Fjarskiptalög og misnotkun netmiðla

Þriðjudaginn 30. mars 2004, kl. 13:36:53 (5756)

2004-03-30 13:36:53# 130. lþ. 90.91 fundur 442#B fjarskiptalög og misnotkun netmiðla# (aths. um störf þingsins), HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 130. lþ.

[13:36]

Hjálmar Árnason:

Virðulegi forseti. Hér er hreyft mjög alvarlegu máli og ég vil lýsa yfir sérstakri ánægju með viðbrögð hv. formanns samgn. við því erindi sem hér er til umræðu. Ég tek sömuleiðis undir það með hv. þingmanni að það hefði verið eðlilegt að ríkislögreglustjóri sendi nótu til samgn. um þetta og með sama hætti mætti segja að ekki hefði verið óeðlilegt að hv. þingmaður hefði tekið þetta mál upp við virðulegan formann samgn. Látum það þó liggja á milli hluta. Málið er grafalvarlegt.

Hér er um flókin mál að ræða, fjarskipti, og engin ástæða er til að efa eitt augnablik að samgn. afgreiddi málið í bestu trú. Það ber að fagna þeirri yfirlýsingu sem hv. formaður samgn. gaf um að nefndin væri reiðubúin til að leggjast yfir það. Það er auðvitað full ástæða til. Ef það er rétt sem haldið er fram að barnaníðingar hafi frelsi til að stunda sína svívirðilegu glæpi á netinu og geri það í skjóli laga er auðvitað full ástæða til að fara yfir það og að Alþingi bregðist við. Ég ítreka því enn einu sinni ánægju með yfirlýsingu og viðbrögð formanns samgn.