Eldisþorskur

Miðvikudaginn 31. mars 2004, kl. 18:29:27 (5936)

2004-03-31 18:29:27# 130. lþ. 92.11 fundur 675. mál: #A eldisþorskur# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur, 130. lþ.

[18:29]

Össur Skarphéðinsson:

Frú forseti. Þær upplýsingar sem hv. þm. Jón Gunnarsson flutti okkur inn í umræðuna, benda auðvitað til þess að þorskurinn sé miklu gáfaðri skepna en við gerðum okkur áður grein fyrir. Ef það er svo að hjörðin í kvínni nagar sig með kerfisbundnum hætti út er það auðvitað eitthvað sem menn þurfa að taka tillit til.

Ég er þeirrar skoðunar að þorskeldi eigi eftir að verða gríðarleg lyftistöng fyrir íslenskan sjávarútveg. Ég er líka jafnmeðvitaður um að ef við ætlum okkur að fá öll þau verðmæti úr þorskeldi sem menn miða að í framtíðinni verður það ekki gert nema með mjög miklum kynbótum á sviði þorskeldis. Það hefur alltaf verið undirstaðan undir hagkvæmu fiskeldi. Við sjáum líka núna að sú takmarkaða reynsla sem við höfum af þorskeldi bendir til þess að fiskur alinn í kvíum henti miklu betur til vinnslu en villti þorskurinn og þrýstingurinn er til staðar.

Þessi hætta er fyrir hendi og því er rétt hjá hv. þm. að taka málið upp. Ekki er ráð nema í tíma sé tekið og ég held að hæstv. ráðherra ætti í framhaldi af þessari umræðu að hefja þá vinnu sem hv. þm. er að spyrja eftir og enn er ekki farin af stað.