýsingar``. Upplýsingar um erfðaefni geta verið nánast hvaða upplýsingar sem er um erfðaefni, t.d. hvaðan það kemur, en erfðaupplýsingar eru upplýsingar sem felast í erfðaefninu sjálfu, þ.e. samsetning þess og nákvæmar upplýsingar um hvað það er sem gengur í erfðir þannig að brtt. þrengir aðeins þá skilgreiningu sem er í frv.

3. Nefndin leggur til að í stað orðanna ,,með dýr til undaneldis`` í 2. mgr. b-liðar 3. gr. frv. komi orðin ,,með búfé til undaneldis`` og telur nefndin það í betra samræmi við efni tilskipunarinnar sem og þýðingu hennar. Þetta var niðurstaðan eftir vandlega yfirferð á upprunalegum texta tilskipunarinnar. Þarna er líka um að ræða þrengingu á þeirri skilgreiningu sem er að finna í frv.

4. Þá var upplýst á fundi nefndarinnar að í 5. gr. frumvarpsins hefði láðst að taka fram að sérfræðingarnir sem þar um ræðir eigi að vera óháðir og er lögð til breyting á frumvarpinu vegna þess. Sú breyting er nauðsynleg til þess að koma í veg fyrir að t.d. samkeppnisaðilar geti á því tímabili sem um ræðir, þ.e. þar til einkaleyfi er veitt, fengið sýni afhent.

5. Þá telur nefndin nauðsynlegt að skýra nánar skilyrði fyrir veitingu nauðungarleyfis þannig að samræmis sé gætt við tilskipunina og norræna einkaleyfalöggjöf á þann hátt að nauðungarleyfi skuli aðeins veitt ef yrkishafi sýnir fram á að yrkið feli í sér tæknilega mikilvægt framfaraspor og hafi verulegan ábata í för með sér í samanburði við uppfinninguna í einkaleyfinu. Nauðungarleyfið sem um ræðir er víxlleyfi þannig að sama regla þarf að gilda í lögum um yrkisrétt, nr. 58/2000, en nú hefur verið lagt fram á þingi frumvarp til breytinga á þeim lögum og er nauðsynlegt að samræmis sé gætt að þessu leyti á milli laganna. Iðnn. hefur gert ráðstafanir til að koma til hv. landbn. nauðsynlegum texta eða tillögu okkar að nauðsynlegri breytingu á því frv. þannig að samræmi verði á milli þessara tveggja lagabálka.

6. Að lokum er nauðsynlegt að benda á að sérstakt ákvæði vantar í frumvarpið um innleiðingu á tilskipun 98/44/EB, um lögvernd uppfinninga í líftækni. Slík ákvæði skal setja á undan gildistökuákvæðum samkvæmt samræmdum reglum Stjórnarráðsins og venjum við setningu laga. Leggur nefndin til að innleiðingargrein verði bætt við frumvarpið.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerðar eru tillögur um í sérstöku þingskjali.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sat fund nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykkur áliti þessu.

Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson, Ásta R. Jóhannesdóttir, Sigurður Kári Kristjánsson og Björgvin G. Sigurðsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins, en undir nefndarálitið skrifa auk mín hv. þm. Kjartan Ólafsson, Anna Kristín Gunnarsdóttir, Sigurjón Þórðarson og Guðmundur Hallvarðsson.