Framboð og kjör forseta Íslands

Mánudaginn 22. mars 2004, kl. 15:14:52 (5565)

2004-03-22 15:14:52# 130. lþ. 87.9 fundur 748. mál: #A framboð og kjör forseta Íslands# (kjörskrár, mörk kjördæma) frv. 9/2004, Frsm. BjarnB
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 130. lþ.

[15:14]

Frsm. allshn. (Bjarni Benediktsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti allshn. um frv. til laga um breyting á lögum nr. 36 12. febrúar 1945, um framboð og kjör forseta Íslands, með síðari breytingu.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Kristján Andra Stefánsson frá forsætisráðuneyti og Skúla Guðmundsson frá Hagstofu Íslands.

Frumvarpið gerir ráð fyrir því að kjörskrár til afnota við kjör forseta Íslands skuli miðaðar við íbúaskrá þjóðskrár þremur vikum fyrir kjördag í stað fimm vikna og að mörk kjördæma skuli vera hin sömu og í næstliðnum alþingiskosningum.

Breytingin varðandi kjörskrána helgast af því að í framkvæmd er engin þörf á að hafa frestinn lengri. Að óbreyttum lögum er viðmiðunin fimm vikur fyrir kjördag sem þýðir að hefja þyrfti umfangsmikla og kostnaðarsama kjörskrárgerð áður en framboðsfrestur er liðinn. Breytingin varðandi mörk kjördæmanna miðar að því að mörk syðra og nyrðra kjördæmis í Reykjavík verði þau sömu og við síðustu alþingiskosningar, en hún er nauðsynleg til að umboð yfirkjörstjórna, sem er staðbundið, liggi fyrir þegar þær gefa út vottorð um kosningabærni meðmælenda vegna framboðs til forsetakjörs.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt.