Atvinnuleysistryggingar

Fimmtudaginn 01. apríl 2004, kl. 14:33:47 (6012)

2004-04-01 14:33:47# 130. lþ. 93.5 fundur 816. mál: #A atvinnuleysistryggingar# (hækkun bóta) frv., StP
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 130. lþ.

[14:33]

Steinunn K. Pétursdóttir:

Virðulegi forseti. Ég tel það gleðiefni sem hér er rætt. Hækkun bóta til atvinnulausra ber tvímælalaust að fagna og ég má til með að nota tækifæri það sem ég hef hér í ræðustól til að hrósa hæstv. félmrh. fyrir framgöngu sína í málinu, að stíga þetta skref og bæta á þennan hátt lífsskilyrði þeirra sem án atvinnu eru, að einhverju leyti.

Mig langar hins vegar að nefna að ég hef kynnt mér ályktun flokksþings Framsfl. frá síðasta ári í fjölskyldumálum og ég verð að segja, frú forseti, að margt í þeirri stefnu er góðra gjalda vert. Hins vegar virðist sem hugur fylgi kannski ekki alveg máli hjá þingmönnum flokksins, a.m.k. ekki hvað varðar atvinnuleysisbæturnar. Mig langar, með leyfi forseta, að vitna í þessa ályktun. Þar segir:

,,Skoða verði hvort mögulegt sé að atvinnuleysisbætur verði ákveðið hlutfall af launum sem hinn atvinnulausi fékk síðast greitt.``

Þetta tel ég vera ágætistillögu og ég væri mjög hlynnt því að þetta mál yrði skoðað. Hins vegar er auðséð að þetta frv. sem nú er til umræðu felur ekki í sér þessa breytingu sem Framsfl. ákvað að skoða. Hækkun fullra atvinnuleysisbóta í 88.700 kr. á mánuði er ekki í samræmi við þá stefnu sem flokkurinn boðaði á flokksþingi sínu. Því hlýt ég að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann hafi hugsað sér að framfylgja áðurnefndri ályktun, þessari fínu ályktun, í ráðherratíð sinni.