Nýbygging við Landspítala -- háskólasjúkrahús

Þriðjudaginn 09. mars 2004, kl. 17:52:11 (5062)

2004-03-09 17:52:11# 130. lþ. 79.9 fundur 542. mál: #A nýbygging við Landspítala -- háskólasjúkrahús# þál., GÁS
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 130. lþ.

[17:52]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Ég fagna einlæglega þessari tillögu og vil þakka frumkvæði hv. þm. Kristjáns L. Möllers í þessu stóra máli. Það er ekki nýtt af nálinni að menn hafi lýst yfir áformum í þessa veru en um nokkuð langt árabil hafa verið uppi slík áform, enda hefur öllum verið það löngu ljóst að húsakostur Landspítalans og fyrirkomulag í þeim efnum væri með þeim hætti að gera þyrfti grundvallarbreytingar þar á.

Ég minnist þess að þegar ég átti þess kost að stýra heilbrrn. 1993--1994, ræddu menn auðvitað húsakost Landspítalans. Þá var K-byggingin í miðju kafi, það hafði verið hafist handa við hana mörgum árum áður og sá ekki fyrir endann á þeim byggingarframkvæmdum. Það hefur nefnilega, því miður, verið saga mannvirkjagerðar þegar kemur að heilbrigðismálum að menn hafa talað mikið, teiknað lengi, spjallað mikið en lítið sem ekkert gerst, og það hefur oft og tíðum þurft sérstakt átak til þess að menn hafi látið hendur standa fram úr ermum í þeim efnum.

Því kom mér satt að segja dálítið á óvart hin undarlega ræða hv. þm. Jónínu Bjartmarz áðan þar sem hún í öðru orðinu fagnaði þessu frumkvæði hv. þm. Kristjáns L. Möllers og annarra flutningsmanna en var í hinu orðinu að hnýta í það frumkvæði, og ég minntist sögunnar um refinn þegar hann sagði að berin væru súr.

Það kann vel að vera að heilbrigðisráðherrar Framsfl. frá 1995, í heil níu ár, hafi spáð og spekúlerað í þessa veru og haft uppi ýmis áform og sett á ýmsar nefndir. En sannast sagna er staða máls sú, frú forseti, að það er ekkert í pípunum og engar ákvarðanir sem liggja fyrir, engir peningar og ekkert fast í hendi um að ráðast skuli til atlögu í þessu máli. Það er engin áætlunargerð fyrirliggjandi, engin tímasetning, enginn tímarammi, heldur er þetta bara allt á spjallstiginu. Og þess vegna ekki síst, þó að auðvitað sé það afskapalega óvanalegt að þáltill. stjórnarandstöðunnar skipti sköpum í þessu máli, er það einkar athyglivert í þessu sambandi hvernig tengd eru saman fyrirliggjandi og langvarandi áform núverandi ríkisstjórnarflokka um sölu Landssímans sem Samf. hefur stutt með ákveðnum skýrum skilyrðum þó sem getið er um í greinargerð, að þá sé það tryggt og niðurnjörvað að þeir milljarðar, þeir tugir milljarða sem koma sem endurgjald, væntanlega, fyrir sölu Landssímans, verði sú ákvörðun tekin --- verði eyrnamerktir þessu stóra verkefni.

Það er ekkert í fyrsta skipti sem menn hafa haft uppi áform af þessum toga, hafi sett á eins konar markaðan tekjustofn fyrir tiltekin verkefni. Það gerir auðvitað málið meira spennandi og kannski hægt að binda meiri vonir við það að menn sjái einhverjar framkvæmdir inntar af hendi á yfirstandandi kjörtímabili.

Afstaða Samf. í málinu er alveg ljós og það er búið að rekja hana mjög skilmerkilega í þessari umræðu. Menn hafa réttilega bent á að það verður sannanlega sparnaður í því til lengri tíma litið í rekstri spítalans, sem er á þriðja tug milljarða á ári hverju, sem gæti skilað sér ef maður gefur sér það alveg án ábyrgðar að byggingarkostnaður svo stórs mannvirkis yrði nettó í kringum 20 milljarðar og hægt væri að ná því til baka í rekstrarsparnaði á 10--15 árum, svo ég tali ekki um þá stórbættu þjónustu sem til staðar yrði fyrir sjúklinga. Það er því alveg sama hvernig að málinu er komið, það er auðvitað til stórbóta að öllu leyti.

Hv. þm. Jón Kr. Óskarsson benti á og rifjaði upp að bygging Barnaspítalans varð auðvitað til þess að stórbæta þjónustu. Það mál ætti að verða okkur öllum að kenningu og við ættum að rifja það upp að áform um byggingu Barnaspítalans --- áður en hann var opnaður nú í byrjun nýrrar aldar --- ég held að ég muni það rétt að þau hafi verið u.þ.b. 30 ára gömul. Ég átti þess kost að koma eilítið nærri því árið 1994 með því að skrifa undir samning við Hringskonur og forsvarsmenn Landspítalans á þeim tíma en entist þó ekki líf og heilsa og aldur til í embætti að láta það ganga alla leið til verka, en ég vil þakka þeim sem á eftir komu að hafa klárað það verkefni. En einmitt það verkefni og það langa tilhlaup sem allir flokkar, og enginn er undanskilinn, þurftu að því verkefni ætti að vera okkur lexía í þessu máli að það þarf ekki alltaf allan þann tíma sem menn vilja gefa sér. Því er það mikið fagnaðarefni að hv. þm. Kristján L. Möller hafi frumkvæði í þessu efni og gefi þessu stóra og góða máli nýtt líf.

Samfylkingin hefur stutt þetta mál um langt, langt árabil, raunar löngu áður en hv. þm. Jónína Bjartmarz kom á þing. Það er því alltaf spurning um eggin og hænurnar í þessum efnum, svo ég vísi til þeirrar léttu pirringstölu hennar í þessu máli. En það gildir einu, ég vil einlæglega fagna stuðningi hennar við málið og vænti þess að hún sem formaður heilbrn., fari málið á þann vænginn, muni auðvitað einbeita sér að því að afgreiða málið úr nefnd fljótt og vel þannig að Alþingi Íslendinga geti afgreitt það á allra næstu vikum og fyrir vorið þannig að hjólin fari að rúlla. Ég skildi a.m.k. ræðu hv. þm. svo, formanns heilbrn., að hún fagnaði þessu máli af einlægni, hvort heldur hún túlkaði það sem stuðning við ríkjandi stjórnarstefnu eða hvaðeina, ég læt mér það í léttu rúmi liggja. Málið er allt of stórt til þess að standa í slíku stappi. En allt að einu er þá fyrirliggjandi stuðningur hennar og þingflokks hennar við þetta stóra mál og þá eru auðvitað engin ljón í veginum lengur, málið í heilbrn. til ítarlegrar alvöruskoðunar þar og út úr henni aftur og til afgreiðslu á þinginu. Við getum því farið af stað með þá nefnd sem á að hefja undirbúning og séð hlutina fara á framkvæmdastig kannski innan tveggja til þriggja ára, þó að það sé býsna bjartsýnt.

Allt að einu, málið er gott og ég skynja að hér er almennur stuðningur við það.