Fjárveitingar til sérsambanda Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands

Miðvikudaginn 31. mars 2004, kl. 14:54:26 (5886)

2004-03-31 14:54:26# 130. lþ. 92.5 fundur 803. mál: #A fjárveitingar til sérsambanda Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur, 130. lþ.

[14:54]

Menntamálaráðherra (Þorgerður K. Gunnarsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég vil geta þess að nú þegar er undirbúningur hafinn að fjárlagagerðinni fyrir árið 2005 og hafa menntmrn. þegar borist skriflegar tillögur Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands vegna rekstrarstyrkja til sérsambandanna fyrir næsta ár og þær tillögur eru auðvitað til skoðunar í ráðuneytinu.

Hafa ber í huga að sérsambönd ÍSÍ eru alls 24, eins og kom fram áðan, og eru eins og gefur að skilja mismunandi að stærð og misvel í stakk búin að afla sér tekna til reksturs. Ég mun gera mitt besta til þess að mæta óskum ÍSÍ en þó innan þess ramma sem ég hef við undirbúning fjárlagagerðar fyrir næsta ár.

Í ljósi þessarar fyrirspurnar ber þess að geta að Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands fær á fjárlögum ársins 2004 74,7 millj. kr. og 15 millj. að auki vegna Ólympíuleikanna núna í sumar. Þá hafa Íþróttasamband fatlaðra og Glímusamband Íslands um langt árabil fengið fjárveitingar til starfsemi sinnar. Önnur sérsambönd ÍSÍ hafa almennt ekki hlotið fjárveitingar á fjárlögum en þó með einstaka undantekningum og þá til ákveðinna og afmarkaðra verkefna. Einnig hafa sérsamböndin notið stuðnings af safnliðum menntmrn. til ákveðinna verkefna og einnig vegna stórmóta og ýmissa viðburða á þeirra vettvangi. Auk þess geta sérsambönd sótt um fjárstuðning úr íþróttasjóði vegna umsóknar þeirra um sérstök verkefni sem falla innan reglugerðar sjóðsins.

Í þessari umræðu má heldur ekki gleyma að aðaltekjulind íþróttahreyfingarinnar er hagnaðurinn af lottósölunni og skiptist sá hagnaður með ákveðnum hætti til aðila hreyfingarinnar.

Þá ber þess að geta að öllum sérsamböndum ÍSÍ var sent bréf þar sem þeim var gefinn kostur á að senda inn umsóknir um stuðning á fjárlögum fyrir árið 2005.

Ég vil að lokum, virðulegi forseti, einnig upplýsa þingheim um að ég hef tekið þá ákvörðun að boða til árlegs fundar með forsvarsmönnum ÍSÍ ásamt forsvarsmönnum allra sérsambanda ÍSÍ og vænti ég góðs árangurs af því samráði í framtíðinni, en þetta er nýmæli.