Jöfnun búsetuskilyrða á landinu

Miðvikudaginn 31. mars 2004, kl. 15:51:04 (5916)

2004-03-31 15:51:04# 130. lþ. 92.9 fundur 773. mál: #A jöfnun búsetuskilyrða á landinu# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., BjörgvS
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur, 130. lþ.

[15:51]

Björgvin G. Sigurðsson:

Virðulegi forseti. Ég ætla að taka upp þráðinn þar sem ég lagði hann frá mér áðan af því að í allri umræðu um jöfnun á búsetuskilyrðum milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis eða þéttbýlisins á suðvesturhorninu verður ekkert gert að neinu marki nema tryggja svæðum út um hinar dreifðu byggðir aðgengi að háhraðatengingum til að fólk eigi einhverja möguleika á því að nýta sér tækifærin, enda er þarna um grundvallarmismunun að ræða í samhengi nútímasamfélags. Ég skora á hæstv. ráðherra byggðamála að beita öllu sínu pólitíska afli til að tryggja að þarna verði leikar jafnaðir.

Í þessu sambandi má nefna svæði um allt Ísland, strjálbýli á Vesturlandi, strjálbýli á Norðurlandi vestra, strjálbýli á Norðurlandi eystra og strjálbýli á Suðurlandi þar sem íbúar allt á milli 2.800 upp í 5.200 eru án aðgengis að háhraðanettengingum. Þessu verður að breyta og ég skora á ráðherra að gera það að forgangsmáli.