Vatnsveitur sveitarfélaga

Fimmtudaginn 01. apríl 2004, kl. 15:14:12 (6024)

2004-04-01 15:14:12# 130. lþ. 93.12 fundur 576. mál: #A vatnsveitur sveitarfélaga# (heildarlög) frv., JóhS
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 130. lþ.

[15:14]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Hæstv. forseti. Við þingmenn Samf. í hv. félmn. höfum skrifað undir þetta nál. með fyrirvara en ásamt mér eru það Helgi Hjörvar og Valdimar L. Friðriksson. Við styðjum málið en fyrirvari okkar varðar efni 4. gr. frv. sem ég vil lýsa nokkru nánar.

Eins og fram hefur komið í máli hv. þm. Ögmundar Jónassonar hafa verkalýðsfélögin, þ.e. bæði BSRB og Alþýðusamband Íslands, gert mjög harðar og alvarlegar athugasemdir við 4. gr. sem að þeirra mati er þannig að þau óttast að þetta sé fyrsta skrefið að því að setja vatnsveitur úr höndum sveitarfélaga og setja þær til einkaaðila.

[15:15]

Ég minnist þess ekki að Alþýðusamband Íslands hafi á fyrri stigum málsins, þegar það var til umfjöllunar á 128. löggjafarþingi, sett fram svona harðar athugasemdir við það og við teljum full efni til þess að taka mark á þeirri umsögn sem kemur frá Alþýðusambandi Íslands um málið.

BSRB skilar mjög ítarlegri umsögn og er efni hennar að mörgu leyti svipað þeim athugasemdum sem fram koma hjá ASÍ. BSRB segir, með leyfi forseta, að ekki sé ,,hægt að afsala þessari lögboðnu skyldu að öllu eða hluta til í hendur einkaaðila og gera vatn þar með að markaðsvöru þar sem þeir einir fái notið sem greiði uppsett verð.``

BSRB lagði til ákveðna breytingartillögu við frv. sem það rökstyður svo, með leyfi forseta:

,,Þó BSRB telji þá skilyrðingu á meðhöndlun hlutabréfa í hugsanlegri hlutafélagavæddri vatnsveitu sveitarfélagsins, sbr. 2. mgr. 4. gr., vera til bóta frá fyrra frumvarpi sama efnis, þá telur BSRB hana ekki fullnægjandi. Vill BSRB benda á að þó svo framsal sveitarfélags á einkarétti sínum og skyldum sé bundið við stofnun eða félag sem er í meirihlutaeigu ríkis og/eða sveitarfélaga, þá hindrar það ekki einkaaðila sem þátttakanda í því hlutafélagi að fara þar með ráðandi hlut.

BSRB leggur því til að orðin ,,að meiri hluta`` í 2. mgr. 4. gr. verði felld brott.``

Það er raunverulega sú tillaga sem við fulltrúar Samf. í félmn. tökum undir og leggjum til að þau orð falli brott. Ef sú breytingartillaga nær fram að ganga mundi þessi málsliður 4. gr. orðast svo, með leyfi forseta:

,,Sveitarstjórn er heimilt að fela stofnun eða félagi, sem er í eigu ríkis og/eða sveitarfélaga, skyldur sínar og réttindi samkvæmt þessum lögum.``

Ég vil aðeins fá að vitna örstutt í stutta umsögn Alþýðusambands Íslands sem lýsir fullkomlega þeim sjónarmiðum sem standa að baki breytingartillögu okkar en í umsögn ASÍ segir, með leyfi forseta:

,,Það er skoðun ASÍ að aðgangur að vatni sé eitt af grundvallarmannréttindum og ber að líta á það í ljósi samfélagslegra sjónarmiða og heilbrigðisþátta fremur en viðskiptasjónarmiða. ASÍ lítur því svo á að það sé skylda sveitarfélaga að tryggja nægilegt, ódýrt og hreint vatn og það sé réttur íbúa viðkomandi sveitarfélaga að hafa tryggan aðgang að vatnsveitum í opinberri eigu.``

Það kom mjög ítarlega fram bæði í umsögn ASÍ og BSRB líka að þau telja að reynsla annarra þjóða hafi sýnt að þar sem opinberar vatnsveitur hafa verið einkavæddar hafi þjónusta þeirra yfirleitt versnað og vatnsgjöld hækkað. Er það mjög ítarlega rökstutt einkum í umsögn BSRB, sem ég ætla ekki að fara út í nánar, en þetta eru hlutir sem þessir aðilar hafa kynnt sér sem ástæða er til að taka mark á.

Og áfram segir í umsögn ASÍ, með leyfi forseta:

,,Frumvarpið opnar fyrir þann möguleika að hlutafélagavæða vatnsveiturnar. ASÍ óttast að þetta sé fyrsta skrefið í því að selja vatnsveitur úr höndum sveitarfélaga og selja þær til einkaaðila. Reynsla annarra þjóða hefur sýnt það að þar sem opinberar vatnsveitur hafa verið einkavæddar hefur þjónusta þeirra yfirleitt versnað og vatnsgjöld hækkað. Vatnsveitur eru hluti af almennri grundvallarþjónustu við almenning og fyrirtæki auk þess að vera í einokunaraðstöðu. Því er mikilvægt að tryggja að vatnsveitur verði ekki seldar einkaaðilum í framtíðinni, né að rekstur þeirra verði settur undir markaðslegar forsendur um skammtímahagnað. ASÍ leggur áherslu á að vatn er ekki venjuleg verslunarvara og að vatnsveitur hafa samfélagslegu hlutverki að gegna. Þær á því ekki að reka með hagnaði, heldur á miða vatnsgjöld og aðrar tekjur við það að þær standi undir stofnkostnaði og rekstri vatnsveitunnar.

Það er grundvallarsjónarmið ASÍ að vatnsveitur séu í eigu opinberra aðila þar með talið grunnvatnsréttindi, vatnsból, fasteignir vatnsveitunnar, fastur tækjabúnaður, vatnsæðar og aðrir fastafjármunir.

Ákvæði í 1. mgr. 4. gr. frumvarpsins á að tryggja það að rekstur vatnsveitna verði ekki falinn einkaaðila eða lögaðila sem ekki er að meiri hluta í eigu opinberra aðila. Það er hins vegar mat ASÍ að þetta ákvæði sé gallað og komi ekki í veg fyrir að einkaaðili nái ráðandi hlut í því fyrirtæki sem sveitarfélagið hefur framselt einkahlut sinn til vatnsveitu. Hægt er að hugsa sér þær aðstæður þar sem samanlagður hlutur opinberra aðila er 51% en einn einkaaðili fer með 49% hlut og fer þar með ráðandi hlut í félaginu. Því er mikilvægt að tryggja að einn einstakur opinber aðili fari með ráðandi hlut í félaginu eða stofnuninni.``

Það er einmitt þetta sem sú breytingartillaga á að tryggja sem við flytjum hér og ég hef lýst.

Ég tel út af fyrir sig ekki ástæðu til að fara efnislega frekar ofan í málið. Það voru miklar umræður um heimild til arðgreiðslu sem aðrir ræðumenn hafa komið inn á á undan mér og skal ég ekki ræða það, enda var niðurstaðan sú að gera engar breytingar á frv. að því er þann þátt varðar. Ég vil þó aðeins í lokin nefna að ég hef að sumu leyti nokkrar áhyggjur af því ákvæði sem kemur inn í 6. mgr. 5. gr. sem kveður á um að krefja notendur um hluta kostnaðar í þeim tilvikum þegar nauðsynlegt er vegna stærðar og/eða nýtingar vatnseignar að auka vatnsþrýsting hennar m.a. vegna brunavarna. Maður veltir þá fyrir sér hvort verið er að setja nýjar gjaldtökur á eða hvaða fjárhagsleg áhrif það hefur. Þau svör sem við fengum eru að ákvæðið væri nýmæli og komi inn að tillögu Samorku og menn treysta sér ekki til að segja neitt um fjárhæðir en gera ráð fyrir að þær geti í einstökum tilvikum verið verulegar. Í athugasemdum við frv. segir einmitt um þetta, með leyfi forseta:

,,Jafnframt er lagt til að í 6. mgr. komi heimild til að krefja notendur um hluta kostnaðar í þeim tilvikum þegar nauðsynlegt er vegna stærðar og/eða nýtingar fasteignar að auka vatnsþrýsting til hennar. Meðal annars getur reynt á ákvæðið vegna krafna um brunavarnir en samkvæmt gildandi lögum ber sveitarstjórn allan kostnað af vatnsöflun vegna brunavarna.``

Eftir því sem upplýst var í nefndinni eru röksemdir Samorku fyrst og fremst þær að eðlilegt sé að framkvæmdaraðili taki a.m.k. þátt í hluta af kostnaði þegar framkvæmdir krefjast þess að ráðist verði í sérstakar ráðstafanir vegna eðlis þeirrar starfsemi sem fram á að fara í húsinu. Nú má vera að þessar röksemdir eigi fyllilega rétt á sér en það er alltaf óþægilegt, finnst mér, að afgreiða frá sér ákvæði eða frv. og gera það að lögum án þess að menn geri sér fyllilega grein fyrir hvaða útgjöld það hafi í för með sér fyrir notendur. En eftir því sem við komumst næst eftir yfirferð í félmn. um þessi mál er gengið út frá því að þetta ákvæði frv. verði ekki íþyngjandi fyrir notendur og muni ekki hafa áhrif til hækkunar á gjaldskrá. Í trausti þess, hæstv. forseti, munum við styðja málið með þeirri undantekningu og fyrirvara sem ég hef lýst og leggjum til að sú breytingartillaga sem við höfum flutt verði samþykkt.