Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 29. mars 2004, kl. 18:29:31 (5738)

2004-03-29 18:29:31# 130. lþ. 89.8 fundur 485. mál: #A stjórn fiskveiða# (sóknardagar handfærabáta) frv., KHG
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 130. lþ.

[18:29]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Hér er verið að ræða frv. um framtíð dagabátaflotans og lagt til í frv. að leyfilegir sóknardagar á hverju fiskveiðiári verði aldrei færri en 23 og jafnframt lagt til að þeim geti fjölgað um einn dag fyrir hver 20 þús. tonn af þorski sem heildaraflinn er aukinn umfram 230 þús. tonn.

Ég tel rétt að rifja aðeins upp söguna í þessu efni þannig að menn hafi til hliðsjónar í umræðunni sem hér fer fram hvernig málið hefur þróast frá upphafi, en það á rætur sínar að rekja til Valdimarsdómsins sem féll í byrjun desember 1998. Þá voru fengnir sérfræðingar á vegum ríkisstjórnarinnar til að greina dóminn og fá fram mat á því hvað dómsvaldið væri að segja með þeim merka dómi sem þá féll. Ríkisstjórnin komst að þeirri niðurstöðu að Hæstiréttur væri að gera kröfu til þess að aðgangur að fiskimiðunum væri opnaður frá því sem verið hafði fram að þeim tíma og það væri mat Hæstaréttar að aðgangurinn væri of takmarkaður og draga yrði úr hindrunum fyrir nýja aðila inn í kerfið með því að skilgreina veiðiheimildir og gera mönnum kleift að afla sér þeirra í smærri einingum en aflahlutdeildum og þannig gætu menn komist yfir heimildir til að hefja útgerð eða gera út með minni tilkostnaði en ella. Þetta var í stuttu máli sú greining sem sérfræðingar ríkisstjórnarinnar settu fram á dómi Hæstaréttar.

Það varð niðurstaða ríkisstjórnarinnar að eina leiðin til að mæta sjónarmiðum Hæstaréttar væri að hafa eitt kerfi fyrir allan flotann og allir yrðu að vera í framseljanlegu aflamarkskerfi. Frumvarp um það var lagt fram í desembermánuði 1998, skömmu áður en Alþingi fór í jólaleyfi. Síðan var þingið kvatt saman í janúarbyrjun 1999 til að taka fyrir frv. hæstv. sjútvrh. og afgreiða það og gera að lögum svo fljótt sem unnt væri.

Á þeim tíma var ég formaður sjútvn. þannig að það hvíldi dálítið á mínum herðum að stýra vinnunni og sjútvn. eyddi miklum tíma í að fara í gegnum þingmálið frá ríkisstjórninni og rökstuðninginn sem Hæstiréttur setti fram fyrir niðurstöðu sinni. Eftir mikla yfirlegu varð niðurstaða okkar í sjútvn., a.m.k. meiri hluta hennar, að það væri ekki verið að kveða á um það með dómnum að eina leiðin sem unnt væri að beita til að stýra veiðum við Ísland væri aflamarkskerfið. Þvert á móti komust menn að þeirri niðurstöðu að það væri heimilt að halda áfram sóknarstýringu. Ég beitti mér mjög fyrir því innan meiri hluta sjútvn., og fleiri þingmenn þar, að tala fyrir þeim sjónarmiðum að menn gætu haft áfram sóknarstýringu á veiðunum.

Fyrir 2. umr. málsins skilaði meiri hluti sjútvn. af sér mjög viðamiklum tillögum um breytingar á stjórnarfrv. þar sem snúið var við stórum hlutum í frv. sem lutu að veiðum smábáta. Þar var lagt til að taka upp sóknardagakerfið sem hefur í meginatriðum verið við lýði síðan. Þá var lagt til að dagarnir yrðu 23 og reyndar var málið afgreitt með þeim hætti að hækkun daganna á milli ára gat farið allt upp í 25%. Síðar tókst að fá það lækkað þannig að það varð ekki meira en 10% ár hvert. Ég held að það hafi skipt sköpum að það tókst í fyrsta lagi að ná fram samstöðu um að viðhalda áfram sóknardagakerfi á smábátum og í öðru lagi að fækkunin milli ára yrði þó aldrei meiri en 10%.

Ég lagði mjög mikla áherslu á að menn sameinuðust um þessa niðurstöðu því það þurfti líka að horfa til þess sem Hæstiréttur var í raun að segja, að við yrðum að ganga frá stjórn veiðanna með þeim hætti að einhvers staðar gætu menn hafist handa án þess að aðgangshindrunin inn í kerfið væri of stór. Hæstiréttur var í raun að gera athugasemdir við að kerfið væri of lokað, það væri of dýrt að komast af stað í kerfinu eins og það var. Út frá þeim sjónarmiðum gerðum við breytingar á sóknardagakerfinu sem hafði verið áður á þá lund að við aðskildum veiðileyfið og dagana, töldum okkur skylt að gera það til þess að mæta sjónarmiðum Hæstaréttar að gera mönnum mögulegt að geta keypt sér daga í smærri einingum en 23 saman, sem var það kerfi sem hafði verið áður. Menn keyptu veiðileyfi og í veiðileyfinu var öll heimildin til veiða ein og óskipt og verðlögð samkvæmt því. En við töldum okkur skylt, til að mæta sjónarmiðum Hæstaréttar, að skilgreina einingarnar í minna mæli. Það gerðum við með því að hafa þær í dögum og gera þær framseljanlegar að vissu marki, en settar voru töluverðar hindranir á það framsal eins og menn þekkja og ber að rifja það upp hér, sem gera það að verkum að verðið á heimildunum er miklu lægra en það mundi vera ef einingarnar yrðu skilgreindar í magni, sem kíló.

Með þessu tókst okkur að búa til kerfi þar sem þeir sem voru í kerfinu gátu haldið áfram og þeir sem vildu komast inn gátu farið inn með minni tilkostnaði en ef þetta væri allt í einu aflamarkskerfi. Ég held að reynslan hafi sannað að það sé rétt að reglurnar sem settar voru hafi gert það að verkum að verðlagningin á dögunum er lægri og jafnvel má segja verulega lægri en hún mundi vera ef þetta væru skilgreindar sem heimildir í aflamarki og kerfið væri eitt. Það skiptir því máli upp á verðlagninguna hvernig reglurnar eru, m.a. um framsal.

Ég vil vísa til nál. meiri hluta sjútvn. frá þeim tíma, sem er 123. löggjafarþing, og er að finna á þskj. 656 og brtt. nefndarinnar á þskj. 657. Ég vil enn fremur vísa til framsöguræðu minnar fyrir nál. og vil leyfa mér að rifja upp aðeins hluta úr henni til að skýra þau sjónarmið sem við settum okkur og útskýra hvers vegna við gerðum þær viðamiklu breytingar á frv. ríkisstjórnarinnar sem lá fyrir nefndinni, með leyfi forseta:

,,Meiri hluti sjútvn. setti sér það markmið í upphafi að gera lágmarksbreytingar á gildandi lögum. Eftir viðræður við sérfræðinga sem komu á fund nefndarinnar lá fyrir að unnt væri að viðhalda sóknardagakerfi smábáta án viðamikilla breytinga, en um 320 bátar af um 800 smábátum hafa róið samkvæmt því. Var því horfið frá þeirri tillögu í frv. að fella allar veiðar smábáta inn í aflahlutdeildarkerfi og gefa þeim kost á að velja á milli þess að vera áfram í sóknardagakerfi eða fara í aflahlutdeildarkerfi. Núverandi aflamarkskerfi verður því áfram aðskilið frá krókakerfinu en það kerfi verður einfaldað og mun skiptast í tvö kerfi í stað þriggja áður. Veiðar samkvæmt krókakerfi munu áfram takmarkast við línu og handfæri og í því verða ekki heimilaðar netaveiðar.``

Þetta vildi ég rifja upp til að skýra svolítið aðdragandann að því að sóknardagakerfið er yfir höfuð til. Ég tel að menn eigi að halda áfram að starfa á grundvelli stefnumörkunarinnar frá því í janúar 1999.

Málið kom mjög til umræðu fyrir áramót í sjútvn. Alþingis þegar við ræddum frv. um línuívilnun og meiri hluti sjútvn. lét koma fram í nál. sínu fyrir því frv. eftirfarandi, með leyfi forseta:

,,Málefni svonefndra dagabáta hafa verið rædd í nefndinni. Ekki reyndist unnt að leggja til tillögur um framtíðarskipan í málefnum þeirra sem þó er mikilvægt verkefni. Meiri hlutinn leggur áherslu á að vinnu við það verði hraðað.``

Það var því tekið fram af hálfu meiri hlutans að menn litu svo á að málefnið væri mikilvægt og það yrði að ná niðurstöðu um framtíðarskipan dagabátanna vegna þess að fækkunin um 10% á hverju ári er óviðunandi fyrir þá sem starfa í kerfinu og það þarf að nást niðurstaða í stöðugleika í því kerfi.

Yfirlýsingin sýnir að menn innan stjórnarliðsins eru sammála um að það jafnvægi í kerfinu sem menn ætla sér að ná byggist á sóknardagakerfinu en ekki á því að kvótasetja núverandi dagakerfi. Það er ekki lýst yfir hvar gólfið eigi að vera í dögunum í áliti meiri hluta sjútvn., enda liggur niðurstaða um það ekki fyrir, en því er lýst yfir að menn telji að það verði að setja gólf. Þetta liggur fyrir, herra forseti, um afstöðu stjórnarliðsins í málinu.

Ég tel þýðingarmikið að halda því til haga að af hálfu stjórnarliðsins er ekki stuðningur við að kvótasetja dagabátana. Þetta vildi ég taka alveg skýrt fram og er ekki unnið að því á þeim grundvelli. Þeir aðilar sem eru að vinna því fylgi úr hópi dagamanna eru því ekki að vinna samkvæmt þeirri stefnu sem stjórnarliðið hefur markað sér í málinu.

Hæstv. sjútvrh. er þessa dagana í viðræðum við Landssamband smábátaeigenda til að ná fram sameiginlegum tillögum þeirra um framtíðarskipan dagabátakerfisins og vonast er eftir því að niðurstaða úr þeim viðræðum geti legið fyrir mjög fljótlega þannig að menn nái saman um hvar menn vilja setja gólf í dagana. Ég geri mér því vonir um að menn nái ásættanlegri niðurstöðu í þeim efnum mjög fljótt enda verður það að vera svo ef stjórnarliðið ætlar að standa við þá yfirlýsingu sem það gaf í desember sl., og ég legg áherslu á að það geri það.

Ég get lýst yfir sjónarmiðum mínum um hvar gólfið ætti að liggja. Ég tel að það eigi að vera við 23 daga eins og ákveðið var í upphafi og það eigi að festa það sem jafnvægispunkt í kerfinu. Ég er þeirrar skoðunar að rétt sé að fallast á takmarkanir til að tryggja sóknargetu flotans þannig að unnt sé að hafa frekari bönd á því en nú er hversu mikinn afla flotinn dregur að landi ár hvert. Landssamband smábátaeigenda hefur kynnt hugmyndir um það sem takmarkar vélarafl og fjölda handfæra á rúllum. Ég held að menn eigi að reyna að ná samkomulagi á þeim grundvelli og gólfið eigi að liggja við 23 daga.

Ég er að því leyti sammála fyrri hlutanum í tillögu frv. að það verði ekki færri en 23 dagar ár hvert. Ég hef allan fyrirvara á því hvort rétt sé að fallast á seinni hluta 1. gr., að unnt verði að fjölga dögunum eftir heildarafla ár hvert af þorski. Ég hallast frekar að hinni leiðinni sem Landssamband smábátaeigenda hefur kynnt sem þeirra hugmyndir til að ná samkomulagi í þessum efnum.

Ég vildi, herra forseti, gera grein fyrir forsögu málsins og afstöðu minni til þess og frv. Ég tel að frv. sé ágætt innlegg í umræður um málið og gott fyrir sjútvn. Alþingis að hafa málið til umfjöllunar því það fer að styttast sá tími sem þingið hefur til að ljúka málinu fyrir þinglok í vor. En ég legg áherslu á að menn nái lendingu á Alþingi í þessum efnum og heykist ekki á því að ljúka málinu með sæmilegu samkomulagi fyrir vorið.