Evrópska efnahagssvæðið

Þriðjudaginn 09. mars 2004, kl. 15:04:13 (5022)

2004-03-09 15:04:13# 130. lþ. 79.7 fundur 338. mál: #A Evrópska efnahagssvæðið# (ný aðildarríki) frv. 8/2004, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 130. lþ.

[15:04]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Frú forseti. Ég leiði hjá mér einkunnagjöf hv. þm. og útskýringar hans á því hvað ég sé. Ég legg til hér eins og venjulega að hver tali fyrir sig. Sjálfur skilgreini ég mig sem alþjóðasinna. Ég get glatt hv. þm. Mörð Árnason með því að m.a. á landsfundi okkar samþykktum við að taka upp alþjóðahyggju í okkar stefnuskrá og skrifa hana inn í hana sem eina af fjórum meginstoðum áherslna okkar fyrir utan kvenfrelsi, umhverfisvernd og róttæka jafnaðarstefnu. Ég geri ráð fyrir að þetta hljómi sæmilega í eyrum hv. þm. Marðar Árnasonar.

Ég er alþjóðasinni. Ég er Evrópusinni. En ég er ekki aðildarsinni. Ég er ekki Brussel-sinni. Ég bið menn að hafa þessa orðanotkun í huga. Við sem ekki teljum skynsamlegt að Ísland gangi í Evrópusambandið erum ekki á móti Evrópu. (Gripið fram í.) Við viljum bara aðrar áherslur í Evrópusamvinnunni heldur en þeir sem telja að okkur sé best borgið í Evrópusambandinu. Við hljótum að geta rætt þetta eins og fullvaxið fólk á grunni raka en ekki í einhverjum orðhengilshætti.

Varðandi viðskiptaþættina þá nefndi ég í ræðu minni, en það hefur kannski farið fram hjá hv. þm., aðild að innri markaðnum og ég nefndi fjórfrelsið. Í mínum huga eru engin sérstök vandamál samfara því, m.a. vegna þess að alþjóðaþróunin styður það líka. Það er einu sinni svo að í Alþjóðaviðskiptastofnuninni sem öll þessi ríki eru, þá eru ákvæði sem eiga að tryggja að viðskiptakjör í skilningi fríverslunar gangi ekki til baka við neinar breytingar á tvíhliða eða marghliða samningum ríkja. Við reyndum aðeins að beita þessu fyrir okkur í sambandi við stækkunina. Evrópusambandið tók því illa og hafði í hótunum þegar þetta var nefnt. En þetta er þarna og þess vegna eiga menn ekki að tala um þetta einangrað bara út frá því sem er að gerast innan Evrópusambandsins því þó að það sé merkilegt þá er heimurinn stærri en það. Alþjóðaviðskiptastofnunin er til líka og það eru líka tvíhliða og marghliða fríverslunarsamningar sem skipta máli í þessu sambandi.