Byggðakjarnar

Miðvikudaginn 31. mars 2004, kl. 15:37:06 (5911)

2004-03-31 15:37:06# 130. lþ. 92.8 fundur 704. mál: #A byggðakjarnar# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., Fyrirspyrjandi KLM
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur, 130. lþ.

[15:37]

Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þau svör sem hér hafa komið og þeim þingmönnum sem hafa imprað á ýmsum málum.

Eitt kom ákaflega skýrt og skilmerkilega fram, þ.e. frá fulltrúa Framsfl. sem talaði hér, hv. þm. Hjálmari Árnasyni sem telur að byggðaáætlun hafi ekki verið í gildi nema í eitt ár. Hér er kannski komin, virðulegi forseti, skýring á aðgerðaleysi iðnrh. í byggðamálum. Það eru að verða tvö ár síðan byggðaáætlun var samþykkt. Hún var samþykkt 3. maí 2002. Það er kannski skýring á þessu aðgerðaleysi og sofandahætti Framsfl. í byggðamálum, að þeir eru ekki á sama tímaskeiði og við. Þar er kannski komin skýringin, að 2000-vandinn svokallaði hafi fest sig svo í sessi í ráðherrum og þingmönnum Framsfl. (Gripið fram í.) Vandinn hefur greinilega hlaupið í framsóknarmenn vegna þess að þeir hafa ruglast í tímatalinu. (ÖS: Og þá hlaupa þeir fyrir björg.) Þá hlaupa þeir fyrir björg, já. (ÖS: Eins og svínin í Biblíunni.) Nú veit ég ekki.

(Forseti (ÞBack): Ég vil biðja hv. þingmenn um að stilla sig svo að ræðumaður geti haldið áfram.)

Hæstv. ráðherra sagði að unnið væri að þessum skilgreiningum og að myndin væri að skýrast nú þegar tveggja ára afmæli byggðaáætlunar stendur fyrir dyrum. Það er gott að það skuli gert en ríkisstjórnin hefur ekki staðið sig í að skilgreina þessi svæði og koma til móts við þau.

Tökum dæmi um svæði sem yrði ábyggilega skilgreint jaðarsvæði, Hrísey. Í dag bárust þær upplýsingar að þar væri verið að segja upp öllum starfsmönnum á stærsta vinnustað eyjarinnar. Það getur vel verið að hæstv. ráðherra segi bara að markaðsöflin eigi að ráða þar. Ég segi, virðulegi forseti: Markaðsöflin í fiskveiðistjórnarkerfinu fúnkera ekki alls staðar. (Forseti hringir.) Ef þau fúnkera ekki þar þá verður hið opinbera að koma til móts við það samfélag. Því miður hef ég ekki tíma til að taka fleiri dæmi en til þess gefst tækifæri í öðrum fyrirspurnum á eftir.