Breyting á IX. viðauka við EES-samninginn

Þriðjudaginn 30. mars 2004, kl. 19:12:28 (5847)

2004-03-30 19:12:28# 130. lþ. 90.11 fundur 651. mál: #A breyting á IX. viðauka við EES-samninginn# (peningaþvætti) þál. 15/130, Frsm. SP
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 130. lþ.

[19:12]

Frsm. utanrmn. (Sólveig Pétursdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nál. utanrmn. á þskj. 1231. Þetta er mál nr. 651, till. til þál. um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 98/2003, um breytingu á IX. viðauka, sem er Fjármálaþjónusta, við EES-samninginn.

Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 98/2003 frá 11. ágúst 2003, um breytingu á IX. viðauka, sem er Fjármálaþjónusta, við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/97/EB frá 4. desember 2001, um breytingu á tilskipun ráðsins 91/308/EBE, um ráðstafanir gegn því að fjármálakerfið sé notað til peningaþvættis.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Grétar Má Sigurðsson og Finn Þór Birgisson frá utanríkisráðuneyti, Dís Sigurgeirsdóttur frá dómsmálaráðuneyti og Þóri Skarphéðinsson frá viðskiptaráðuneyti.

Tilskipunin sem hér um ræðir mælir fyrir um breytingar á gildandi tilskipun Evrópubandalagsins frá árinu 1991 um aðgerðir gegn peningaþvætti, sem var hluti af íslenskum rétti. Efni nýju tilskipunarinnar, sem breytir þeirri gömlu og verið er að taka yfir, hefur að meginstefnu til verið innleitt með lögum nr. 42/2003. Hins vegar stendur eftir að gera frekari lagabreytingar, einkum á almennum hegningarlögum.

Samkvæmt upplýsingum sem nefndin hefur aflað frá dómsmálaráðuneyti er lagafrumvarp í undirbúningi.

Drífa Hjartardóttir, Magnús Stefánsson og Ágúst Ólafur Ágústsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt.

Undir nál. skrifa hv. þingmenn Sólveig Pétursdóttir, Guðmundur Árni Stefánsson, Jónína Bjartmarz, Rannveig Guðmundsdóttir, Steingrímur J. Sigfússon og Einar K. Guðfinnsson.