Byggðakjarnar

Miðvikudaginn 31. mars 2004, kl. 15:24:47 (5903)

2004-03-31 15:24:47# 130. lþ. 92.8 fundur 704. mál: #A byggðakjarnar# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., iðnrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur, 130. lþ.

[15:24]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Iðnrn. hefur unnið í þeim anda sem fram kemur í nál. meiri hluta iðnn. Umræddir þrír byggðakjarnar hafa verið skilgreindir sem áhersluatriði og hefur ráðuneytið umfram annað beint sjónum sínum að þeim. Einnig hefur ráðuneytið fjallað um hlutverk þeirra og stöðu og ráðist í framkvæmd verkefna í samræmi við það.

Veigamikið grundvallaratriði sem ráðuneytið hefur látið vinna og stuðst við varðandi hlutverk og stöðu byggðakjarnanna er skýrslan ,,Fólk og fyrirtæki. Um búsetu og starfsskilyrði á landsbyggðinni``. Markmið rannsóknanna sem skýrslan byggir á var að kanna búsetuskilyrði einstaklinga og starfsskilyrði fyrirtækja á landsbyggðinni og leggja til leiðir að því markmiði að á Íslandi myndist þrír sterkir byggðakjarnar á landsbyggðinni.

Rétt er að það komi strax skýrt fram að ástæðan fyrir því að áhersla er lögð á þessa kjarnauppbyggingu er ekki sú að byggð á jaðarsvæðum skipti minna máli en aðrar byggðir. Þvert á móti er markmiðið með uppbyggingu miðlægra byggðakjarna að afleidd áhrif uppbyggingarinnar leiði til styrkingar viðkomandi svæðis í heild sinni. Í þeim tilgangi að stuðla að öflugum og sjálfbærum þéttbýliskjörnum og almennri stöðugri byggð hefur iðnrn. m.a. lagt áherslu á að almenn lögmál tryggi viðgang og vöxt byggðarlaganna í stað forsjárhyggju. Á grundvelli þessa hefur verið lögð sérstök áhersla á eftirfarandi áherslusvið:

1. Nýsköpun og atvinnuþróun.

2. Menntun og menningarstarfsemi.

3. Ferðaþjónusta sem byggir á sérkennum byggðarlaganna.

4. Rafræn grunngerð og hagnýting rafrænna lausna.

5. Jöfnun flutningskostnaðar svo nokkuð sé nefnt.

Á öllum þessum sviðum eru verkefni í gangi. Áherslurnar beinast ekki alfarið að byggðakjörnunum. Þess er gætt að svæði umhverfis þá njóti þeirra ríkulega einnig. Með þessu móti er markvisst stefnt að því að sem flestir geti tekið þátt í og notið nútímasamfélags óháð búsetu. Engu að síður er skýr áhersla á uppbyggingu byggðakjarnanna.

Nú er lokið vinnu við byggðaáætlun fyrir Eyjafjörð og vinna við byggðaáætlun fyrir Ísafjörð er komin vel á veg, en hún byggir í raun fyrst og fremst á tillögum heimamanna og þeirri skýrslu sem unnin var af heimamönnum.

Hvað Miðausturland varðar eru þar í gangi framkvæmdir sem hafa munu meiri og víðtækari áhrif til eflingar byggð en nokkur framkvæmd sem ráðist hefur verið í hér á landi.

Efling menntunar er ein helsta forsenda fyrir farsælli þróun landsbyggðarinnar og uppbyggingu byggðakjarna. Aukið framboð menntunar tryggir búsetu og framboð menntaðs fólks sem aftur skapar nýjar forsendur og tækifæri fyrir nýsköpun í atvinnulífinu. Aukinn mannauður á landsbyggðinni verður þannig til þess að efla og styrkja fyrirtæki sem þar eru staðsett.

Stækkun atvinnu- og þjónustusvæða umhverfis byggðakjarna er undir því komin að vel takist til um skipulagningu og uppbyggingu samgangna innan svæðanna. Með stækkun atvinnusvæða er í raun verið að breyta atvinnu- og þjónustustigi þeirra byggðarlaga sem í hlut eiga, ekki eingöngu þéttbýlisins heldur einnig vaxta- og jaðarsvæða umhverfis. Upplýsinga- og fjarskiptatækni á að nýtast öllum og þarf að tryggja að þær samskiptabrautir séu sem greiðastar.

Þau fáeinu atriði sem ég hef gert að umfjöllunarefni er ætlað að varpa ljósi á þá vinnu sem er í gangi varðandi styrkingu byggðar með áherslu á þéttbýliskjarnana þrjá og hvernig unnið er að því að byggja upp heildstæða sýn á hlutverk þeirra og stöðu. Sú mynd er stöðugt að skýrast og mun þróast áfram og vafalítið taka breytingum þegar fram líða stundir.