Lífsýnatökur úr starfsfólki

Fimmtudaginn 01. apríl 2004, kl. 14:07:08 (6009)

2004-04-01 14:07:08# 130. lþ. 93.95 fundur 454#B lífsýnatökur úr starfsfólki# (umræður utan dagskrár), félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 130. lþ.

[14:07]

Félagsmálaráðherra (Árni Magnússon):

Hæstv. forseti. Ég tel að þessi umræða sem hér hefur farið fram sé bæði gagnleg og tímabær. Heilsa fólks er mikilvæg. Hún er mikilvæg í einkalífi og hún er mikilvæg á vinnustað. Samspilið milli vinnuverndar og persónuverndar í þessu sambandi er því þýðingarmikið og tryggja þarf ákveðið jafnvægi í þeim efnum.

Umræða um þessi mál hefur farið fram á vettvangi Evrópusambandsins og Evrópuráðsins sem og á vettvangi Alþjóðavinnumálastofnunarinnar. Megininntakið í þeim sjónarmiðum sem þar hafa komið fram er í samræmi við það sem ég lýsti fyrr í máli mínu. Í því felast sjónarmið um að gagnvirkni sé á milli löggjafar á sviði vinnuréttar og vinnuverndar annars vegar og löggjafar um persónuvernd hins vegar. Söfnun persónuupplýsinga vinnuveitenda getur átt rétt á sér í ákveðnum tilvikum en vinnslu slíkra upplýsinga þarf að meta hverju sinni og gæta þess að ganga ekki lengra en brýnasta þörf krefur.

Auk þess eiga íslensk stjórnvöld áheyrnaraðila að svokallaðri 29. greinar nefnd sem starfar á grundvelli tilskipunar nr. 95/46 og fjallar um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga sem Persónuvernd annast. Þar hefur m.a. verið fjallað um söfnun og varðveislu persónuupplýsinga starfsmanna af hálfu vinnuveitenda. Það er því ljóst að þessi mál hafa víðar verið rædd, hæstv. forseti.

Ég ítreka að það kunna að vera ýmis málefnaleg rök fyrir því að vinnuveitandi fari fram á það að setja í ráðningarsamninga slík skilyrði sem hér eru rædd. Það ætti ekki að vera meginregla, hæstv. forseti, því hef ég ekki haldið fram við þessa umræðu. Það er rangt, hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson. Ég hvet til áframhaldandi umræðu um þessi mál og ég mun ekki láta mitt eftir liggja hvað varðar þær hliðar sem að mínu ráðuneyti snúa. Það er mikilvægt að Samtök atvinnulífsins, stéttarfélög, vinnueftirlit, félags- og heilbrigðisyfirvöld og stjórnmálamenn haldi áfram umræðu um þessi mál.

Ég ítreka, hæstv. forseti, að ég mun beita mér fyrir því að umræðan verði tekin upp innan Vinnueftirlits ríkisins.