Evrópska efnahagssvæðið

Þriðjudaginn 09. mars 2004, kl. 16:28:21 (5042)

2004-03-09 16:28:21# 130. lþ. 79.7 fundur 338. mál: #A Evrópska efnahagssvæðið# (ný aðildarríki) frv. 8/2004, JBjart
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 130. lþ.

[16:28]

Jónína Bjartmarz:

Frú forseti. Sú ágæta umræða sem hér hefur farið fram í dag er á ákveðinn hátt upprifjun á umræðu sem átti sér stað fyrir meira en tíu árum. Mér heyrist á mönnum og man það sjálf að hún var ólíkt harðvítugri en sú sem fer hérna fram í dag. Þetta var ágætisupprifjun en er jafnframt ákveðin ávísun á það hvernig umræðan mun snúast ef og þegar til þess kemur að Norðmenn ganga í Evrópusambandið og við þurfum þá að fara að endurmeta stöðu okkar.

Umræðan er hins vegar, finnst manni, heldur lengri en við var að búast miðað við það að það frv. sem við erum að afgreiða úr utanrmn. og er tilefni umræðunnar er afgreitt þar í mikilli sátt og allir fulltrúar í utanrmn. standa að því. Eins og kom fram í upphafi umræðunnar hjá hv. þm. Sólveigu Pétursdóttur, formanni nefndarinnar, gengur frv. út á það að fullgilda samning um þátttöku tíu lýðvelda á Evrópska efnahagssvæðinu.

Sú umræða sem aðallega fór fram í nefndinni snerist um hina frjálsu för og þennan stóra evrópska vinnumarkað sem við sjáum fram á. Vegna orða hv. þm. Einars Guðfinnssonar fyrr í dag, að þarna væri Evrópusambandið á ákveðinn hátt og þau ríki sem að því standa að setja takmarkanir sem væru ekki í takt við inntak Evrópusambandsins, er náttúrlega ljóst að ákvörðun okkar um þennan aðlögunartíma, þessi tvö ár til að byrja með, er komin til af því að hin ríkin innan Evrópusambandsins setja sér þetta.

[16:30]

Ég legg áherslu á, bæði hvað okkur varðar og hagsmuni okkar og hinna landanna, við fylgdum fordæmi þeirra í þessu, að fresturinn er fyrst og fremst hugsaður sem aðlögun. Við þurfum að velta fyrir okkur hvað tekur við þegar þessum aðlögunarfresti sleppir, hvar við stöndum þá. Hvað þýðir stækkunin, stærri vinnumarkaður, í raun fyrir okkur? Það er eitt af því sem er komið inn á nál. utanrmn., þ.e. að við þurfum að huga vel að ýmsum stofnunum samfélagsins, að þær séu við þessu búnar. Í nál. er sérstaklega nefnt félags- og skólakerfið og þá öll skólastigin. Það er viðbúið að með erlendum starfsmönnum komi fjölskyldufólk, ekki einungis einstaklingar. En þetta er eitt af því sem við þurfum að vera búin undir.

Ég teldi gott að við hugsuðum út í málið með svolitlum fyrirvara og að sú vinna mundi hefjast sem fyrst. Ég legg áherslu á að við getum unnið að þessu í samstarfi við önnur ríki, ekki síst Norðurlöndin sem við erum í mestu samstarfi við. Við mundum jafnframt læra af reynslu þeirra þjóða, bæði af því góða sem hefur verið gert á þessu sviði og eins mistökunum.

Mér finnst þetta stór dagur hjá okkur vegna málsins sem við ræðum hér og þeirrar afstöðu sem tekin hefur verið. Hún er í góðu samræmi við það sem á undan er gengið. Við erum að innsigla þá afstöðu sem við höfum haft árum saman, að styðja þessi lýðveldi í að gerast aðilar að Evrópusambandinu á sama hátt og við höfum stutt mörg þeirra í því að gerast aðilar að Atlantshafsbandalaginu. Þarna erum við að auðvelda þessum þjóðum og styðja í því að tengjast Evrópu, bæði efnahagslegum og pólitískum böndum.

Ákveðnir menn berja sér nú á brjóst --- ég ætla ekki að segja samfylkingarmenn, þeir tilheyrðu víst öðrum flokkum á þeim tíma --- og segja: Við sögðum ykkur að EES-samningurinn mundi reynast okkur vel og muni reynast okkur vel. Í því sambandi er vert að hafa í huga að miðað við breytingarnar sem orðið hafa á Evrópusambandinu má segja að eina afstaðan sem getur komið á óvart eins og staðan er núna og miðað við þær breytingar sem hafa orðið sé afstaða sem stendur í stað. Breytingarnar hafa verið svo gífurlegar að við hljótum sýknt og heilagt að vera undir það búin að endurmeta stöðuna á sama hátt og við þurfum að gera gagnvart EES-samningnum núna, út frá reynslunni af honum, miðað við þær stjórnkerfisbreytingar sem hafa orðið á Evrópusambandinu og þær breytingar sem verða við stækkunina. Við stækkunina verða gífurlegar breytingar, ekki bara með nýju aðildarríkjunum heldur jafnframt með nýjum nágrönnum Evrópusambandsins.

Á sama tíma og við ákveðum að hafa tveggja ára aðlögunartíma að þessari frjálsu för fólks gagnvart vinnumarkaðnum, er ljóst að það er líka ákveðinn aðlögunartími fyrir þessi ríki þar til þau gerast fullgildir aðilar að Schengen-samstarfinu. Þá horfumst við í augu við ný og hugsanlega stór vandamál með þeim nýju nágrönnum sem Evrópusambandið eignast.

Hvort tveggja segir mér að við þurfum að nýta þennan tíma mjög vel, bæði þennan tveggja ára aðlögunartíma og einnig aðlögunartíma þessara ríkja áður en þau gerast fullgildir aðilar að Schengen-samstarfinu. Við þurfum m.a. að nýta tímann til að styrkja viðkomandi þjóðir í þeirri lýðræðisþróun sem hjá þeim á sér stað. Við þurfum að styrkja efnahagslega og félagslega stöðu þessara ríkja og einnig gagnvart lögreglusamvinnunni þegar hún kemst á með aðild þeirra að Schengen-samstarfinu.

Mér finnst aðlögunartíminn mjög eðlilegur. Við vitum í raun ekki hvað þessi stóra Evrópa kemur til með að þýða fyrir okkur. Ræðumenn voru fyrr í dag að vísa í fund með Evrópuþingmönnum sem fulltrúar allra flokka sátu fyrir einhverjum vikum. Þar var portúgalskur þingmaður sem m.a. vísaði til þess þegar Portúgalar gerðust aðilar. Þá héldu menn að Portúgalar mundu flykkjast tug- og hundruðum þúsunda saman til eldri Evrópuþjóðanna. Sú varð ekki raunin. Hann vísaði í viðtal við gamla konu, eða miðaldra konu skulum við segja, í einum af þessum nýju aðildarríkjum. Hún var spurð út í líkurnar á því að hún og fjölskylda hennar mundi flytja sig um set til einhverra af eldri ríkjunum við stækkunina. Gömlu konunni varð víst að orði: Eina sem ég geri mér vonir um að þessi stækkun færi mér og aðildin að Evrópusambandinu er baðkar í íbúðina. Ég held að þetta sé nær sanni og ótti margra við geysilegan tilflutning vinnandi fólks á milli landa sé ekki alls kostar á rökum reistur.

Hvað sem öðru líður tel ég að við þurfum að leggja í það vinnu og hugsun að undirbúa okkur fyrir þessar breytingar og nýta tímann vel. Ég bind vonir við að þessi tveggja ára aðlögunartími dugi okkur.

Þessi umræða í dag hefur verið ágætisupprifjun. En ég verð að segja fyrir mitt leyti að miðað við þær miklu breytingar sem hafa orðið á Evrópusambandinu frá því EES-samningurinn var gerður virðist mér eina afstaðan sem talist getur einkennileg sú afstaða sem staðið hefur í stað á þessum tíma.