Nýbygging við Landspítala -- háskólasjúkrahús

Þriðjudaginn 09. mars 2004, kl. 18:24:10 (5069)

2004-03-09 18:24:10# 130. lþ. 79.9 fundur 542. mál: #A nýbygging við Landspítala -- háskólasjúkrahús# þál., Flm. KLM
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 130. lþ.

[18:24]

Flm. (Kristján L. Möller):

Hæstv. forseti. Nú þegar líður að lokum umræðu um þá þáltill. sem ég er flutningsmaður að ásamt öðrum, þ.e. að skipa byggingarnefnd fyrir Landspítala -- háskólasjúkrahús, vil ég þakka fyrir þá umræðu sem hér hefur átt sér stað og þó alveg sérstaklega það sem kom fram hjá hv. þm. Jónínu Bjartmarz, formanni heilbr.- og trn. sem væntanlega fær málið til umfjöllunar, svo og öðrum sem hafa tekið jákvætt undir þá tillögu sem hér er flutt þó svo að, eins og fram hefur komið, menn hafi skiptar skoðanir á ýmsum þáttum hennar eins og hvernig eigi að fjármagna nýbyggingar LSH.

Ég held að við þurfum ekki að ræða neitt um pólitískan ágreining eða hverjir hafi haft frumkvæði eða slíkt í málinu. Það sem er einfaldlega lagt til með tillögunni er að okkur takist að skipa þverpólitíska samstöðu um þetta mikilvæga verk sem við þurfum að vinna sem fyrst nú á nýbyrjaðri öld.

Ég mun kannski koma að því ef ég hef tíma til á eftir að það hefur verið ákaflega gaman að lesa um sögu Sjúkrahúss Reykjavíkur og síðar Landspítala í Landspítalabókinni sem var skrifuð um það mikla verk og þá miklu baráttu sem var á sínum tíma fyrir því að byggja annars vegar sjúkrahús í Reykjavík og síðar Landspítala, og vonandi kem ég að því síðar hvernig þessir frumkvöðlar og baráttumenn unnu það verk til sigurs þó að það tæki langan tíma.

En ég þakka kærlega fyrir það jákvæða sem komið hefur fram hjá nokkrum þingmönnum, eins og hv. þm. Jónínu Bjartmarz og jafnframt hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni sem lýsti því að það væri ágæt hugmynd að skipa byggingarnefnd þó svo, eins og hann kom að, kannski mætti hafa þá nefnd á breiðari grunni en hér er lagt til og ég get í sjálfu sér alveg tekið undir það. Það er auðvitað verkefni þeirrar nefndar sem málið fer til að útfæra ýmislegt frekar. Hann nefndi hér t.d. starfsfólk. Reyndar er kveðið á um það í tillögu minni að það sé gert, enda vinna mjög margir góðir starfsmenn á spítalanum sem hafa m.a. sótt menntun sína erlendis og hafa starfað þar á fjölmörgum spítölum og geta þá e.t.v. komið með fróðleik og annað um hvernig að þessu verki ætti að standa.

Það er í raun og veru það sama sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson talaði um að fyrst þarf að ákveða hvað á að gera í væntanlegum byggingum og væntanlegum Landspítala -- háskólasjúkrahúsi þegar starfsemin er komin öll á einn og sama stað. Hér er líka fjallað um slíka þarfagreiningu og er mjög mikilvægt að það sé gert.

Þeir hv. þm. sem ég nefndi, þ.e. Steingrímur J. Sigfússon og Kristinn H. Gunnarsson, hafa líka rætt um staðsetningu. Annar telur að það sé raunsætt og raunhæfara að byggja, eins og hér er lagt til, við Hringbraut sem er niðurstaða svokallaðrar Ingibjargarnefndar, fyrrv. heilbr.- og trmrh. sem ásamt fleirum sem ég gat um í flutningsræðu skiluðu tillögu um að það væri framtíðarsvæðið. Hins vegar komu svo fram efasemdir hjá hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni um að það væri endilega besti staðurinn vegna þess að hann væri ekki lengur miðsvæðis í borginni miðað við hvernig hún hefur þróast. Engu að síður er það niðurstaða þeirrar nefndar og hygg ég að þar hafi ráðið miklu staðsetning og nálægð við háskólann þó svo að ekki muni miklu upp að gamla Borgarspítalanum í Fossvogi.

Ég sagði líka í flutningsræðu minni að í hinni miklu heimsókn okkar samfylkingarmanna á Landspítalann fyrir skömmu tók ég eftir því að skoðanir voru mjög skiptar meðal starfsmanna. Því held ég að það sé líka gott að þetta mál skuli vera komið hingað inn og þó svo að niðurstaða nefndarinnar um framtíðarstaðsetningu sé sú sem hér er lögð til, að þá eigi sér stað umræða í þinginu og í þingnefnd um framtíðarstaðsetningu. Ég get sagt að ég tók eftir því að það voru rök bæði með og á móti, bæði þegar maður las alla þessa skýrslu og ræddi við starfsfólk um þessi tvö svæði. Hins vegar held ég að það hafi komið út úr þessu að menn hafi algjörlega afgreitt þriðja svæðið frá sem var að byggja allt upp að nýju.

Ég held því að það væri gott að þetta yrði skoðað og það er náttúrlega hlutverk byggingarnefndar að fara betur í gegnum það þó svo að niðurstaða þessarar nefndar sé slík. En ég vil jafnframt geta þess, og held að ég fari ekki með rangt mál að ég hafi lesið það hér í gögnum að hæstv. heilbr.- og trmrh. hafi gert tillögu nefndarinnar að sinni um framtíðarsvæði við Hringbraut.

[18:30]

Ég vil enn á ný í upphafi seinni ræðu minnar þakka þeim þingmönnum sem um þetta hafa fjallað og er alls ekki að gleyma hv. flokksbræðrum mínum sem hafa talað, þeim Ágústi Ólafi Ágústssyni sem fór mjög vel yfir heimsókn okkar á Landspítala -- háskólasjúkrahús og lýsti því að þrengsli og óhentugt húsnæði var rauður þráður hjá starfsfólki. Einnig fóru hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson og Jón Kr. Óskarsson mjög vel í gegnum málið og lýstu því sem fyrir þeirra augu bar við heimsóknina.

Virðulegi forseti. Mér finnst mjög mikilvægt að málið hafi komist á dagskrá, og þakka kærlega fyrir það, og að það skuli nú ganga til nefndar. Svo ég ljúki máli mínu um það sem fram hefur komið í ræðum þingmanna trúi ég því og treysti að hv. þm. Jónína Bjartmarz sem líka er stýrimaður, ef svo má að orði komast, í ákveðinni nefnd um starfsemi Landspítala -- háskólasjúkrahúss, að hún sem formaður nefndarinnar beiti sér fyrir því að málið verði sent sem víðast til umsagnar. Það verður gaman að safna þeim umsögnum saman og skoða málið og hvort ekki sé hugsanlegt að meðal fulltrúa allra flokka innan heilbr.- og trn. megi mynda hina þverpólitísku samstöðu sem hér er talað um að leggja til, þ.e. að skipuð verði byggingarnefnd. Mér finnst grundvallaratriði að fulltrúar allra flokka á hinu háa Alþingi, plús einhverjir fleiri sem nefndin kann að leggja til, skipi slíka byggingarnefnd.

Virðulegi forseti. Mér er það í raun og veru að meinalausu þó tillagan sé tekin og haft á henni einhver endaskipti ef út úr henni kemur það meginmarkmið að hreyfa við málinu, skipa byggingarnefnd og fara síðan í það. Ég hygg að það sé þverpólitísk samstaða um málið. Hér hefur eingöngu komið fram ágreiningur um þann hluta tillögunnar að verja hluta af sölu ríkiseigna, eins og t.d. Landssímans, til þessa verks eins og fram kom hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni og ég virði þá skoðun. Vinstri hreyfingin -- grænt framboð hefur talað gegn því að selja Landssímann og við því er ekkert að gera alveg eins og við í Samf. erum ekki sammála um að selja Landssímann með grunnnetinu. Þetta er samt sem áður allt saman útfærsluatriði. En ég vona að tillagan fái faglega og góða umfjöllun í heilbr.- og trn. og að fyrir þinglok megi mynda þá þverpólitísku samstöðu um að koma málinu af stað, því hafi verið hreyft og það komist á vinnslustig byggingarnefndar.

Það er rétt sem fram hefur komið, virðulegi forseti, að að mati starfsmanna og erlendra sérfræðinga hefur komið í ljós að sameining og flutningur starfseminnar í nýtt húsnæði sem er sérstaklega hannað geti þýtt allt að 10--15% sparnað í rekstrarkostnaði. Reynsla frá Evrópu hefur sýnt það, og eins og kom fram hjá hv. þm. Ágústi Ólafi Ágústssyni getur þetta þýtt sparnað og rekstrarkostnað upp á 2,3--3,5 milljarða á ári. Það er því mjög mikilvægt að hafa þetta atriði í huga.

Ég vil rétt í lokin, virðulegi forseti, fara örlítið aftur í söguskýringar. Ég sagði áðan að ef ég hefði tíma til mundi ég aðeins geta um baráttu manna fyrir byggingu sjúkrahúsa í Reykjavík, Landspítala, og hvernig henni var háttað. Það er ákaflega ánægjulegt að lesa um hana í Landspítalabókinni og í kafla sem segir: Í upphafi var orðið --- það er ekki innan gæsalappa, er t.d. fjallað um að orðið Landspítali kemur fyrst fyrir í íslensku máli árið 1863 og sennilega í tillögu eða ræðu fyrrv. landlæknis Jóns Hjaltalíns. Það er ákaflega fróðlegt að lesa þessa bók, hvernig hafist var handa við að safna peningum til að hrinda því í gang að byggja sjúkrahús í Reykjavík. Þar blandast inn í, eins og svo oft áður, að konur söfnuðu miklum peningum og lögðu fram framlög til verksins. Ég man ekki hvað það voru margir ríkisdalir í byrjun. Það er ákaflega gaman að fletta bókinni í gegn og það ættu þingmenn að gera einhvern tíma við tækifæri. Sagt er að á fæðingardegi Friðriks konungs VII., 6. október 1863 stofnuðu tíu Reykvíkingar félag til að koma upp sjúkrahúsi í Reykjavík. Forustumaður þeirra samtaka var Árni Thorsteinsson land- og bæjarfógeti og söfnuðust á einu og hálfu ári 1.316 ríkisdalir og einnig tókst að safna saman peningum í Danmörku til að setja í sjóðinn. Eignir voru gefnar ýmsum þekktum mönnum í Reykjavík og jafnvel erlendis og menn frá Hamborg sem vildu ekki láta nafns síns getið gáfu miklar fúlgur fjár í þetta.

Síðan er líka gaman að lesa um fyrsta almenna læknafundinn á Íslandi sem var haldinn í Reykjavík 27.--30. júlí 1896. Þessi læknafundur afgreiddi Landspítalamálið með ályktun í þremur liðum. Í þriðja liðnum segir m.a., með leyfi forseta:

,,Fundurinn skorar á Alþingi að það veiti af landsfé nægilegt fé til byggingar og árlegs viðhalds á Landspítala í Reykjavík í tveimur deildum, kirurgiskri og medisinskri, er rúmi 40--50, þar af a.m.k. 20--30 ókeypis sjúkrarúm.``

Þetta, virðulegi forseti, ásamt tillögu sem Alþingi samþykkti segir okkur að barátta fyrir byggingu Landspítala, því þjóðþrifaverki sem það var og er, var þannig að almenningur í landinu, verkamenn, stórkaupmenn og aðrir söfnuðu saman fé og mynduðu þverpólitíska samstöðu að hrinda því mikla máli í framkvæmd. Ég vitna í þessar gömlu söguskýringar, sem ég hefði viljað hafa meiri tíma til að fara betur í gegnum, því það er kannski einn megintilgangur tillögunnar að reyna að freista þess að mynda um það þverpólitíska samstöðu á hinu háa Alþingi að ráðast í þetta mikla verk, hvort sem það er eftir tvö ár, fjögur ár, fimm ár eða hvað. Skipa þverpólitíska byggingarnefnd og ætla til þess fé á fjárlögum eins og ég gat um áðan á komandi árum til að vinna þetta mikilhæfa verk. Þess vegna kemur fram í greinargerðinni að þetta er þjóðarátak sem þarf að ráðast í. Og hvort sem peningar fyrir sölu ríkiseigna eins og t.d. Landssímans verða notaðir í þetta eða þeir koma öðruvísi, má í raun og veru segja að hin mikla eign sem Íslendingar hafa eignast með viðskiptum sínum við Póst og síma, Landssíma og Símann, eða hvað þetta nú heitir, sem geta verið allt að 35--40 milljarðar, verði notaðir í þjóðarátak til að byggja Landspítala í staðinn fyrir eignina Landssíma. Þá er í rauninni verið að fara svipaða leið eins áður, þ.e. notuð verða hálfgerð samskot frá þjóðinni til að byggja betur við og koma Landspítalanum á einn og sama staðinn. Ég segi ekki að það verði undir eitt og sama þak.

Virðulegi forseti. Ég legg til að tillögunni verði vísað til hv. heilbr.- og trn.