Umræður um störf þingsins

Þriðjudaginn 16. mars 2004, kl. 13:57:05 (5339)

2004-03-16 13:57:05# 130. lþ. 84.93 fundur 410#B umræður um störf þingsins# (um fundarstjórn), SJS
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 130. lþ.

[13:57]

Steingrímur J. Sigfússon:

Frú forseti. Mér virðist sem nokkur brögð séu að því að liðurinn, umræður um störf þingsins, fari ekki fram á þeim grunni að jafnræði sé á meðal þingmanna. Þetta er ekki skipuleg utandagskrárumræða þar sem málshefjandi og ráðherra hafa rétt umfram aðra þingmenn. Ég veit ekki nákvæmlega í hvaða röð menn báðu um orðið, en hitt er ljóst að eftir að forseti þingsins hafði synjað mér um að taka til máls öðru sinni kom hv. þm. Halldór Blöndal og hélt seinni ræðu sína sem að uppistöðu til voru ávirðingar í garð þess sem hér stendur. Ekki bætti svo um betur þegar hæstv. umhvrh. kom og gjörði slíkt hið sama, vitandi þó báðir tveir, hv. þm. og hæstv. ráðherra, að ég var dauður í umræðunni og hafði ekki aðstöðu til að svara fyrir mig. Þetta er ekki stórmannlegt.

Fyrir utan það, frú forseti, að hér fóru fram, af hálfu hv. þm. Halldórs Blöndals og að nokkru leyti hæstv. umhvrh., hreinar efnisumræður um frv. sem er til meðferðar í þingnefnd og snerust á engan hátt um störf þingsins eða hina þinglegu meðferð málsins. Flestir aðrir ræðumenn voru þó að koma inn á eða tengja mál sitt við málsmeðferðina sjálfa og hvort t.d. hæstv. ráðherrar ættu að vera með puttana í því hvernig þingnefndir höguðu störfum. Ég endurtek það sem ég sagði áður um það, að það er ekki á þeirra forræði og ekki á þeirra valdi. Hæstv. ráðherrar verða þá að gjöra svo vel að fara í gegnum fulltrúa sína í nefndinni, þ.e. fulltrúa meiri hlutans, og koma þannig á framfæri formlegum skilaboðum í nefndina eða gera það eitt sem er í þeirra valdi, sem flutningsmanna málsins, að kalla það til baka.

Sú athugasemd, frú forseti, sem ég vil gera við fundarstjórn forseta lýtur sérstaklega að þessu, að tvennt var þarna ekki með þeim hætti sem ég tel réttast vera samkvæmt þingsköpum. Hið fyrra er að allir þingmenn standa jafnt að vígi gagnvart því að biðja um orðið og nýta rétt sinn til að gera athugasemdir um störf þingsins. Þar eru allir undir eitt seldir, jafnt þingmenn sem ráðherrar, og á ekki að gilda neitt fyrirframskipulag um málshefjanda og ráðherra sem kýs að svara ef honum býður svo við að horfa.

Hið síðara er að það hefur aldrei þótt góð latína í þingsölum, og er dapurlegt að verða fyrir því af hálfu þingreyndustu manna hér, að ráðast persónulega að þingmönnum sem eru dauðir í umræðunni og hafa ekki aðstöðu til að svara fyrir sig. Það segir hins vegar heilmikið um þá sem það ástunda.