Ábúðarlög

Þriðjudaginn 30. mars 2004, kl. 13:52:52 (5764)

2004-03-30 13:52:52# 130. lþ. 90.3 fundur 782. mál: #A ábúðarlög# (heildarlög) frv., landbrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 130. lþ.

[13:52]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. á þskj. 1193, 782. máli, en um er að ræða frv. til ábúðarlaga.

Þau frumvörp sem ég mæli fyrir, bæði um jarðalög á eftir og ábúðarlög nú, hafa verið lengi í smíðum og komið að þeim nefndir og verið til umfjöllunar á búnaðarþingi hvað eftir annað og til umsagnar hjá sveitarfélögum. Málið hefur því fengið mikla meðferð síðustu fjögur til fimm árin.

Frumvarp þetta er samið í landbúnaðarráðuneytinu að tilhlutan landbúnaðarráðherra og er því ætlað að leysa af hólmi núgildandi ábúðarlög nr. 64/1976, með síðari breytingum. Frumvarpið er lagt fram samhliða frumvarpi til nýrra jarðalaga sem ætlað er að leysa af hólmi núgildandi jarðalög, nr. 65/1976, með síðari breytingum, og hefur verið reynt að samræma ákvæði þessara lagafrumvarpa eins og kostur er. Ljóst er að ábúðarlög, nr. 64/1976, eru í fjölmörgum atriðum orðin úrelt og eiga engan veginn lengur við aðstæður hér á Íslandi. Núgildandi ábúðarlög voru sett á árinu 1976 en frá þeim tíma hafa orðið miklar breytingar í landbúnaði sem og á öðrum sviðum í íslensku þjóðfélagi. Í raun má segja að allar forsendur fyrir landbúnaðarstarfsemi séu gjörbreyttar í dag miðað við það sem var þegar ábúðarlög, nr. 64/1976, voru sett. Þá voru enn fremur ýmis ákvæði laganna að stofni til byggð á enn eldri löggjöf.

Í greinargerð með frv. til nýrra jarðalaga, sem lagt er fram samhliða þessu frv., er gerð grein fyrir ýmsum takmörkunum sem jarðalög, nr. 65/1976, leggja á jarðeigendur. Í ábúðarlögum, nr. 64/1976, eru enn fremur ýmis ákvæði sem fela í sér verulegar takmarkanir á eignarrétti og ráðstöfunarheimildum jarðeigenda.

Frumvarp þetta felur í sér miklar breytingar frá þeim ákvæðum sem fram koma í núgildandi ábúðarlögum, nr. 64/1976, með síðari breytingum, en með þeim er stefnt að því að færa löggjöf um ábúð á jörðum í átt til nútímans og að samræma eignarrétt og umsýslu jarða þeim meginreglum sem gilda um aðrar fasteignir í íslenskri löggjöf. Núgildandi löggjöf um ábúð felur í sér verulegar takmarkanir á eignarrétti jarðeigenda. Með frumvarpi þessu er ætlunin að bæta úr þessum annmörkum en þó er leitast við að tryggja að við þær breytingar sem lagðar eru til séu sjónarmið bæði jarðeigenda og ábúenda höfð að leiðarljósi.

Helstu breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu eru þessar:

1. Felld eru úr gildi ákvæði í 2. gr. ábúðarlaga nr. 64/1976, með síðari breytingum, um heimildir sveitarstjórnar til að knýja jarðeigendur til að ráðstafa jörðum sínum með tilteknum hætti í þágu sveitarfélags eða íbúa þess. Meðal annars er þar fellt úr gildi ákvæði um að hverjum þeim sem á jörð og rekur ekki búskap á henni sjálfur sé skylt að byggja hana hæfum umsækjanda að dómi jarðanefndar og að sveitarstjórn geti knúið eiganda jarðar til að fara að þessu ákvæði. Einnig er fellt úr gildi ákvæði um að ef eigandi jarðar hefur nytjað eignarjörð sína án þess að sitja á jörðinni en hvorki hann, fjölskylda hans né umsjónarmaður á hans vegum hefur þar lögheimili og jörðin rýrnar svo að sveitarfélagið bíður hnekki af skuli sveitarstjórn krefjast þess að jarðareigandi bæti það sem áfátt er eða byggi jörðina til ábúðar en að öðrum kosti getur sveitarstjórn ráðstafað jörðinni.

2. Fellt er úr gildi ákvæði um að ef jarðareigandi hefur vanrækt að gera byggingarbréf skuli litið svo á að ábúandi hafi öðlast lífstíðarábúð á jörðinni. Gert er ráð fyrir að við þær aðstæður hafi stofnast ótímabundinn ábúðarsamningur sem hægt er að segja upp fyrir áramót og tekur uppsögnin gildi í fardögum.

3. Fellt er úr gildi ákvæði um að ef jarðareigandi segir upp ábúð en hvorki flytur sjálfur á jörðina né afhendir hana öðrum til ábúðar sé sú uppsögn ógild. Samkvæmt þessu ákvæði í núgildandi lögum á ábúandi rétt á að fá jörðina aftur ef hann krefst þess innan árs frá því að hann flutti af jörðinni auk þess sem jarðareigandi þarf að bæta honum allan skaða sem af því hlýst.

4. Nýmæli er um að jörð skuli byggð í því ástandi sem hún er og verulegar breytingar gerðar á ákvæðum um skyldu jarðareigenda til að láta ábúðarjörð fylgja ákveðinn húsakost. Fellt er úr gildi ákvæði um að jarðareiganda sé skylt að láta jörð sem ráðstafað er til ábúðar í takmarkaðan tíma fylgja tiltekin hús og sé skylt að bæta úr því innan ákveðins frests ef þau eru ekki leiguhæf með venjulegu viðhaldi í tíu ár. Í frv. er miðað við að jörð sé byggð í því ástandi sem hún er við upphaf ábúðar, hvort sem um er að ræða ábúð í takmarkaðan tíma eða til lífstíðar.

5. Verulegar breytingar eru einnig gerðar á ákvæðum um heimild ábúenda til að framkvæma endurbætur á mannvirkjum jarðarinnar og til að byggja ný mannvirki og miðað við að ábúanda séu einungis heimilar þær endurbætur og framkvæmdir sem jarðareigandi hefur samþykkt skriflega. Þó er sá fyrirvari gerður að ef mannvirki á ábúðarjörð fullnægja ekki kröfum laga og stjórnvaldsreglna um þá starfsemi sem þar fer fram á vegum ábúenda sé jarðareiganda skylt að veita leyfi og samþykkja kaupskyldu á framkvæmdum við ábúðarlok.

6. Verulegar breytingar eru gerðar á kaupskyldu jarðareiganda á eignum og endurbótum ábúanda en í frv. er gert ráð fyrir að jarðareigandi hafi einungis kaupskyldu á eignum og endurbótum fráfarandi ábúanda ef hann hefur samþykkt þær skriflega og jafnframt skuldbundið sig til að kaupa þær af fráfarandi ábúanda við ábúðarlok svo og á eignum og endurbótum sem ábúanda er heimilt að gera ef mannvirki uppfylla ekki kröfur laga og stjórnvaldsreglna um starfsemi ábúanda, sbr. 6. tölul. Í ákvæði til bráðabirgða er þó sett sérákvæði um þau mannvirki sem hafa verið reist samkvæmt heimildum í ákvæðum ábúðarlaga nr. 64/1976, fyrir gildistöku þessara laga en um kaupskyldu á þeim mun fara eftir reglum sem eru sambærilegar og 16. gr. núgildandi ábúðarlaga nr. 64/1976, sbr. ákvæði til bráðabirgða II.

7. Fellt er úr gildi ákvæði í 20. gr. núgildandi ábúðarlaga, nr. 64/1976, um að ef jarðareigandi telur sér ekki fært að fullnægja þeim skyldum sem á hann eru lagðar samkvæmt lögunum geti hann boðið ábúanda jörðina til kaups fyrir það verð er úttektarmenn meta enda fái leiguliði gjaldfrest á helmingi þess kaupverðs er kann að vera umfram veðskuldir. Einnig er fellt úr gildi ákvæði um að ef ábúandi vill ekki kaupa jörðina eftir núgildandi lögum hefur hann fyrirgert ábúðarrétti sínum og hefur þá sveitarstjórn rétt til að ganga inn í kaupin með þeim skilmálum sem jörðin var boðin ábúanda.

8. Verulegar breytingar eru gerðar á ákvæðum núgildandi laga um ábúðartíma, jarðarafgjald og aðra skilmála ábúðarsamninga og gert ráð fyrir að aðilar hafi meira frelsi til samninga um slík atriði. Í frv. eru fjölmargar aðrar breytingar sem of langt mál er að rekja hér en þær eru flestar tilgreindar á bls. 13--17 í greinargerð er fylgir frv.

Ég læt þetta nægja í bili og vísa til þess að í greinargerð með frv. og athugasemdum við einstakar greinar er gerð mjög ítarleg grein fyrir þeim breytingum sem frv. hefur í för með sér miðað við núgildandi löggjöf. Í fylgiskjali með frv. þessu er að finna kostnaðarumsögn fjmrn. um frv. og læt ég nægja að vísa þangað. Ég vil að öðru leyti vísa til greinargerðar þeirrar er fylgir frv. og athugasemda með frv.

Hæstv. forseti. Nú er liðinn rúmlega aldarfjórðungur síðan núgildandi ábúðarlög, nr. 64/1976, voru samþykkt. Ljóst er að miklar breytingar hafa orðið hér á landi á þeim langa tíma sem beinlínis kalla á að breytingar verði gerðar á núgildandi löggjöf um þetta efni. Í frv. því sem hér liggur fyrir er reynt að svara því ákalli og koma til móts við þær þarfir sem hafa skapast í íslenskum landbúnaði og annarri landnýtingu, meðferð og umsýslu jarða. Við samningu frv. hefur eins og kostur er verið reynt að hafa jafnt að leiðarljósi sjónarmið ábúenda og jarðeigenda. Ég tel því að hér sé um að ræða nauðsynlega tímamótalöggjöf sem þingið þarf að taka til alvarlegrar skoðunar miðað við núgildandi aðstæður í íslenskum landbúnaði og hvernig landnýtingu er að öðru leyti háttað hér á landi. Það er von mín að frv. og þau ákvæði sem það hefur að geyma sé svar við kröfum nútímans um sanngjarna löggjöf um ábúð og eignarhald jarða við þær aðstæður og þá framkvæmd sem er ríkjandi hér á Íslandi.

Hæstv. forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. landbn.