Norrænt samstarf 2003

Þriðjudaginn 16. mars 2004, kl. 16:21:44 (5370)

2004-03-16 16:21:44# 130. lþ. 84.10 fundur 688. mál: #A norrænt samstarf 2003# skýrsl, MÞH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 130. lþ.

[16:21]

Magnús Þór Hafsteinsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil fá að þakka hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni fyrir ágætisræðu um störfin í umhverfis- og náttúruauðlindanefnd. Það var bara smáatriði sem ég hnaut aðeins um, a.m.k. til að byrja með. Það var talað um umhverfi Eystrasaltsins í brennidepli eftir slæm umhverfisslys í siglingum. Mér lék forvitni á að fá að vita svolítið meira um það og einnig starfið varðandi eftirlit og stjórn á rándýrastofnum, hvað var þar til umfjöllunar.

Ég vil síðan fá að láta í ljós þá skoðun mína að þó að hvalveiðar séu mikilvægar er þetta kannski ekki alveg rétti vettvangurinn, þ.e. Norðurlandaráð, til að halda heila ráðstefnu um þær því það eru svo fáar Norðurlandaþjóðir sem stunda hvalveiðar. Það er í raun og veru kannski vel af sér vikið að Íslendingum skuli hafa tekist að ná því í gegn að halda ráðstefnu um þær innan vettvangs Norðurlandaráðs því það er nú svo að það eru bara Norðmenn sem stunda þær og Íslendingar með sínar tilraunaveiðar og svo Færeyingar með eitthvað af grindhvalaveiðum og Grænlendingar, en hvorki Færeyingar né Grænlendingar eru fullgildir meðlimir í Norðurlandaráði.

Það stendur alla vega hér að þessi nefnd eigi t.d. að sjá um hluti varðandi hafrannsóknir og ákvörðun fiskkvóta. Og því vekur það furðu mína að íslenskir fulltrúar innan Norðurlandaráðs eða Íslandsdeildar Norðurlandaráðs og þá kannski einkum og sér í lagi Sigurður Kári Kristjánsson, sem er fulltrúi okkar í umhverfis- og náttúruauðlindanefnd, skuli þá ekki beita sér. Ég vil beina þeim vinsamlegu tilmælum til hans að hann beiti sér fyrir því að lögð verði meiri áhersla á þennan mikilvæga málaflokk, því eins og ég nefndi í ræðu minni áðan með röksemdum er full ástæða til að þau mál verði skoðuð og Norðurlandaráð er mjög góður vettvangur fyrir þann málaflokk.