Húsnæðismál

Mánudaginn 29. mars 2004, kl. 17:36:46 (5722)

2004-03-29 17:36:46# 130. lþ. 89.7 fundur 785. mál: #A húsnæðismál# (íbúðabréf) frv., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 130. lþ.

[17:36]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Það er engum blöðum um það að fletta --- menn geta farið í gömul blöð og flett upp ræðum hv. þingmanns frá þeim tíma --- að hún lagði sig ákaflega mikið fram um það á þeim tíma að spilla tiltrú almennings á þessu nýja kerfi sem verkalýðshreyfingin hafði þá samið við ríkisstjórnina um. Þingmanninum varð vel ágengt í því enda byggist hvert kerfi á trú fólks á því. Þingmaðurinn lagði sig mjög fram um að spilla trú manna á kerfinu og varð verulega ágengt í þeim efnum, m.a. vegna þess að fjármagnsmarkaðurinn var það veikur. Það var ekki til nægjanlega mikið fjármagn frá lífeyrissjóðunum til að standa undir þessari ofboðslegu eftirspurn sem búin var til á mjög skömmum tíma. Það kom m.a. fram í því að þegar skipt var yfir í húsbréfakerfið kom það fram í afföllum sem fólkið varð að taka á sig, allt upp í 25% afföll. Það lofaði að skulda sjóðnum fjórar krónur en fékk ekki nema þrjár til að kaupa íbúðir. Þetta var fína kerfið sem hv. þm. bar ábyrgð á að búa til og það ástand sem leiddi til þessara affalla.

Hv. þm. kveinaði hér undan því að framsóknarmenn hefðu talað á móti upptöku húsbréfakerfisins á sínum tíma og tafið framgang málsins en framsóknarráðherrann Alexander Stefánsson, sem var félmrh., samdi við verkalýðshreyfinguna árið 1986 og það var hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir sem stóð hér í þingsölum tímunum saman til að spilla fyrir því samkomulagi og eyðileggja árangur ríkisstjórnarinnar af samkomulaginu. Það er mikil ábyrgð sem þingmenn takast á hendur með því að standa að slíku framferði í þingsölum, jafnvel þó að hv. þingmaður hafi þá verið í stjórnarandstöðu eins og nú.