Fjarskiptalög og misnotkun netmiðla

Þriðjudaginn 30. mars 2004, kl. 13:44:43 (5761)

2004-03-30 13:44:43# 130. lþ. 90.91 fundur 442#B fjarskiptalög og misnotkun netmiðla# (aths. um störf þingsins), JóhS
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 130. lþ.

[13:44]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Hæstv. forseti. Ég fagna því að fulltrúar í samgn. hafa boðað að þetta mál verði tekið upp í samgn. og að þetta ákvæði sem ríkislögreglustjóri lagði til fyrir ári síðan verði skoðað.

Mér fannst á máli formanns samgn. eins og þessi athugasemd ríkislögreglustjóra hefði fyrst birst í sjónvarpinu í gær. Það er alrangt. Hér er um að ræða athugasemdir frá ríkislögreglustjóra upp á níu blaðsíður sem lágu fyrir samgn. í fyrra áður en hún afgreiddi málið. Þann 5. mars er umsögnin dagsett en málið er afgreitt 11. mars. Ég veit ekki betur en að ríkislögreglustjóri eða fulltrúi hans hafi líka óskað eftir því að koma á fund til að greina frá þessu máli, svo alvarlegar voru athugasemdirnar. Og það er auðvitað alvarlegt að þessa er ekki einu sinni getið í nál. eða í ræðum þingmanna hér þegar fjarskiptalögin voru afgreidd, þessara alvarlegu athugasemda sem koma frá ríkislögreglustjóra. Ég hreinlega skil ekki að svona hafi farið fram hjá nefndarmönnum og ég hvet þingmenn til að lesa athugasemdirnar sem koma hér fram.

Hér segir beinlínis að ástæða sé til að óttast að löggjöf sem þessi, þ.e. frv. eins og það lá fyrir, sé til þess fallin að hvetja til brotastarfsemi á internetinu, ekki síst barnaníðinga, og draga athygli og áhuga erlendra brotamanna að Íslandi. Það er sagt að skilyrði til þess að lögregla geti fengið aðgang að gögnum á netinu séu miklu strangari en skilyrði heimilda til húsleitar á heimilum fólks, svo að dæmi sé tekið. Svona er hver blaðsíðan á fætur annarri sem rökstyður það mjög ítarlega og faglega að nauðsynlegt sé að bregðast við og taka upp þessi ákvæði sem ríkislögreglustjóri lagði til. Þess vegna er það auðvitað rangt sem fram kom hjá hv. þm. Hjálmari Árnasyni að samgn. hafi afgreitt málið í bestu trú. Í bestu trú. Ég mótmæli því að ríkislögreglustjóri sé hér hafður fyrir rangri sök. Hann varaði Alþingi vissulega við því að verið væri að lögsetja frv. sem tæki ekki nógu alvarlega á þrjótum á internetinu.