Evrópska efnahagssvæðið

Þriðjudaginn 09. mars 2004, kl. 15:02:06 (5021)

2004-03-09 15:02:06# 130. lþ. 79.7 fundur 338. mál: #A Evrópska efnahagssvæðið# (ný aðildarríki) frv. 8/2004, MÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 130. lþ.

[15:02]

Mörður Árnason (andsvar):

Forseti. Það er vissulega athyglisvert að hlusta á hv. þm. Steingrím J. Sigfússon flytja ræður um Evrópska efnahagssvæðið og um Evrópusambandið vegna þess að að sumu leyti er það hinn róttæki andstæðingur alþjóðasamvinnu Íslendinga sem talar í gömlum dúr svona svipað og menn gerðu, með réttu á ákveðinn hátt, fyrir nokkrum áratugum.

Að hinu leyti er gagnrýni hans á það sem er að gerast mjög svipuð því sem jafnaðarmenn í Evrópu, Evrópusinnar meiri en aðrir, meiri en menn í öðrum pólitískum hreyfingum, hafa uppi við. Það sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon þarf hins vegar að skýra er að ekki er nóg að tala bara um að viðskiptaþátturinn sé góður og að stofnanaþátturinn sé vondur á hinu Evrópska efnahagssvæði. Í hverju felst viðskiptaþátturinn? Hann felst ekki í prósentum tolla eða í aðlögunarákvæðum heldur felst hann í frjálsu flæði vöru, þjónustu og fjármagns og í frjálsri för fólks. Í kringum þetta frelsi, í kringum þann efnahagsramma sem þetta skapar verður auðvitað að vera jöfn staða fyrirtækja, verkafólks og annarra aðila í efnahagslífinu, sömu lög og sömu reglur. Þess vegna stendur enn þá upp á hv. þm., þó hann hafi lesið hér upp úr greinargerð með frv. eða greinargerð með þingmáli sem hann hefur flutt eða einhverjir hafa flutt á þinginu, að skýra fyrir okkur hvernig hann ætlar sér að hafa þennan fína viðskiptaþátt sem hann einmitt studdi, frjálst flæði vöru, þjónustu, fjármagns og frjálsa för fólks, fyrir tíu árum þegar hann greiddi atkvæði gegn Evrópska efnahagssvæðinu, hvernig hann ætlar að halda honum án þess að taka þann stofnanaþátt með sem einmitt tryggir það að þetta frelsi haldist og að aðilar standi jafnfætis eins og unnt er innan þessa markaðar.