Háskóli Íslands

Fimmtudaginn 01. apríl 2004, kl. 10:32:55 (5951)

2004-04-01 10:32:55# 130. lþ. 93.1 fundur 780. mál: #A Háskóli Íslands# (dómnefndir, auglýsingar um störf o.fl.) frv., menntmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 130. lþ.

[10:32]

Menntamálaráðherra (Þorgerður K. Gunnarsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um Háskóla Íslands, nr. 41/1999. Lögð er til í þessu frv. breyting á skipun dómnefnda til að meta hæfi umsækjenda um kennara- og sérfræðingsstörf skv. 3. mgr. 12. gr., lögfesting heimildar til að ráða í tiltekin störf við háskólann án auglýsingar, skv. 7. mgr. 12. gr., og lögfesting ákvæðis til bráðabirgða í tengslum við flutning starfsmanna vegna yfirtöku Háskóla Íslands á verkefnum Norrænu eldfjallastöðvarinnar.

Í 3. mgr. 12. gr. laganna er fjallað um skipun dómnefndar til þess að fjalla um hæfi þeirra sem sækjast eftir starfi við kennslu eða fræðastörf við háskólann. Í a-lið 1. gr. frv. er lögð til sú breyting á ákvæðinu að í stað þess að dómnefnd sé skipuð frá grunni í hvert sinn er meta þarf umsækjendur um kennara- og sérfræðingsstörf er gert ráð fyrir föstum dómnefndarmönnum sem skipaðir séu af rektor til þriggja ára í senn fyrir hvert af meginfræðasviðum háskólans sem eru hugvísindasvið, heilbrigðisvísindasvið, samfélagsvísindasvið og verkfræði- og raunvísindasvið. Háskólaráð tilnefnir síðan einn mann í hverja dómnefnd og menntmrh. annan. Skal sá sem er tilnefndur af háskólaráði vera formaður dómnefndarinnar og sá sem tilnefndur er af menntmrh. varaformaður. Varamenn þeirra skulu skipaðir með sama hætti. Meiri hluti dómnefndar sé skipaður samkvæmt þessu en einn dómnefndarmaður verði síðan sérfræðingur, tilnefndur af deild háskólans, til þess að fjalla um hvert einstakt mál.

Í dómnefnd má skipa þá eina sem lokið hafa meistaraprófi úr háskóla eða jafngildu námi. Þetta mun fyrirsjáanlega leiða til þess að einfalda megi og stytta ráðningarferli háskólamanna sem er mikilvægt þar sem skipan og störf dómnefnda hafa haft tilhneigingu til þess að dragast á langinn. Slík breyting er í þágu hagsmuna bæði umsækjenda um störf og stofnunarinnar sjálfrar án þess þó að í nokkru sé dregið úr kröfum til umsækjenda.

Þá er lagt til í b-lið 1. gr. frv., þ.e. í 7. mgr. 12. gr. laganna, að sett verði heimild til undanþágu frá meginreglu 7. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, sem mæli fyrir um að að auglýsa beri laus störf hjá ríkinu. Slík heimild kæmi til viðbótar undantekningum frá auglýsingaskyldunni sem fyrir er í lögunum sbr. 5. og 8. mgr. 12. gr. þeirra. Í framkvæmd hefur komið í ljós að þessum undantekningum eru settar fullþröngar skorður. Þau rök sem búa að baki þessum lögfestu undantekningum eiga einnig við um fleiri tilvik og því hefur það verið afstaða háskólans að heimilt eigi að vera að víkja frá meginreglunni um að auglýsa beri laus störf við skólann og stofnanir hans í nokkrum nánar ákveðnum tilvikum sem öll byggjast á sérstöðu starfa við háskólann. Þessi brtt. hefur að geyma heimild sem í framkvæmd yrði beitt þröngt og einungis á grundvelli nánari reglna sem háskólaráð mun setja.

Að lokum, virðulegi forseti, er í 2. gr. frv. lögfesting á ákvæði til bráðabirgða í tengslum við flutning starfsmanna vegna yfirtöku Háskóla Íslands á verkefnum Norrænu eldfjallastöðvarinnar. Unnið er að málinu á grundvelli viljayfirlýsingar sem háskólaráð og skrifstofa Norrænu ráðherranefndarinnar hafa undirritað með fulltingi menntmrn. Meðal þess sem gengið er út frá er að hin nýja Jarðvísindastofnun verði skipulagslega hluti af Raunvísindastofnun en þó mjög sjálfstæð. Lögformlega gerist samruninn með yfirtöku Háskóla Íslands á verkefnum Norrænu eldfjallastöðvarinnar sem samhliða verður lögð niður sem sjálfstæð norræn stofnun.

Í samningaviðræðum hefur verið miðað við að störf hjá Norrænu eldfjallastöðinni verði lögð niður og starfsmönnum boðin störf við sambærileg verkefni hjá nýrri Jarðvísindastofnun. Vegna ákvæða 7. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, um auglýsingaskyldu er nauðsynlegt að breyta ákvæðum laga um Háskóla Íslands til þess að bjóða megi störf með þessum hætti en sú leið hefur áður verið farin við færslu verkefna á milli stofnana.

Frú forseti. Ég hef rakið efni frv. í meginatriðum. Ég legg til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. menntmn. og 2. umr.