Gjaldtaka af umferðarmannvirkjum

Mánudaginn 29. mars 2004, kl. 15:35:46 (5682)

2004-03-29 15:35:46# 130. lþ. 89.1 fundur 441#B gjaldtaka af umferðarmannvirkjum# (óundirbúin fsp.), JÁ
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 130. lþ.

[15:35]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Ég verð að lýsa yfir vonbrigðum mínum með svör hæstv. ráðherra. Það var mjög skýrt hjá honum þann 5. desember að kynna ætti niðurstöður strax upp úr áramótum. Nú er talað um að hnoðast eigi með þetta allt saman þangað til samgönguáætlun liggur fyrir eða tillögur að henni.

Hæstv. ráðherra upplýsti ekki heldur hvar tillögur um lækkun á gjaldi í Hvalfjarðargöngum væru á vegi staddar. Hann hefur þó lýst yfir að hann ætli að beita sér fyrir þeirri lækkun. Er það meiningin að lækka gjöldin á næstunni, afnema virðisaukaskattinn eða lækka hann? Ég tel fulla ástæðu til að menn fái að sjá tillögur þessarar ágætu nefndar, sem hæstv. ráðherra nefndi, til að einhver umræða geti farið fram um málið á Alþingi áður en þingið fer heim. Væntanlega ætlar hæstv. ráðherra að vinna með þá umræðu í framhaldinu þannig að hægt sé að taka tillit til hennar við mótun tillagna um samgönguáætlun.