Húsnæðismál

Mánudaginn 29. mars 2004, kl. 17:02:15 (5711)

2004-03-29 17:02:15# 130. lþ. 89.7 fundur 785. mál: #A húsnæðismál# (íbúðabréf) frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 130. lþ.

[17:02]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að ég hafi nú sagt að þetta muni auðvelda það, ef menn kjósa að gera það, að flytja húsnæðiskerfið inn í bankana og einkavæða það. Ég held að það liggi alveg fyrir að það að breyta þessu svona eins og bankarnir sjálfir hafa lagt til muni auðvelda það, hver svo sem niðurstaðan verður. Mín spá er engu að síður sú að það verði gert fyrr en seinna.

Varðandi dagsetninguna í frv. þá lýsir ráðherrann því yfir að henni þurfi örugglega að breyta. Ekki ætlar hann að fara að gefa út þessi bréf eða fara í útboð áður en þetta er orðið að lögum og nefndin mun auðvitað skoða það.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra nokkuð nánar um leigumarkaðinn. Nú held ég að við hæstv. ráðherra hljótum að vera sammála um að mjög liggi á þessu máli. Neyðarástand ríkir á leigumarkaðnum.

Hæstv. ráðherra vísar til þess sem hæstv. ráðherrar gjarnan gera, þ.e. að nefnd sé að störfum að kanna málið. Ég vísa til þess að nefnd var að störfum á vegum Páls Péturssonar forvera hæstv. núv. félmrh. Hún gerði ítarlega skýrslu um stöðu og þróun á leigumarkaðnum og hvaða tillögur þyrftu að komast til framkvæmda til að bæta þar stöðuna. Það snerti m.a. niðurgreiðslu á lánum, stofnstyrki o.fl. sem sveitarfélögin tóku undir. Það hefur því nægjanlega verið skoðað að mínu viti hvernig hægt sé að bregðast við neyðarástandinu á leigumarkaðnum. Það vantar bara viljann og það skortir á að menn viðurkenni að það þurfi að setja í þetta meira fjármagn til að bæta stöðu leigjenda.

Því vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Hvenær má vænta þess að nefndin ljúki störfum? Mun það verða áður en þingi lýkur þannig að við getum fjallað um þær breytingar sem ég vona að hæstv. ráðherra muni leggja hér fyrir þingið þannig að við þurfum ekki að horfa upp á í allt sumar og út þetta ár það neyðarástand sem nú ríkir hjá leigjendum?