Vatnsveitur sveitarfélaga

Fimmtudaginn 01. apríl 2004, kl. 14:37:20 (6014)

2004-04-01 14:37:20# 130. lþ. 93.12 fundur 576. mál: #A vatnsveitur sveitarfélaga# (heildarlög) frv., Frsm. HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 130. lþ.

[14:37]

Frsm. félmn. (Hjálmar Árnason):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir nál. félmn. um frv. til laga um vatnsveitur sveitarfélaga.

Nefndin fjallaði nokkuð ítarlega um frv., fékk fjölmarga gesti til sín og skriflegar umsagnir eins og tilgreint er á þskj. 1264.

Þetta frv. byggir á frv. sem áður hefur verið lagt fyrir hv. Alþingi en hlaut þá ekki endanlega afgreiðslu. Megintilgangur þess er að auka sveigjanleika í stjórn og rekstri á vatnsveitum.

Eins og ég nefndi hefur þetta frv. áður komið til þingsins án þess að hljóta afgreiðslu en fékk þá málefnalega umfjöllun og ýmsar ábendingar og frv. í núverandi mynd hefur tekið nokkurt mið af þeim ábendingum. Það sem er kannski meginatriðið þar er að í þessu frv. má segja að tekið sé á heildarlögum um vatnsveitur sveitarfélaga og ákvæði um einstaka þætti þess eru gerð nokkuð skýrari.

Það er meginatriði í þessu að samkvæmt efni frv. er ekki gert ráð fyrir kostnaðarauka fyrir sveitarfélögin en skapi hins vegar sveitarfélögunum möguleika á að hagræða í rekstri vatnsveitna sem hlýtur að vera sveitarfélögunum og íbúum sveitarfélaganna til hagsbóta.

Sú breyting efnisleg er einnig gerð frá fyrra frv. að stofn til útreiknings á vatnsgjaldi er núna tengdur fasteignamati en var áður tengdur álagsstofni og talið er að það geri rekstur allan skýrari og einfaldari gagnvart vatnsnotendunum.

Í 4. gr. frv. eru ákvæði sem mæla fyrir um heimild sveitarfélags til ráðstöfunar á einkarétti sveitarfélags. Þau ákvæði hlutu nokkuð ítarlega umfjöllun innan nefndarinnar og má segja að nokkuð skiptar skoðanir hafi verið um þau enda eru fyrirvarar hjá nokkrum hv. nefndarmönnum sem fylgja nál. þessu byggðir á 4. gr. En það er niðurstaða meiri hlutans í nefndinni að réttur sveitarfélaga sem leggja stofnveitur sínar inn í stærri stofnun eða félag með samruna, eins og þekkist bæði hjá Orkuveitu Reykjavíkur, Hitaveitu Suðurnesja og fleirum, sé tryggður nægjanlega með skýru ákvæði um innlausnarrétt þessara sveitarfélaga ef þau kjósa að ganga út úr slíku samstarfi aftur. Það er sem sagt niðurstaða meiri hluta nefndarinnar að þetta innlausnarákvæði, réttur sveitarfélaganna til innlausnar, sé tryggður með þessum hætti og þar með hagsmunir sveitarfélagsins og í rauninni eignarréttur yfir vatnsréttindunum.

Hitt atriðið varðar 10. gr. frv., um gjaldskrá vatnsveitu, og skal svo sem engan undra að það ákvæði var mikið rætt. Þar stangast á tvö meginsjónarmið, annars vegar það að menn vilja nánast gefa þeim alveg opna heimild til þess að hafa arðsemi mikla. Með það að leiðarljósi óttast ýmsir að þar með sé verið að skapa ákveðinn grundvöll fyrir einkavæðingu og að gera vatnsveitur að fýsilegum kosti fyrir einkafjárfesta. Hins vegar liggur fyrir að það er ekki markmið þessa frv. Á hitt ber einnig að líta að það að byggja upp vatnsveitur og halda þeim við gerir auðvitað kröfu um eðlilega arðsemi þannig að borð sé fyrir báru og vatnsveiturnar geti haldið áfram að þróast tæknilega og þar fram eftir götunum.

Segja má að frv. sé málamiðlun þar á milli og í stað þess að nefna einhverja tiltekna arðsemisprósentu er vísað til almennra heimilda á grundvelli sveitarstjórnarlaganna þar sem segir að sveitarfélög skuli setja sér stefnu um arðgjafar- og arðgreiðslumarkmið í rekstri fyrirtækja sinna. Með því að vísa í hin almennu sveitarstjórnarlög telur meiri hlutinn að verið sé að leysa þennan vanda ef vanda skyldi kalla.

Meira þarf í rauninni ekki um þetta að segja, virðulegur forseti. Undir nál. rita auk þess sem hér stendur hv. þm. Guðjón Hjörleifsson, með fyrirvara, Birkir Jón Jónsson, Ásta Möller, Pétur H. Blöndal, Helgi Hjörvar, með fyrirvara, Jóhanna Sigurðardóttir, með fyrirvara, sem og Valdimar L. Friðriksson.

Meiri hluti nefndarinnar mælir með samþykkt frv. óbreytts.